Föstudagskveðja

Heil og sæl

Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel. Veðrið lék við okkur og eru nemendur sumir hverjir farnar að koma á hjólum í skólann. Við minnum á að það er skylda að vera með hjálm og að rafmagns hlaupahjólin má aðeins nota til að koma sér til og frá skóla en að öðru leyti skulu þau látin ósnert á skólatíma. 
 
Nemendur á miðstigi bíða spenntir eftir ungunum sem eru væntanlegir á næstu dögum. Hér varð uppi fótur og fit í morgun þegar útungunarvélin gaf upp öndina og þurfti að hafa hraðar hendur við að redda nýrri græju sem gekk sem betur fer upp og eggin komust fljótt aftur í hlýju og við vonum að þeim hafi ekki orðið meint af. 
 
Nemendur á yngsta stigi fengu ný borð í vikunni, borðin er hægt að raða skemmtilega upp og nýtast þau vel bæði sem einstaklingsborð og hópaborð. Borðin eru kærkomin nýjung þar sem gömlu borðin voru farin að láta vel á sjá.
 
Í næstu viku fer 9. bekkur í samræmd próf mánudag, þriðjudag og miðvikudag og höfum við trú á að þau rúlli þeim upp. 
 
Að lokum minnum við enn og aftur á heimasíðuna okkar góðu, þar er að finna allar helstu upplýsingar og fréttir af skólastarfinu ásamt myndum. 
 
Við vonum að þið njótið helgarinnar og áframhaldandi blíðviðris. 
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa