Skólaferðalag 10. bekkjar

Fyrir framan British museum.
Fyrir framan British museum.

Sjö nemendur 10. bekkjar héldu af stað í skólaferðalag til Englands miðvikudaginn 8. maí s.l. Ferðinni var heitið til London og til Brighton. Nemendur hafa undanfarin 3 ár verið að safna sér fyrir ferðinni sem nú varð loks að veruleika. Með þeim í för var Dagný Rósa Úlfarsdóttir umsjónarkennari og Jóhanna Sigurjónsdóttir foreldri. Ferðalagið hófst með akstri til Keflavíkur og var gist á B&B hóteli á Ásbrú. Á fimmtudagsmorgninum var svo flogið til Gatwick flugvallar í London og svo skemmtilega vildi til að Sæþór Bragi, bróðir Bylgju Hrundar, var flugmaðurinn okkar. Við erum ótrúlega stolt af honum.  Í London nutum við dvalarinnar á Hampton by Hilton hótelinu. Að sjálfsögðu var ferðast um borgina og voru British museum og National History museum skoðuð, Madame Tussaud vaxmyndasafnið heimsótt, gengið að Buckinhamhöll og farinn einn hringur með London Eye. Einnig þurfti aðeins að kíkja í búðir á Oxfordstræti til að upplifa verslunarmenningu. Að sjálfsögðu voru almenningssamgöngur nýttar, enda gott strætisvagna- og lestarkerfi, bæði ofanjarðar og neðan. Þá var einnig farið í Chessington skemmtigarðinn. Seinni hluta ferðarinnar var haldið til Brighton sem er krúttleg borg á suðurströnd Englands. Þar var allt öðruvísi stemning en í London og mannlífið mun afslappaðra og rólegra. Tívolí á bryggjunni var prófið, SeaLife sjávardýrasafnið skoðað, gengið um gamla konungshöll og farin ein ferð upp í 162 metra háa British Airways i360 turninn. Veðurblíðan var dásamleg í ferðinni, þótt örlítið hafi rignt í London, en enginn er verri þó hann vökni. Það var sæll og þreyttur hópur sem kom til Skagastrandar föstudagskvöldið 17. maí, ánægður með að þessi ferð hafi orðið að veruleika. Nemendur 10. bekkjar og foreldrar þeirra þakka stuðninginn sem samfélagið hefur sýnt á undanförnum árum í alls konar fjáröflunum. Án stuðningsins hefði þessi ferð aldrei orðið að veruleika.