Heimsókn nemenda á unglingastigi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Undanfarin 2 ár hafa nemendur unglingastigs verið með 2 list- og verkgreinavikur yfir skólaárið, þar sem farið hefur verið í hinar ýmsu greinar sem hægt er að kenna hér í húsi. Í haust var ákveðið að leita eftir samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) varðandi þessa viku nú á haustönn. Starfsfólk FNV tók mjög vel í beiðni okkar og niðurstaðan var sú að nemendur okkar fóru 2 daga í kennslu í FNV. Báða dagana snæddu nemendur í mötuneyti heimavistarinnar.

Miðvikudaginn 7. desember hélt hópurinn af stað árla morguns ásamt umsjónarkennurum yfir á Sauðárkrók. Þar tóku Karítas umsjónarmaður FabLab og Hrannar og Óskar kennarar í tréiðnadeild á móti okkur. Unglingarnir unnu í 2 hópum að smíðaverkefnum, lærðu að vinna myndir í InkScape fyrir laserskera og límmiðaskurð, myndirnar voru síðan þrykktar á boli og afraksturinn varð ansi fjölbreyttur. Það var þreyttur hópur sem kom heim seinni part dagsins. Á fimmtudagsmorgni 8. desember var aftur haldið af stað og á móti okkur tóku Garðar í rafiðnadeildinni og Geir og Jónatan í málmsmíðadeildinni. Nemendur fengu að prófa að rafsjóða, vinna með plötuskurð og sum fengu að prófa að sandblása. Einnig voru fjöltengi fjöldaframleidd í rafiðnaðardeildinni, ásamt því að öll fengu að prófa að lóða annað hvort ljósabretti eða koparvír.

Nemendur okkar stóðu sig með prýði og fengu mikið hrós frá starfsfólki FNV og mötuneytisins fyrir kurteisi og prúða framkomu. 

Við þökkum starfsfólki FNV kærlega fyrir góðar móttökur og vonum að þetta samstarf okkar eigi að halda áfram. 

Myndir hér