Fjöruhreinsun í samstarfi við BioPol

Nemendur í 6.-10. bekk Höfðaskóla fóru þriðjudaginn 29. maí og vörðu skóladeginum í að tína rusl í fjörunum í nágrenni Skagastrandar, með kennurum og starfsfólki frá BioPol. Tíundu bekkingar fóru lengst, því þeir hreinsuðu rusl í Kálfhamarsvík og víkinni norðan við hana. Sjötti og sjöundi bekkur byrjuðu sinn leiðangur í Bæjarvíkinni á Finnstaðanesinu og gengu svo alla leið heim að Salthúsinu með pokana sína. Krakkarnir í áttund og níunda bekk gengu síðan leiðina frá Vinhælisstapanum og heim að Bjarmanesi.

Á svæðinu við Kálshamarsvík safnaðist um 150 kg af rusli en ca 95% af því var alls konar plastefni. Þar voru áberandi stuttir grænir nælonspottar eins og eru  í trollum togara og snurvoðarbáta. Greinilega var um að ræða afskurð sem til fellur þegar verið er að gera við trollið og er hér með farið fram á það við sjómenn að þeir passi betur upp á þessa litlu spotta þannig að þeir fari ekki í sjóinn.

Á leiðinni frá Finnstaðanesi og heim tíndu nemendur upp 220 kg af alls kyns rusli. Þar á meðal voru gömul dekk og netadræsur auk alls plast- og járnaruslsins. Frá Vinhælisstapanum og heim voru dekk mest áberandi. Krakkarnir tíndu þau saman í stóran haug en síðan voru þau sótt á kerru og með dráttarvél. Giska má á að hér hafi verið um 60 – 70 dekk og dekkjarifrildi. Auk þess var tínt mikið af plasti eins og á hinum stöðunum.

Í þessu hreinsunarátaki, sem er hluti af umhverfismennt skólans,  var nemendunum uppálagt að skipta sér ekki af spýtum né fuglshræum sem telja má að séu “eðlilegir‘‘ hlutir í fjörum landsins, enda eyðast þeir með tímanum. Það er öfugt við plastið, sem sagt er að endist a.m.k 500 ár í náttúrunni. Nemendur voru sammála um að það kom þeim á óvart hve mikið af plastrusli þeir fundu á leið sinni og áttu erfitt með að ímynda sér hve mikið af því væri þá í hafinu við strendur landsins fyrst svo mikið rekur í fjörurnar.

Myndir tóku James Kennedy og Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir.