Annáll og jólakveðja stjórnenda

Heil og sæl

Senn er árið 2021 á enda, viðburðaríkt og margt sem hefur sett svip sinn á skólastarfið hjá okkur.

Janúar og febrúar voru með rólegra móti. Veðrið var ekki til mikilla trafala og gerðum við gott úr því sem okkur var rétt. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt þó okkur hafi verið þröngur stakkur sniðinn sökum heimsfaraldurs. Nemendafélag Höfðaskóla tók formlega til starfa og eru það nemendur á unglingastigi sem skipa stjórn þess. Nemendur á yngsta stigi heimsóttu Spákonuhof 22. janúar í kjölfar verkefnavinnu tengdri þorranum. Höfðaskóli lenti í 3. sæti á landsvísu í grunnskólakeppni Samróms og fékk verðlaun fyrir sitt framlag á Bessastöðum 27. janúar.  Nemendur í 10. bekk tóku þátt í rafrænu skemmtikvöldi hjá Nemendafélagi FNV og unglingar í forritunarvali heimsóttu nemendur á yngsta stigi og kenndu þeim á Sphero. 112 dagurinn var haldinn 11. febrúar og fengum við skemmtilega heimsókn frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitinni Strönd. Uppúr miðjum febrúar var unnið hörðum höndum að því að fjölga nemendum skólans þar sem fylgst var með níu hænueggjum í ferlinu frá eggi að unga og 17. febrúar var öskudagurinn þar sem hinar ýmsu verur mættu í skólann.

Í mars fengu nemendur á yngsta stigi ný borð og stóla og ungarnir níu komust allir úr eggi, 100% árangur og skólastarfið með líflegra móti. Danskennsla var vikuna 15.-19. mars og þótti flestum það skemmtilegt. Framsagnarkeppni Höfðaskóla, fyrir nemendur á miðstigi, var haldin í kirkjunni. Þemavika hjá nemendum unglingastigs, ein stöð á hverjum degi í viku. Páskafríið hófst aðeins fyrr en áætlað var vegna hertra sóttvarnaaðgerða en við tökum því sem höndum ber.

Í apríl var árshátíðin rafræn og Þorgrímur Þráinsson heimsótti unglingastigið með fyrirlesturinn ,,Verum ástfangin af lífinu" og nemendur í 9. og 10. bekk fóru á skyndihjálparnámskeið. Handritasamkeppni Árnastofnunar var haldin í samstarfi við Sögur- verðlaunahátíð barnanna og einn nemandi úr Höfðaskóla, Vésteinn Heiðarr Sigurðarson, var valinn sigurvegari ásamt 12 öðrum krökkum. Í lok apríl fengu nemendur 1.bekkjar hjálma að gjöf frá Kiwanis klúbbnum og 5. og 6. bekkur fóru í heimsókn á Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.

Maí gekk í garð og nemendur í 1. og 2. bekk tóku honum fagnandi með sápukúlublæstri og yngsta stig fór í fjöruferð. Leiklistarval unglingastigs lauk sinni vinnu þar sem leikritið ,,Klippt og skorið - morðgáta" var tekið upp. Vegna þeirra takmarkana sem giltu um skólastarf var ekki hægt að vera með sýningar með hefðbundnu sniði heldur var hægt að kaupa upptöku af leikritinu. Höfðaskóli varð skóli á grænni grein og fékk sinn fyrsta Grænfána. Annað árið í röð komst 10. bekkur ekki í utanlandsferðina sína vegna heimsfaraldurs en þau fóru í skemmtilega ferð innanlands í staðin. Ekki var hægt að hafa sameiginleg skólaslit í lok maí þegar viðburðaríku skólaári var slitið með pompi og prakt og nemendur héldu út í sumarið.

Skólaárið 2021-2022 hófst mánudaginn 23. ágúst, breyting var á skólasetningu vegna samkomutakmarkana og mættu nemendur beint í skólann en ekki í kirkjuna eins og venja var fyrir heimsfaraldur. 

Í september fór af stað hestaval á unglingastigi undir stjórn Höllu Maríu sem gekk vonum framar og einnig fengu nemendur unglingastigs fyrirlestur um fugla hjá Einari Ó. Þorleifssyni náttúrufræðingi hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra. Við nýttum fallegt haustveður til útivistar og nám í gegnum leik. 

Október og nóvember voru með rólegra móti, nemendur á unglingastigi sáu sýninguna Vloggið á Blönduósi en Þjóðleikhúsið var á leikferð um landið og tóku þátt í valgreinadegi með nemendum úr Blöndu- og Húnavallaskóla. Samtökin 78 voru með fræðslu fyrir öll stig skólans ásamt fræðslu fyrir starfsfólk og forráðamenn. Menntabúðir voru haldnar 2. nóvember þar sem forráðamenn, ættingjar og aðrir velunnarar skólans voru hjartanlega velkomnir að kíkja í heimsókn og kynna sér hin ýmsu tæki og tól til kennslu, mæting og áhugi fóru fram úr björtustu vonum. Í byrjun nóvember var okkar árlegi flippíþróttadagur haldinn að þessu sinni var hann innandyra en það var ekki til að skemma stemninguna. Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur 16.nóvember og þemavika var á unglingastigi vikuna 22.-25. nóvember þar sem kennt var heimilisfræði, myndmennt, tálgun og plastvinna. 

Nú í desember höfum við verið að reyna brjóta upp hefðbundið skólastarf. Við fórum með yngsta stig og tendruðum ljósin á jólatrénu, fengum jólasveina í heimsókn, héldum föndurdag, söngsal, jólastund, möndlugraut og að lokum litlu jólin okkar sem voru einstaklega notaleg þrátt fyrir breytta dagskrá vegna takmarkana. 

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og óhætt að segja að við séum enn að takast á við aðstæður sem engum óraði fyrir að kæmu upp. Með samheldni og samstöðu höfum við komist í gegnum vikurnar eina af annarri og höldum því áfram á nýju ári. 

Við erum ótrúlega þakklátar fyrir þá þolinmæði og þann skilning sem skólasamfélagið allt hefur sýnt í þessu ástandi öllu.

Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með heimasíðunni okkar, við erum dugleg að setja inn fréttir og aðrar upplýsingar.

Að lokum langar okkur að þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonum að þið eigið góð og gleðileg jól.

Með góðum jólakveðjum
Guðrún Elsa, Dagný Rósa og Sara Diljá