Sara Diljá fær viðurkenningu sem framúrskarandi kennari

Verðlaunahafar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, rektori Háskóla Íslands og forseta Menntavísi…
Verðlaunahafar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, rektori Háskóla Íslands og forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti fimm kennurum viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands miðvikudaginn 7. júní s.l.  Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins „Hafðu áhrif“ sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni hafduahrif.is. Tilgangur átaksins var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið. 

Viðtökurnar voru afar góðar en hátt í þúsund tilnefningar bárust. Valnefnd skipuð fulltrúum Háskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og kennaranema fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum. Niðurstaðan var sú að veita fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu. Í fyrsta sinn voru veitt sérstök hvatningarverðlaun til ungs kennara fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Eftirfarandi valin umsögn fylgdi:
Sara Diljá Hjálmarsdóttir, Höfðaskóla

„Sara Diljá kom ung til kennslu á Skagaströnd og tók við dóttur minni sem átti að baki erfiða skólagöngu. Sara var ekki lengi að vinna hana á sitt band og hefur dóttir mín blómstrað allar götur síðan. Hún er kraftmikill kennari, nær góðum tengslum við nemendur sína, er sannur vinur þeirra og sýnir þeim mikla gæsku. Hreint út sagt gull í gegn!“

Innilegar hamingjuóskir Sara Diljá !

Aðrir sem hlutu viðurkenningu: 
Gísli Hólmar Jóhannesson, Keili, Sigríður Ása Bjarnadóttir, Leikskólanum Teigaseli og Valdimar Helgason, Réttarholtsskóla.

Hvatningarverðlaun – Hafðu áhrif
Ingvi Hrannar Ómarsson hlýtur hvatningarverðlaun fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Ingvi Hrannar er fæddur í Reykjavík 1986. Hann er uppalinn á Sauðárkróki og eftir nám í Bandaríkjunum, á Íslandi, í Danmörku og  Svíþjóð sneri hann aftur til Íslands og starfar nú sem kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

Störf Ingva hafa hlotið alþjóðalega athygli en hann hlaut æðstu viðurkenningu sem Google veitir kennurum, Google for Education Certified Innovator, og æðstu viðurkenningu Apple til kennara og menntafólks, en hún ber heitið Apple Distinguished Educator. 
Á dögunum var Ingvi Hrannar útnefndur af HundrED sem einn af hundrað áhrifamestu kennurum í heiminum.
Ingvi Hrannar bloggar um menntamál á ingvihrannar.com auk þess að halda úti „Menntavarpi“, vikulegu hlaðvarpi (e.Podcast) um menntamál, ásamt því að tísta undir nafninu @IngviHrannar

Innilegar hamingjuóskir Ingvi Hrannar !

(texti af vef Háskóla Íslands)