Kæru foreldrar og forráðamenn,
Viðburðaríka vika í skólanum að líða undir lok þar sem nemendur hafa sýnt frábæra þátttöku og metnað í fjölbreyttum verkefnum.
Á þriðjudag var tvöfaldur dagur hjá okkur þar sem nemendur tóku þátt í umhverfisvernd með því að tína rusl á svæðinu frá Salthúsinu að Finnstaðanesi. Þrátt fyrir smá rigningu en heppilega logn, stóðu nemendur sig frábærlega og létu veðrið ekki á sig fá. Örlítil bleyta kom engum að óvart, enda nemendur okkar vel undirbúnir fyrir íslenskt veðurfar. Þetta verkefni var mikilvægt framlag til samfélagsins og umhverfisins, og nemendur sýndu bæði ábyrgð og dugnað. Myndir hér
Nemendur á miðstigi hafa haldið áfram að vinna að hönnun fjárrétta sinna og eru nú komnir á það stig að þeir vinna með nákvæmar mælingar. Þetta verkefni samþættir á frábæran hátt stærðfræði, hönnun og hagnýta þekkingu á landbúnaði. Myndir hér
Listaverk þessara sömu nemenda prýða nú ganginn á neðri hæð skólans og hvetjum við ykkur foreldra til að kíkja á þessi glæsilegu verk þegar tækifæri gefst. Myndir hér
Yngstu nemendurnir okkar í 1. og 2. bekk fengu að spreyta sig í bakstri og bjuggu til girnilegar kókoskúlur, sem var bæði skemmtilegt og lærdómsríkt verkefni þar sem þau æfðu sig í að fylgja leiðbeiningum og vinna saman.
Krakkarnir í frístund nýttu milt veður gærdagsins og fóru inn að Hrafná til að vaða. Myndir hér
Þetta er aðeins brot af því fjölbreytta starfi sem fram fór í Höfðaskóla í vikunni.
Í næstu viku verður spennandi dagskrá framundan. Nemendur á unglingastigi fara í Húnaskóla þar sem haldinn verður valgreinadagur fyrir nemendur úr Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu. Þetta er kjörið tækifæri fyrir nemendur til að kynnast jafnöldrum sínum úr öðrum skólum og taka þátt í fjölbreyttum valgreinum.
Nemendur í 9. og 10. bekk fara í náms- og kynnisferð til Akureyrar þann 8. október þar sem þeir heimsækja Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) og Menntaskólann á Akureyri (MA) ásamt heimavistinni. Þessi ferð er mikilvægur þáttur í náms- og starfsfræðslu eldri nemenda.
Þá munu sumir nemendur af unglingastigi taka þátt í ungmennaþingi á Blönduósi 7. október, en þar gefst þeim tækifæri til að láta rödd sína heyrast í málefnum sem varða ungt fólk.
Fyrstu sex vikna námslotunni, þar sem þemað var haust, lýkur í næstu viku og tekur þá við lota þar sem þemað verður góðvild.
Eins og sjá má verður næsta vika einnig full af gleði og glaumi og hlökkum við til að sjá nemendur okkar fjölbreytt verkefni.
Við óskum ykkur ánægjulegrar helgar
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |