20.-22. apríl

Heil og sæl

Vikan sem nú er að líða gekk vel. Nú eru tvær vikur eftir með takmörkunum á skólastarfi og þann 4. maí vonumst við til að geta hafið skólastarf án takmarkana að nýju. 

Nú sem fyrr minnum við foreldra á að kjósi þeir að halda börnum sínum heima á meðan á samkomubanni stendur þarf að tilkynna það hér.

Í næstu viku ætlum við aftur að láta á það reyna að bjóða öllum stigum upp á að mæta í skóla, ef það breytist munum við senda út tilkynningu þess efnis. 

Ein breyting frá þessari viku en hún er sú að einn kennari sér um hvern hóp, ef sá kennari forfallast verður hópurinn hans heima þann daginn, en þetta á við um mið- og unglingastig. 

Annars er skipulagið eftirfarandi, athugið að sumardagurinn fyrsti er á fimmtudag og starfsdagur á föstudag, svo vikan er stutt hjá nemendum. 

Yngsta stig mætir í skólann kl. 8:00 og taka umsjónarkennarar á móti þeim. Þeirra skóladegi lýkur kl. 12:00.

Miðstig mætir í skólann kl. 8:30 og taka umsjónarkennarar á móti þeim. Þeirra skóladegi lýkur kl. 12:15.

Unglingastig mætir í skólann kl. 9:00 og taka kennarar á móti þeim. Þeirra skóladegi lýkur kl. 12:30.

Nemendur vinna áfram í litlum hópum þar sem við munum eftir fremsta megni reyna að tryggja tveggja metra bil milli fólks.

Við minnum einnig á að ef nemendur eða aðrir fjölskyldumeðlimir finna fyrir flensueinkennum eru þau vinsamlegast beðin um að halda sig heima þar til það gengur yfir. Einnig minnum við á tilmæli þess efnis að halda nemendum í sömu hópum eftir skóla og þau eru í, í skólanum, ætli þau að leika við önnur börn eftir að skóladeginum lýkur, sjá tilmæli frá landlækni hér

Hádegismatur verður ekki í boði þessa viku né ávaxtastund á miðvikudag. Frístund fellur sömuleiðis niður. Einnig minnum við á að unglingadeild þarf að koma með nesti með sér þar sem ekki er í boði að fara í búðina í frímínútum. 

Endilega hafið samband ef spurningar vakna

Kærar kveðjur

Sara Diljá og Guðrún Elsa