Föstudagskveðja

Sæl og blessuð

Áfram heldur tíminn að æða frá okkur og mars kominn vel af stað. Það er margt um að vera og ýmislegt spennandi framundan hjá okkur. 
 
Í næstu viku, nánar tiltekið miðvikudaginn 11. mars verður litla upplestrarkeppnin okkar haldin í kirkjunni. Allir nemendur á miðstigi taka þátt og verða svo þrír sigurvegarar úr 7. bekk sendir áfram í stóru keppnina sem verður haldin á Blönduósi þann 19. mars n.k. 
9. bekkur mun fara í samræmd próf 10. 11. og 12. mars og þann 24. mars fáum við heimsókn frá Krafti - stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og ætlum að perla af krafti með þeim, það verður nánar auglýst þegar nær dregur. 
 
Við biðjum ykkur að fylgjast vel með fréttum frá okkur um helgina, ef fer sem horfir fara starfsmenn sem borga í stéttarfélagið Kjöl í verkfall á mánudag og þriðjudag og þá daga verður þá aðeins skóli hjá unglingastigi. Ekki verður hafragrautur í boði og ekki matur í Fellsborg í hádeginu, við vonum að samningar náist um helgina svo ekki komi til þessa. 
 
Annars gengur lífið í Höfðaskóla sinn vanagang, við fögnum fjölgandi birtustundum og vonum að nú fari veðrið að vera til friðs.
 
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa