Föstudagskveðja skólastjórnenda

Heil og sæl

Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Við héldum fyrsta fund í umhverfisnefnd og vonumst til að geta sótt um Grænfána fyrir lok þessa skólaárs. 
 
Á starfsmannafundi í þessari viku var tekin ákvörðun um að fresta árshátíð um sinn. Til stóð að halda hana 19. nóvember n.k. en í ljósi þess að núgildandi samkomutakmarkanir gilda til 16. nóvember erum við ekki bjartsýn á að ná að halda hana með hefðbundnu sniði þann 19.. Staðan verður endurmetin í febrúar og ef útlit er fyrir að ekki verði hægt að halda árshátíðina eins og við erum vön að gera munum við finna nýtt fyrirkomulag, við erum jú orðin ansi sjóuð í að breyta áætlunum okkar :)

Á starfsmannafundi var einnig rætt um fyrirkomulag litlu jóla og hvaða fyrirkomulag ætti að vera á pakkaskiptunum. Við ætlum að halda okkur við að styrkja gott málefni í stað þess að skiptast á gjöfum og nú langar okkur að velja málefni sem stendur samfélaginu okkar nærri. Ákveðið var að styrkirnir færu til félagasamtaka en ekki einstaklinga. Allar ábendingar um málefni til að styrkja má senda okkur hér.
Nemendur verða að sjálfsögðu hafðir með í ráðum þegar kemur að því að velja endanlega hvaða málefni verður styrkt. 

Næstu tvær vikur verða styttri en venjulega, þar sem við tökum okkur vetrarfrí föstudaginn 30. október og mánudaginn 2. nóvember. 

Að lokum minnum við ykkur á að hafa samband ef eitthvað er. Netföng allra starfsmanna eru aðgengileg hér á heimasíðunni og símanúmerið í skólanum er 452-2800.

Við skulum stilla okkur saman um að tala fallega um skólann okkar og stuðla saman að jákvæðum skólabrag.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa