Föstudagskveðja

Heil og sæl

Vikan í Höfðaskóla gekk vel, veðrið lék við okkur og nemendur voru mikið úti við. Á þriðjudaginn fóru 5. og 6. bekkur í heimsókn á Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og skemmtu sér konunglega, við þökkum kærlega fyrir höfðinglegar móttökur. 
 
Leiklistarvalið er nú á fullu að undirbúa sýninguna ,,Klippt og skorið" sem er morðgáta. Vegna þeirra takmarkana sem gilda um skólastarf munum við líklega ekki geta sýnt fyrir fullu húsi í Fellsborg eins og við hefðum gjarnan viljað og er verið að skoða að taka sýninguna upp og selja upptökuna, það verður nánar auglýst síðar. 
 
1. bekkur fékk góða gjöf í vikunni þegar þeim voru færðir reiðhjólahjálmar frá Kiwanis klúbbnum, það vakti mikla lukku nú sem endranær en Kiwanis klúbburinn hefur fært 1. bekkingingum svona góða gjöf undanfarin ár. 
 
Framundan í maí er námsmat hjá nemendum og ýmislegt annað spennandi. 
 
Við minnum á hafragrautinn góða sem er í boði alla morgna frá 7:45. 
 
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa