Snjómokstur

Sæl kæru íbúar

Eins og öllum er ljóst eru óvenjulegar aðstæður uppi í samfélaginu þessa dagana. Í Höfðaskóla er skólahald með breyttu sniði og ýmislegt sem við erum að gera öðruvísi en vant er, ástandið kallar á breytta kennsluhætti og aðrar áherslur en vanalega.

Eftir mikla ofankomu síðustu daga var tekin ákvörðun um að bjóða nemendum uppá að koma með skóflur í skólann og nú í þessu töluðu orðum er 10. bekkur farinn af stað út og mun moka frá útidyrahurðum, göngustígum og ruslafötum hjá fólki. Í kjölfarið fer svo 9. bekkur af stað, svo 8.,7.,6. og að lokum 5. bekkur.

Við vonum að þið takið vel í þetta verkefni hjá okkur, við kennum krökkunum samheldni og samfélagslega ábyrgð með þessu. Ljóst er að krakkarnir komast ekki yfir allan bæinn en munu reyna sitt besta til að hjálpa sem flestum.

Að sjálfsögðu fylgjum við sóttvarnarreglum, nemendur fara saman í þeim hópum sem þeir tilheyra í skólunum og eiga ekki að hafa samskipti við íbúa húsanna.