Föstudagskveðja

Sæl og blessuð kæru foreldrar og forráðamenn.

Við stjórnendur erum ánægðar með fyrstu dagana og hvernig skólastarfið fer af stað. Það hefur verið virkilega skemmtilegt að hitta nemendur aftur eftir sumarfrí og gaman að sjá hvað þau hafa vaxið og þroskast í sumar. 

Framundan eru ýmis skemmtileg verkefni jafnt innan sem utandyra. 

Á heimasíðu skólans finnið þið allar helstu upplýsingar um stefnur og áætlanir sem og stoðþjónustu skólans og við hvetjum ykkur til að skoða það vel. Ef þið hafið einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur.

Frístund verður starfrækt með svipuðu sniði og undanfarin ár og er hún í boði fyrir nemendur á yngsta stigi eftir að kennslu lýkur á daginn. Starfsmenn frístundar verða Erna Ósk Guðnadóttir og Rakel Jensína Jónsdóttir. Frístund verður í boði endurgjaldslaust fyrir alla nemendur á yngsta stigi út ágúst. Eftir það hafa aðeins skráðir nemendur aðgang að frístund en skráning fer fram hér.

Breyting verður á mötuneytismálum og mun mötuneyti ekki taka til starfa núna strax í skólabyrjun. Nemendur hafa því val um að fara heim í hádeginu eða koma með auka nesti sem þau geta borðað í skólanum, gæsla verður á staðnum og er í boði að hita í örbylgjuofni, grilla í samloku grillum eða fá soðið vatn t.d. út á núðlur. Um leið og fyrirkomulag mötuneytis í vetur liggur fyrir fáið þið upplýsingar um það.

Íþróttir verða áfram kenndar úti á meðan vel viðrar, við skulum muna að koma klædd eftir veðri og í góðum skóm. Það sakar alls ekki að vera með auka par af sokkum í skólatöskunni.

Að lokum minnum við á hollt og gott nesti og hafragrautinn góða sem er í boði alla morgna frá kl. 7:45.

Við vonum að þið njótið helgarinnar

Kærar kveðjur
Sara Diljá og Guðrún Elsa