Stoðþjónusta

Stoðþjónusta er samheiti yfir stuðningskerfi sem styður við almenna kennslu innan skólans. Stoðþjónusta getur falist í ráðgjöf til kennara varðandi kennslu eða annað er snýr að nemendum. Helstu verkefni stoðþjónustu snúa þó að nemendum og varða kennslu og stuðning til lengri eða skemmri tíma og/eða mat á stöðu þeirra.

Stoðþjónustan nær yfir sérkennslu og stuðning, námsráðgjöf og sálfræðiaðstoð og innan hennar starfa eftirfarandi aðilar:

  • Sérkennari sem sér um sérkennslu ýmist í hópum eða einstaklingsbundið, inni í bekk eða í sérkennslustofu.  Aðstoði kennara við aðlögun námsefnis og námsmats þegar þörf er á og vinna einstaklingsnámskrár og áætlanir fyrir nemendur í samvinnu við kennara.
  • Stuðningsfulltrúar vinna undir leiðsögn umsjónarkennara/kennara við að styðja nemendur námslega og félagslega. Þeir vinna mest inni í bekk bæði með einstaklingum og hópum.
  • Námsráðgjafi standi vörð um velferð allra nemenda, styðji þá og liðsinni í málum sem snerta nám, skólavist, framhaldsnám og starfsval. Jafnframt sinnir hann ráðgjöf til kennara.
  • Sálfræðiaðstoð fer í gegnum skóla-og félagsþjónustu A-Hún

Stoðþjónustan starfar í samræmi við lög um grunnskóla, reglugerð um nemendur með sérþarfir og reglugerð um sérfræðiþjónustu í skólum. Samkvæmt þeim lögum er skóli án aðgreiningar sú stefna sem unnið er eftir í Höfðaskóla. Í því felst, samkvæmt reglugerð nr. 585/2010, að skólinn sé fyrir öll börn á skólaskyldualdri, sem búa á Skagaströnd og í Skagabyggð, og eru á skólaskyldualdri og að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga í erfiðleikum með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun eða geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengda erfiðleika teljast einnig til nemenda með sérþarfir.