Föstudagskveðja

Sæl og blessuð

Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Yngsta stig var með haustfund fyrir foreldra s.l. miðvikudag og nemendur á yngsta stigi sáu leikritið Krakkarnir í hverfinu á mánudaginn var. Krakkarnir í hverfinu er leikþáttur þar sem brúður eru notaðar til að fræða börnin um ofbeldi og mikilvægi þess að börn segi frá. Brúðurnar ræða saman um það sem þær hafa lent í. Jóhanna segir frá því hvernig kærasti mömmu hennar snerti hana á óviðeigandi hátt og hvaða hjálp hún fékk eftir að hún sagði frá. Stefán segir vini sínum frá því hvernig mamma Stefáns beitti hann ofbeldi og hvernig þau fengu bæði hjálp eftir að hann sagði kennaranum sínum frá.
 
Í næstu viku fáum við fræðsluheimsókn frá Samtökunum 78 en þau ætla að koma með fræðslu inn á öll stig, hitta svo starfsfólk skólans og að lokum foreldra á fræðslufundi kl. 17:00. Foreldrafundurinn fer fram í stofum unglingastigs í Höfðaskóla. Það er mjög mikilvægt að sem flestir mæti. Fordómar byggjast oft og tíðum á skilnings- eða þekkingarleysi og er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að vera meðvituð og reyna eftir fremsta megni að uppræta fordóma.
Ef einhverjir utanaðkomandi, aðrir en foreldrar vilja mæta, t.d. ömmur, afar, frænkur, frændur eða aðrir skólavinir er það að sjálfsögðu velkomið. 
 
Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang hjá okkur :)
 
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa