Síðasta föstudagskveðjan í febrúar

Þá fer febrúar að renna sitt skeið og mars handan við hornið. Í þessari viku var ýmislegt brallað í Höfðaskóla enda alltaf nóg um að vera. Veðrið heldur áfram að sveiflast til og frá og mikilvægt að nemendur séu klæddir eftir veðri og gott að vera með auka sokka í tösku þegar blautt er úti. 

Þriðjudaginn 27. febrúar n.k. fer 10. bekkur í heimsókn í FNV þar sem þau ætla skoða skólann og heimavistina og fara á skólaleikritið með Allt á hreinu. Það er alltaf gaman að brjóta upp hversdagsleikann og bregða sér af bæ. 

Fimmtudaginn 29. febrúar verður glitrandi dagur í Höfðaskóla en þann dag ætlum við að glitra með Einstökum börnum og vekja þannig athygli á degi sjaldgæfra sjúkdóma og heilkenna. Á heimasíðu Einstakra barna má finna ýmsar upplýsingar sem gott er fyrir öll að kynna sér. 

Föstudaginn 1. mars verður svo skipulagsdagur í Höfðaskóla og því hvorki kennsla né frístund þann dag. 

Mikil ánægja er hjá nemendum eftir að ávaxtastundum var fjölgað en nú fáum við ávexti þrjá daga í viku í nestistímanum. Hafragrauturinn góði er svo í boði alla morgna og um að gera að koma í graut fyrir kennslu.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa