Kæru foreldrar og forráðamenn.
Sjö fulltrúar úr unglingadeildinni tóku þátt í ungmennaþingi SSNV á Blönduósi. Þar fengu nemendur tækifæri til að láta rödd sína heyrast, ræða málefni ungs fólks og hitta jafnaldra sína af svæðinu. Við erum stolt af okkar fulltrúum.
Nemendur í 9. og 10. bekk heimsóttu Verkmenntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Akureyri þar sem þau kynntust námsframboði skólanna. Þessar heimsóknir eru mikilvægur liður í að undirbúa nemendur fyrir framhaldsskólaval. Ánægjulegt var að sjá hversu áhugasöm þau voru um framtíðarmöguleika sína eftir heimsóknina.
Nemendur í 8.-10. bekk tóku þátt í valgreinadegi í Húnaskóla sem heppnaðist einstaklega vel. Þar fengu þeir að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum eins að steikja kleinur, elda yfir opnum eldi og búa til skálar úr plexígleri.
Þessa vikuna hafa allir nemendur unnið að námsmati, sem veitir mikilvæga yfirsýn yfir stöðu hvers og eins í náminu.
Varðandi næstu viku viljum við minna á að mánudaginn næsta er starfsdagur kennara og því engin kennsla þann dag. Á þessum starfsdegi munu kennarar m.a. ljúka við að skila námsmati úr öllum bekkjum og vinna að uppfærðum námsvísi fyrir næstu sex vikna lotu. Námsvísirinn verður aðgengilegur á heimasíðu skólans þegar hann er tilbúinn og mun innihalda upplýsingar um námsmarkmið og áherslur næsta tímabils.
Við þökkum góða samvinnu og minnum á að alltaf er hægt að hafa samband eða kíkja í heimsókn til okkar hingað í skólann.
Við óskum ykkur ánægjulegrar helgar
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Höfðaskóli |
Íþróttahús |
Tónlistarskóli
Ábendingar og fyrirspurnir |