Annáll og jólakveðja stjórnenda

Heil og sæl

Hér kemur síðasta föstudagskveðja ársins 2020. Senn er hið viðburðaríka 2020 á enda og margt sem hefur sett svip sinn á skólastarfið hjá okkur.

Janúar og febrúar voru með rólegra móti. Veðrið lék okkur aðeins grátt sem hafði áhrif á skólahaldið. Við gerðum þó ýmislegt, unnum að umhverfissáttmála skólans og birtum hann á heimasíðu, yngsta stig hélt þorrablót, 112 dagurinn var haldinn 11. febrúar og fengum við skemmtilega heimsókn frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitinni Strönd. 17. febrúar héldu nemendur í viðburðarstjórn Bingó þar sem allur ágóði rann til Krabbameinsfélags Austur Húnavatnssýslu. Í lok febrúar var svo öskudagurinn þar sem hinar ýmsu verur mættu í skólann og í lok febrúar var formlega tekið í notkun nýtt bókasafn Höfðaskóla. 

Í mars var margt sem breyttist. Á okkur skall heimsfaraldur og bretta þurfti upp ermar og skipuleggja skólastarf uppá nýtt. Með ótrúlegri samstöðu nemenda, starfsfólks, foreldra/forráðamanna og skóla samfélagsins alls komumst við í gegnum fyrstu bylgju COVID-19. Það var ekki margt sem við gátum gert vegna takmarkana, unglingarnir fóru þó út og mokuðu frá hurðum og ruslatunnum hér í bæ og íbúar voru hvattir til að setja bangsa út í glugga svo hægt væri að fara í bangsaleit um bæinn sem yngsta stig einmitt gerði. 

Í apríl voru áfram takmarkanir, það fór þó að vora og nemendur gátu tekið fram hjólin og farið í hjólaferð, miðstigið fór og plokkaði rusl og yngsta stig nýtti góða veðrið og æfði sig í skrift utandyra. 

Maí gekk í garð og aðeins var slakað á samkomutakmörkunum svo skólahald færðist í eðlilegt horf. Nemendur í 1. og 2. bekk tóku fagnandi á móti maí mánuði með sápukúlublæstri og yngsta stig fór í fjöruferð. Í maí fengum við góða gjöf frá Saumastofunni Írisi sem færðu okkur nýjar svuntur til að nota í heimilisfræði. 1. bekkur fékk reiðhjólahjálma í gjöf frá Kiwanis klúbbnum og við héldum flippíþróttadaginn okkar. 10. bekkur komst ekki út utanlandsferðina sína vegna heimsfaraldurs og fóru í skemmtilega ferð innanlands í staðin. Skólaslit Höfðaskóla voru svo 29. maí þar sem viðburðaríku skólaári var slitið með pompi og prakt og nemendur héldu út í sumarið. 

Skólaárið 2020-2021 hófst mánudaginn 24. ágúst, breyting var á skólasetningu vegna samkomutakmarkana og mættu nemendur beint í skólann en ekki í kirkjuna eins og vant er. 

Í september fór af stað hestaval á unglingastigi undir stjórn Höllu Maríu sem gekk vonum framar. Við héldum upp á dag íslenskrar náttúru þann 16. september og fengum heimsókn frá Lindu Ólafsdóttur og Lóu Hjálmtýsdóttur í tengslum við verkefnið hnýtum hugarflugur. 

Í október og nóvember skullu aftur á okkur hertar samkomutakmarkanir sem höfðu áhrif á skólastarfið. Aflýsa þurfti Reykjaskólaferð 7.bekkjar sem og valgreinahelgi sem stóð til að unglingarnir myndu fara á. Við náðum þó að koma á laggirnar nemendafélagi Höfðaskóla sem hefur ekki tekið formlega til starfa enn. Við héldum áfram vinnunni í tengslum við Grænfána verkefnið og stefnum að því að geta sótt um Grænfána á vordögum. 

Nú í desember höfum við verið að reyna brjóta upp hefðbundið skólastarf. Við fórum með yngsta- og miðstig og tendruðum ljósin á jólatrénu, fengum jólasveina í heimsókn, héldum föndurdag, söngsal, jólastund, möndlugraut og að lokum litlu jólin okkar í dag. 

Þetta ár hefur verið viðburðarríkt og óhætt að segja að við höfum tekist á við aðstæður sem engum óraði fyrir að kæmu upp. Með samheldni og samstöðu höfum við komist í gegnum vikurnar eina af annarri og höldum því áfram á nýju ári. 

Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með heimasíðunni okkar, við erum dugleg að setja inn fréttir og aðrar upplýsingar.

Að lokum langar okkur að þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonum að þið eigið góð og gleðileg jól.

Með jólakveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa