Föstudagskveðja í desember

Áfram líða dagarnir í desember og við færumst nær jólum. Í þessari viku unnu nemendur ýmis verkefni, undirbjuggu menntabúðirnar og opna húsið sem verður n.k. mánudag og margt fleira. Við fengum heimsókn frá Hugrúnu og Elvar í tónlistarskólanum sem aðstoðuðu okkur með jólasöngstund sem var mjög skemmtileg, þau ætla að koma aftur til okkar í næstu viku. 

Í gær spiluðu nokkrir nemendur skólans á jólatónleikum tónlistarskólans og stóðu sig með stakri prýði. Við erum mjög stolt af tónlistarskólanum okkar og því frábæra starfi sem þar er unnið og hvetjum ykkur til að fylgjast með fréttum úr þeirra starfi á heimasíðunni þeirra. 

Litlu jól nemenda verða 19. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulagið sem við höfum verið með undanfarin ár hvað varðar pakkaskiptin. Í ár hafa nemendur kosið að styrkja Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar líkt og í fyrra og koma nemendur ekki með pakka heldur óskum við eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk ef heimilin hafa tök á. Starfsfólk skólans mun einnig styrkja sjóðinn í stað þess að skiptast á gjöfum. Í dag fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Styrknum verður svo skilað til sjóðsins á litlu jólunum.

Mánudaginn 11 .desember n.k. verður opið hús og menntabúðir hjá okkur frá kl. 16:00-18:00 í Höfðaskóla og hvetjum við öll sem vilja til að koma við hjá okkur, sjá hvað nemendur eru að fást við og skoða skólahúsnæðið. Þann dag ætlum við einnig að vera með jólapeysudag og hvetjum alla sem vilja til að mæta í jólapeysum.

Þriðjudaginn 12. desember n.k. heldur nemendafélagið jólaskemmtun í íþróttahúsinu fyrir 1.-4. bekk frá kl. 16:30-18:00. Þar verður án efa líf og fjör.

Miðvikudaginn 13. desember n.k. stendur foreldrafélagið okkar svo fyrir viðburð í skólanum frá kl. 17:00-19:00 þar sem nemendur geta komið með sín eigin piparkökuhús og skreytt þau. Nemendur þurfa að mæta í fylgd með fullorðnum.

Fimmtudaginn 14. desember n.k. verður svo jólaball hjá leikskólanum þar sem eldri systkini mega mæta með og verða eflaust margir nemendur frá okkur á þeirri skemmtun.

Það er því ansi margt framundan og alveg eðlilegt að ekki sé hægt að taka þátt í öllu. Það er ekki síður mikilvægt að staldra aðeins við og njóta augnabliksins með fólkinu sínu. 

Við minnum á mikilvægi þess að nemendur borði og sofi vel þegar annirnar eru svona miklar.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa