Föstudagskveðja

Heil og sæl öll

Í vikunni hefur allt verið á fullu í undirbúningi fyrir stigsskemmtanir sem haldnar verða í næstu viku.

Nemendur í 9. og 10.bekk fóru í vel heppnaða ferð á Sauðárkrók þar sem þau sóttu starfamessu í boði SSNV. Þetta var afar lærdómsrík ferð þar sem nemendur fengu kynningu í verknámshúsinu og þeim fjölbreyttu námstækifærum sem þar standa til boða. Einnig heimsóttu þau bóknámshúsið þar sem hátt í 50 fyrirtæki voru að kynna starfsemi sína. Nemendur fengu þar dýrmæta innsýn í atvinnulífið og fræðslu um hvaða menntun liggur að baki hinum ýmsu störfum. Við vorum virkilega stolt af framkomu nemenda okkar í þessari ferð. Frétt hjá Feyki um starfamessuna.

Framundan er spennandi vika, sú síðasta í nóvembermánuði. Tíminn flýgur svo sannarlega áfram og desembermánuður er handan við hornið. Megináhersla næstu viku verður á stigsskemmtanirnar sem verða haldnar frá þriðjudegi til fimmtudags milli klukkan 16:00 og 17:00. Nemendur munu verja töluverðum tíma í lokaundirbúning til að fínpússa atriði sín og tryggja að allt gangi vel. Nánari upplýsingar verða auglýstar hjá hverju stigi fyrir sig.

Það er heiður að fá að vinna með svo flottum hópi ungs fólks dags daglega.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Guðrún Elsa og Berglind Hlín