Föstudagsgleði

Sæl kæru vinir!

Áfram fljúga vikurnar og eftir að kennslu er lokið í dag eru aðeins 22 kennsludagar í jólafrí.

Í gær fór fram árshátíð Höfðaskóla og við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna.
Við stöllur hittum alla nemendur skólans á gangafundi nú í morgunsárið og hrósuðum þeim fyrir þeirra framlag til hátíðarinnar enda erum við ákaflega stoltar af þeim öllum. Það reynist mörgum mjög erfitt að koma fram fyrir framan hóp fólks og flytja leikþátt en krakkarnir rúlluðu þessu upp, hvert í sínu hlutverki. 
 
Á mánudaginn í næstu viku lýkur skóla á hádegi vegna málþingsins Saman gegn ofbeldi á Norðurlandi vestra sem haldið verður á Blönduósi og starfsfólk skólans ætlar að fjölmenna á. Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér. Frístund tekur við nemendum í 1.-4. bekk eftir hádegismat og mega allir nemendur vera í frístund til 14:00, hvort sem þeir eru skráðir þar eða ekki. Ef foreldrar kjósa frekar að barnið þeirra fari heim, vinsamlegast sendið umsjónarkennara tölvupóst þess efnis. 
 
Í dag sækja unglingarnir okkar netráðstefnuna ,,Hvernig skapa ég mína eigin framtíð?" Upplýsingar um viðburðinn má finna hér

Enn og aftur þökkum við kærlega fyrir gærdaginn, án ykkar kæru foreldrar hefði hátíðin ekki orðið eins glæsileg og raun bar vitni, takk fyrir ykkar framlag á kökuhlaðborð sem og við annan undirbúning.
 
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa