Föstudagskveðja skólastjórnenda

Komið þið sæl

Nú er skólastarf hafið að nýju eftir áramót og eflaust einhverjir sem lögðust í ferðalög yfir hátíðirnar, ýmist innanlands eða erlendis. Sérlega mikilvægt er að allir gæti að persónulegum sóttvörnum og hugi að smitvörnum. Í reglugerð um sóttkví og einangrun og sóttvarnarráðstafanir á landamærunum Íslands vegna COVID-19  stendur:

„Jafnframt skal ferðamaður með tengsl við Ísland gangast undir mótefnavakapróf (antigen-hrað­próf) eða PCR-próf á næstu tveimur dögum frá komu til landsins.“

Farþegar fara því í sýnatöku við komuna til landsins, hvort sem er PCR eða hraðpróf tveim dögum frá komu til landsins. Við hvetjum til þess að það sé farið í PCR á flugvellinum, þó svo hraðpróf séu einnig gild. Sýnataka er ókeypis.

Við hvetjum foreldra/forráðamenn að halda börnum á leik- og grunnskólaaldri heima þann tíma sem sóttkví varir og beðið er eftir niðurstöðu úr sýnatöku. Eins væri gott, ef hægt er að börn fari í hraðpróf eða PCR próf áður en þau mæta í skólann.

Hátt hlutfall smita utan í sóttkvíar bendir til þess að talsvert sé um veirusmit í samfélaginu. Mjög mikilvægt er að verja skóla- og frístundastarf eins og hægt er við þessar aðstæður og óskum við eftir samstarfi varðandi það. 

Öll einkenni á að taka alvarlega, líka kvef og hálsbólgu, hvort sem er hjá börnum eða öðru heimilisfólki. Á heimasíðu Covid.is eru nánari upplýsingar um einkenni: https://www.covid.is/undirflokkar/ad-fordast-smit

Okkur hefur tekist að halda skóla- og frístundastarfi hér á Skagaströnd í nokkuð góðum farvegi en fréttir annars staðar af landinu benda til þess að lítið megi bregða út af til að raska starfseminni, með tilheyrandi íþyngjandi afleiðingum á borð við sóttkví eða einangrun. 

Leggjumst á eitt og gerum allt sem í okkar valdi stendur, fylgjum tilmælum sóttvarnalæknis og drögum úr líkum þess að raska lífi barnanna okkar meir en orðið er. 

Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Dagný Rósa