Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru skólavinir

Nú er mars liðinn, apríl mættur og páskafrí handan við hornið. 

Eins og flestum er kunnugt þá er hafragrautur í boði fyrir nemendur á morgnana en eftir að því var veitt athygli að nemendur á unglingastigi voru ekki að nýta sér grautinn prufuðum við að bjóða þeim uppá hafragraut á fimmtudögum og föstudögum í nestinu. Þetta hefur gefist mjög vel og hafa mjög margir nemendur nýtt sér þessa nýjung.

Í næstu viku fara nemendur fimmta bekkjar í heimsókn á Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi ásamt því að fara í minni hópum og skoða fyrstu stafrænu textílsmiðjuna á Íslandi, TextílLab á vegum Textílmiðstöðvarinnar. Textílsmiðjan er útbúin stafrænum tækjum sem tengjast textílvinnslu, eins og vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi. Þegar hefur verið fjárfest í stafrænum vefstól, prjónavél og útsaumsvél, nálaþæfingarvél, auk leiserskera og vínylprentara.

Nemendur á yngsta stigi fengu kennslu í skák fyrr í vetur, þetta vakti mikla lukku og tefla nemendur nánast alla morgna meðan beðið er eftir að kennsla hefjist.  

Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu klæddir í takt við síbreytilega veðráttu 

Við vonum að þið njótið helgarinnar.
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Sara Diljá