Föstudagskveðja

Áfram æðir skólaárið og apríl rúmlega hálfnaður, veðrið minnir okkur þó kannski ekki á að sumarið sé handan við hornið en við skulum vona að nú fari að vora hjá okkur.

Í vikunni fengu nemendur í 8.-10. starfakynningu á námi og störfum slökkviliðsfólks en kynningin var hluti af valgreininni starfakynningar. Höfðaskóli er einnig kominn í samstarfsverkefni á vegum Háskóla Íslands sem nefnist ,,Stækkaðu framtíðina" en verkefnið tengir fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins til að segja nemendum frá starfi sínu og menntun. Þannig víkkar sjóndeildarhringur nemenda og öll ungmenni á Íslandi fá tækifæri til að eiga fyrirmynd. Við höldum því áfram með starfakynningar næsta skólaár en verkefnið verður bundin valgrein hjá öllum nemendum í 8.-10. bekk. Nánar um verkefnið hér. 

Í byrjun maí munu liggja fyrir upplýsingar um hvaða valgreinar verða í boði á næsta skólaári og nemendur fá að velja, nánar um það síðar. 

Í gær var íþróttadagur yngsta stigs hjá okkur sem gekk vonum framar. Það var ekki annað að sjá en að nemendur hafi haft gaman af. Myndir frá deginum hér. 

Á þriðjudaginn í næstu viku fara unglingarnir á valgreinadag inn á Blönduós en næsta vika verður svo stutt í annan endan hjá okkur þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudag og skipulagsdagur á föstudag sem starfsfólk hefur unnið af sér. Það fá því allir langt helgarfrí þá helgina. 

Að lokum minnum við ykkur á að vera endilega í sambandi við okkur ef þið hafið einhverjar spurningar eða vangaveltur um skólastarfið og eins eru öll velkomin í kaffi til okkar, það er alltaf gaman að fá gesti. 

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa