Frá unglingastigi

Á unglingastigi er unnið með samþættingu námsgreina sem þýðir að námsgreinarnar íslenska, náttúrufræði, samfélagsfræði og upplýsingatækni, ásamt lykilhæfni, eru unnar þematengt. Síðustu vikur hafa unglingarnir unnið að ýmsum verkefnum er tengjast náttúrunni og nærsamfélaginu. Unnið hefur verið með plöntugreiningu (blóm, grös og tré), örnefni og staðhætti hér á Skagaströnd. Nemendur unnu einnig fjölbreytt verkefni úti, meðal annars stærðfræði og myndatökur og myndbandagerð. 

Þá lærðu nemendur um síldarárin á Íslandi og sérstaklega áhrif þeirra hér við Húnaflóa og á Siglufirði, ásamt því að læra um efnahagsleg- og búsetuleg áhrif á landið.

Dagur læsis var 8. september og þá vikuna unnu nemendur að fjölbreyttum læsisverkefnum, svo sem hlustun, áhorf, lestur og ritun.

Þessi vika hefur verið tileinkuð náttúrunni, þar sem dagur náttúrunnar var 16. september og fengu nemendur fyrirlestur um fugla á mánudaginn hjá Einari Ó. Þorleifssyni náttúrufræðingi hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra. Á þriðjudaginn unnu nemendur verkefni um sinn uppáhaldsfugl og fóru og lögðu krabba- og marflóargildrur með Valtý Sigurðssyni líffræðingi hjá Biopol. Í gær unnu nemendur paraverkefni um ýmsar lífverur í og við fjöru. Í dag, föstudag, var svo vitjað um gildrur og afraksturinn var ágætur: krossfiskar, grjótkrabbar, þorskur og marhnútar en engar marflær.  Nemendur fengu kennslu um líffræði fiska og skoðuðu aflann. Við þökkum kærlega fyrir samstarfið við BioPol og Náttúrustofuna.

Myndir hér