Kæru foreldrar og forráðamenn,
Nú er föstudagur runninn upp og enn ein viðburðarík vikan að baki í Höfðaskóla.
Við viljum þakka öllum kærlega fyrir frábæra mætingu á haustfundina sem haldnir voru í vikunni. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá svo marga foreldra og geta átt góð samskipti um skólastarfið framundan.
Þessa vikuna hófum við lesfimikannanir sem munu halda áfram fram í næstu viku.
Nemendur í 1.-7. bekk fengu góða heimsókn frá fulltrúum verkefnisins "List fyrir alla", sem kynntu fyrir þeim spennandi lestrarkeppni sem skólinn okkar tekur þátt í. Nemendur fylgdust af athygli og sýndu strax áhuga á þátttöku.
Berglind Björnsdóttir frá SSNV heimsótti unglingastigið og kynnti fyrir þeim ungmennaþingið sem haldið verður 7. október í félagsheimilinu á Blönduósi. Hún hvatti nemendur okkar til þátttöku og vakti áhuga þeirra á að láta raddir sínar heyrast í málefnum sem þeim eru mikilvæg.
Minnum á að útikennsla er mikilvægur þáttur í skólastarfinu okkar og ALLTAF er farið út, óháð veðri. Því er afar mikilvægt að nemendur séu klæddir eftir veðri og með viðeigandi útiföt meðferðis daglega.
Einnig viljum við árétta að Höfðaskóli er símalaus skóli. Við biðjum foreldra vinsamlegast að tryggja að nemendur skilji síma sína eftir heima, afhendi þá ritara eða geymi þá slökkta í töskunum sínum á skólatíma.
Góð samvinna heimilis og skóla er grundvöllur árangurs í námi og þroska nemenda. Við þökkum ykkur fyrir gott samstarf hingað til og hlökkum til framhaldsins.
Við óskum ykkur ánægjulegrar helgar
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |