Föstudagskveðja

Þá er fyrsta vika desember liðin og spennan fyrir jólunum eykst með hverjum deginum sem líður.  Í vikunni var fullt um að vera og við erum dugleg að setja inn fréttir á heimasíðuna og hvetjum ykkur til að fylgjast með.

Nemendur sungu og trölluðu í matsal skólans undir stjórn Hugrúnar sl. miðvikudag og voru það jólalög sem bárust um alla króka og kima skólans.

Nemendur yngsta stigs fóru í heimsókn í Spákonuhof í vikunni og er það ávallt ævintýri, nánar hér.

Mánudaginn 8. desember n.k. verða jólaljósin tendruð á jólatrénu á Hnappstaðatúni. 

Við höfum hægt og rólega verið að vinna í að endurgera jólamyndirnar sem voru í gluggum skólans hér á árum áður. Myndirnar fara upp í glugga á vesturhlið skólans í næstu viku og hvetjum við ykkur til að skoða þær.

Jólatónleikar tónlistarskólans voru í gær og stóðu nemendur sig með stakri prýði. Það er alltaf hátíðlegt að mæta á jólatónleikana þeirra og sjá þau spila og syngja.

Í næstu viku er jólapeysudagur á mánudag og hvetjum við öll til að mæta í jólapeysum eða jólasokkum.

Næsta vika er síðasta heila skólavikan á þessu ári, litlu jólin okkar verða svo 18. desember en allar nánari upplýsingar um þau koma í næstu viku.

Við vonum að þið njótið helgarinnar

Með góðri kveðju
Guðrún Elsa og Berglind Hlín