Föstudagskveðja frá skólastjórnendum

Sæl og blessuð kæru foreldrar og forráðamenn.

Við stjórnendur erum ánægðar með fyrstu dagana og hvernig skólastarfið fer af stað. Það hefur verið virkilega skemmtilegt að hitta nemendur aftur eftir sumarfrí og gaman að sjá hvað þau hafa vaxið og þroskast í sumar. 

Framundan eru ýmis skemmtileg verkefni. Eins og nefnt var á skólasetningu ætlum við okkur að verða skóli á grænni grein og höfum nú þegar lagt inn umsókn til þess að hefja það ferli. Í kjölfarið munum við hefja vinnu við innleiðingu sjö þrepa sem þarf að uppfylla og getum vonandi sótt um grænfánann í lok mars eða byrjun apríl. Við munum halda ykkur upplýstum um þetta ferli og framvindu verkefnisins eins og við á. 

Á heimasíðu skólans finnið þið allar helstu upplýsingar um stefnur og áætlanir sem og stoðþjónustu skólans og við hvetjum ykkur til að skoða það vel. Ef þið hafið einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur.

Skráningu í frístund og mat þarf að ljúka nú um helgina og hvetjum við ykkur til að ganga í málið ef þið hafið ekki gert það nú þegar. Frístundar blöðum skal skila til umsjónarkennara og skráning í mat fer fram á heimasíðu skólans. Eins minnum við foreldra nýrra nemenda á að skila leyfisbréfi vegna mynda og myndbirtinga til umsjónarkennara sem allra fyrst. Það þurfa allir að skila inn slíku blaði.

Íþróttir verða áfram kenndar úti á meðan vel viðrar, við skulum muna að koma klædd eftir veðri og í góðum skóm. Það sakar alls ekki að vera með auka par af sokkum í skólatöskunni.

Að lokum minnum við á hollt og gott nesti og hafragrautinn góða sem er í boði alla morgna frá kl. 7:45.

Við vonum að þið njótið helgarinnar

Kærar kveðjur
Sara Diljá og Guðrún Elsa