Nemendaþing

Mánudaginn 20. nóvember boðar stjórnendateymi Höfðaskóla til nemendaþings. Umræðuefni á þinginu er líðan, stundatöflur, samskipti og kennsla. 
 
Dagur mannréttinda barna er 20. nóvember, á heimasíðu umboðsmanns barna kemur eftirfarandi fram:
 
Mikilvægt er að börn og fullorðnir þekki réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum og menntun barna í mannréttindum þarf að vera samofin öllu skólastarfi. Þó er gott að velja einn dag eða nokkra daga skólaársins sérstaklega til að vinna með og vekja athygli á mannréttindum barna. Afmælisdagur Barnasáttmálans er tilvalinn til þess.
 

Leik-, grunn- og framhaldsskólar, svo og aðrir aðilar sem vinna með börnum, eru hvattir til að helga 20. nóvember fræðslu um mannréttindi barna. Daginn er hægt að nýta til vinnu eða til að kynna afrakstur vinnu sem hefur átt sér stað dagana á undan, eins konar uppskeruhátíð.

Skólar eru hvattir til að hafa útfærslu verkefna sem fjölbreyttasta og til að virkja börnin til þátttöku í skipulagningu, hvetja þau til sköpunar og tjáningar. Mikilvægt er að hver skóli taki þátt á eigin forsendum og útfæri vinnuna að aðstæðum á hverjum stað. Þar sem aðstæður eru, gætu jafnvel heilu sveitarfélögin tekið sig saman, unnið saman verkefni og verið með sameiginlega viðburði í tilefni dagsins.

Okkur í Höfðaskóla hlakkar til að halda fyrsta nemendaþingið okkar og vonum við að það festist í sessi og verði árlegt í tengslum við þennan dag. Niðurstöður þingsins verða teknar saman og kynntar að þingi loknu.