Föstudagskveðja

Það er ansi viðburðarík vika að baki í Höfðaskóla. Á mánudaginn vorum við með menntabúðir og opið hús sem var vel sótt og er alltaf skemmtilegt. Við fengum marga góða gesti til okkar og krakkarnir stóðu sig öll mjög vel í sínum verkefnum. Á miðvikudaginn var söngsalur, á fimmtudag jólaföndur og í dag var boðið upp á piparkökur og kakó í nestistímanum. Sérlegur aðstoðarmaður við kakógerðina var Ragnar Viðar, nemandi í 1. bekk og stóð hann sig með stakri prýði. Nemendur í 1.-5. bekk fóru einnig upp í Fellsborg nú í morgunsárið og dönsuðu Zumba. 10. bekkur skreytti jólatréð okkar, svo það er klárt fyrir litlu jólin. Myndir frá deginum í dag eru hér.

Nú er heldur betur farið að styttast í jólafrí. Á mánudaginn ætlum við að byrja daginn í friðargöngu, labba saman stuttan hring um bæinn okkar og væri gott ef nemendur kæmu með LED kerti með sér í skólann. Þann dag ætlar Ástrós Elísdóttir að heimsækja okkur og lesa jólasögu og Jón Ólafur Sigurjónsson (Jonni húsvörður) ætlar að spila undir í nokkrum jólalögum fyrir okkur. Í hádeginu á mánudaginn verður möndlugrauturinn okkar góði og eru nemendur beðnir um að koma með plastskál og skeið með sér í skólann. Engin kennsla verður eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði. 

Á þriðjudaginn eru litlu jólin okkar, en nánari upplýsingar um þau koma frá umsjónarkennurum. Skólinn hefst kl. 9:00 þann dag og halda nemendur í jólafrí kl. 12:00. Ekki verður boðið upp á hafragraut þann dag og ekki frístund eftir hádegi. 

Jólasöfnunin okkar gengur vel og hafa velunnarar skólans einnig lagt söfnuninni lið. Ef einhver vill taka þátt í að safna fyrir Jólasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar má hafa samband við okkur á hofdaskoli@hofdaskoli.is, koma við hjá okkur eða senda einhvern með framlag til okkar í skólann. Þessu verður öllu komið til skila eftir að litlu jólunum er lokið. 

Nú er síðasta helgin fyrir jól framundan og eflaust nóg að gera hjá flestum. Við vonum þó að allir nái að staldra aðeins við og njóta með sínu nánasta fólki, því þegar öllu er á botninn hvolft er það samveran með fólkinu sem okkur þykir vænt um sem skiptir mestu máli. 

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa