Í vikulokin

Heil og sæl

Vikan í Höfðaskóla gekk vel og óhætt að segja að nemendur séu að standa sig með ágætum í þeim takmörkunum sem nú eru í gildi. Örlitlir hnökrar komu upp í hádegismatnum í Fellsborg þar sem nemendur fóru ekki alveg eftir settum reglum en því var kippt í liðinn og hefur gengið betur síðan. 

Skólahald verður með sama hætti og í þessari viku á mánudag og þriðjudag. Von er á reglugerð um áframhaldandi takmarkanir sem gilda frá miðvikudeginum 18. nóvember. Þegar sú reglugerð liggur fyrir munum við upplýsa ykkur um skipulagið hjá okkur frá og með þeim degi. 

Við finnum fyrir því að nemendur eru orðnir þreyttir á þessu ástandi og er það vel skiljanlegt. Þetta ástand hefur verið langvarandi og ýmsar takmarkanir hafa verið settar sem hafa haft áhrif á börnin. Við í skólanum erum að skoða hvernig við getum brugðist við þessari þreytu sem farin er að myndast og hvetjum við foreldra og forráðamenn einnig til að vera meðvitaða og gera eitthvað skemmtilegt með börnunum sínum. Barnaheill stendur t.d. fyrir símalausum sunnudegi, n.k. sunnudag þann 15. nóvember og hvetjum við alla til að taka þátt. Upplýsingar um þennan dag má sjá hér

Árshátíðin okkar hefði samkvæmt skóladagatali átt að vera 19. nóvember, fimmtudaginn í næstu viku. Eins og áður hefur verið upplýst um var henni frestað og verður staðan endurmetin í febrúar. Kennarar munu þó gera eitthvað skemmtilegt með nemendum þennan dag og brjóta upp hefðbundna kennslu að minnska kosti part úr degi :) Umsjónarkennarar hvers stigs senda upplýsingar um það heim. 

Að öðru leyti höldum við okkar striki, tökum einn dag í einu og vonum að skólahald verði orðið með hefðbundnum hætti sem allra fyrst. Til þess að það verði þurfum við öll að standa saman og muna að við erum öll almannavarnir.

Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa