Fréttir

Jólasöfnun

Heil og sæl Ár hvert leggja nemendur og starfsfólk Höfðaskóla góðu málefni lið í desember í stað þess að skiptast á gjöfum. Í ár söfnuðust 62.000 krónur sem renna til Velunnarasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar. Við þökkum öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið kærlega fyrir. Ef einstaklingar vilja styrkja sjóðinn eru reikningsupplýsingarnar: 701121-1550 0133-26-004985. Jólakveðja Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla
Lesa meira

Ljósaganga og jólatrall

Í dag er margt um að vera hjá okkur. Við byrjuðum daginn á ljósagöngu, leiðtogi göngunnar var Emilía Rut Friðfinnsdóttir og genginn var stuttur hringur um bæinn. Eftir gönguferðina kom Ástrós Elísdóttir og las fyrir okkur jólasögu og þar á eftir Hugrún Sif og Jón Ólafur og spiluðu undir í nokkrum jólalögum. Dregið var úr stærðfræðiþrautakeppni og voru sigurvegararnir þau Ragnar Viðar Haraldsson, 1. bekk, Lárey Mara V. Sigurðardóttir, 7. bekk og Ellert Atli Þrastarson, 9. bekk. Öll fengu þau spilið Krakkakviss í verðlaun. Sú hefð hefur skapast í Höfðaskóla að nemendur 1. bekkjar ár hvert setja merkta jólakúlu á jólatréð okkar, með nafninu sínu og ártali og setti árgangur 2017 kúlurnar sínar á tréð í dag. Nemendur á mið- og unglingastigi fóru í sameiginlega Kahoot keppni og skemmtu sér vel. Við endum svo daginn á möndlugrautnum okkar góða. Nóg um að vera í dag og svo er komið að litlu jólunum á morgun. Myndir hér.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Það er ansi viðburðarík vika að baki í Höfðaskóla. Á mánudaginn vorum við með menntabúðir og opið hús sem var vel sótt og er alltaf skemmtilegt. Við fengum marga góða gesti til okkar og krakkarnir stóðu sig öll mjög vel í sínum verkefnum. Á miðvikudaginn var söngsalur, á fimmtudag jólaföndur og í dag var boðið upp á piparkökur og kakó í nestistímanum. Sérlegur aðstoðarmaður við kakógerðina var Ragnar Viðar, nemandi í 1. bekk og stóð hann sig með stakri prýði. Nemendur í 1.-5. bekk fóru einnig upp í Fellsborg nú í morgunsárið og dönsuðu Zumba. 10. bekkur skreytti jólatréð okkar, svo það er klárt fyrir litlu jólin. Myndir frá deginum í dag eru hér. Nú er heldur betur farið að styttast í jólafrí. Á mánudaginn ætlum við að byrja daginn í friðargöngu, labba saman stuttan hring um bæinn okkar og væri gott ef nemendur kæmu með LED kerti með sér í skólann. Þann dag ætlar Ástrós Elísdóttir að heimsækja okkur og lesa jólasögu og Jón Ólafur Sigurjónsson (Jonni húsvörður) ætlar að spila undir í nokkrum jólalögum fyrir okkur. Í hádeginu á mánudaginn verður möndlugrauturinn okkar góði og eru nemendur beðnir um að koma með plastskál og skeið með sér í skólann. Engin kennsla verður eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði. Á þriðjudaginn eru litlu jólin okkar, en nánari upplýsingar um þau koma frá umsjónarkennurum. Skólinn hefst kl. 9:00 þann dag og halda nemendur í jólafrí kl. 12:00. Ekki verður boðið upp á hafragraut þann dag og ekki frístund eftir hádegi. Jólasöfnunin okkar gengur vel og hafa velunnarar skólans einnig lagt söfnuninni lið. Ef einhver vill taka þátt í að safna fyrir Jólasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar má hafa samband við okkur á hofdaskoli@hofdaskoli.is, koma við hjá okkur eða senda einhvern með framlag til okkar í skólann. Þessu verður öllu komið til skila eftir að litlu jólunum er lokið. Nú er síðasta helgin fyrir jól framundan og eflaust nóg að gera hjá flestum. Við vonum þó að allir nái að staldra aðeins við og njóta með sínu nánasta fólki, því þegar öllu er á botninn hvolft er það samveran með fólkinu sem okkur þykir vænt um sem skiptir mestu máli. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Mílan

Frá því að skóli var settur í haust hafa nemendur í 6. og 7. bekk farið út á mánudögum og föstudögum og gengið u.þ.b. eina mílu í hvert skipti. Gaman er að segja frá því að aldrei hefur þurft að fella niður göngutúrana vegna veðurs. Við vonum að það verði eins eftir áramótin.
Lesa meira

Jólaföndur

Í dag var jólaföndur hjá öllum nemendum skólans. Föndurstöðvar voru víðsvegar um skólann og gátu nemendur flakkað á milli og fundið eitthvað við sitt hæfi. Notaleg stund þar sem mörg glæsileg listaverk voru föndruð. Myndir hér.
Lesa meira

Leiksýning

Í gær buðu nemendur í einum af list- og verkgreinahópunum í 4.-7. bekk nokkrum á leiksýningu, en þau voru búin að setja saman jólaleikþátt. Virkilega skemmtilegt og vel útfært hjá þeim.
Lesa meira

Jólamatur

Í gær fengu nemendur dýrindis jólamat í hádeginu og borðuðu allt upp til agna. Það þarf þó enginn að örvænta, boðið verður upp á jólamat aftur á föstudag og þá er hægt að fá sér aftur. Myndir hér.
Lesa meira

Jólasöngur á sal 13. desember 2023

Í dag komu Hugrún og Elvar aftur í heimsókn til okkar og við sungum nokkur jólalög saman. Skemmtileg jólastund. Fleiri myndir komnar í jólasöngsalbúmið okkar hér.
Lesa meira

Farsæld barna í Höfðaskóla

Kæru foreldrar grunnskólanemenda á Skagaströnd Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innihalda. Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi. Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans má sjá hver hefur hlutverk sem tengiliður í Höfðaskóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá Félags- og skólaþjónustu A-Hún eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni um samþættingu þjónustu beint til tengiliðar.
Lesa meira

Menntabúðir og opið hús

Mánudaginn 11. desember voru menntabúðir og opið hús hjá okkur í Höfðaskóla. Nemendur kynntu bæði verkefni og ýmsar aðferðir sem þau nota í verkefnavinnu fyrir gestum og gangandi. Að venju var viðburðurinn vel sóttur og þökkum við öllum sem komu kærlega fyrir komuna. Það gleður okkur alltaf mikið þegar fólk gefur sér tíma í dagsins önn til að stoppa við hjá okkur og sjá afrakstur mikillar vinnu hjá nemendum. Fleiri myndir hér.
Lesa meira