Skólaferðalag 10.bekkjar

Þann 7. maí lögðu nemendur 10. bekkjar af stað í langþráð skólaferðalag og var ferðinni heitið til Kaupmannahafnar. Gist var í Keflavík nóttina fyrir flug. Kaupmannahöfn tók síðan fallega á móti okkur með glampandi sól og notalegheitum að morgni 8. maí.  Þegar búið var að koma sér fyrir á hótelinu var höfðinginn McDonalds heimsóttur. Þaðan gengum við svo á Strikið þar sem við skoðuðum Guinness World Records safnið og fórum í siglingu frá Nyhavn. Að lokinni siglingu var komin þreyta í mannskapinn svo við kíktum í matvörubúð og upp á hótel. 

Næsta dag byrjuðum við daginn í Metro og strætó til að komast í dýragarðinn. Þar fékk hver og einn að skoða með sínu nefi. Úr dýragarðinum fórum við í verslunarmiðstöðina Fields þar sem margir gerðu afbragðsgóð kaup. Það voru því þreyttar og lúnar tásur sem mættu á hótelið um kvöldið. Eftir smá hvíld var aftur skundað út og nú niður á Amager Strandpark sem var í göngufæri við hótelið okkar. Á ströndinni var leikið örlítið með blakbolta og horft yfir Ermasundið á brúna og Svíþjóð. 

Á þriðja degi voru augnlokin orðin örlítið þyngri í morgunsárið en dagana á undan. Allir voru þó mættir í morgunmat rúmlega 9. Við byrjuðum daginn í Rundetaarn sem er glæsilegur 35 metra hár turn, frá 17. öld. Við gerðum okkur “lítið” fyrir og skunduðum upp á topp þar sem útsýni er yfir alla borgina. Turninn var áður fyrr mikill vísinda- og rannsóknastaður sérstaklega í stjörnufræði.

Frá turninum hèldum við sem leið lá um Kongens Nytorv að Amalienborg þar sem við sáum vaktaskipti lífvarða drottningar. Það var mikil upplifun að sjá. Frá Amalienborg gengum við um Nyhöfn niður Strikið að Rådhuspladsen og þaðan í Tivoligarðinn. Þar var mikið sprellað, hlegið og jafnvel smá tár sáust. Gríðarlega mikið fjör og við fylgdum ruslinu út þegar garðurinn lokaði kl 22. Við tók heimferð á hótelið, um miðborg Kaupmannahafnar. Það var öðruvísi upplifun en ferðast að degi til. 

Á fjórða og jafnfram síðasta deginum var byrjað á því að bóka okkur út af hótelinu og koma farangrinum í geymslu.  Síðan var enn og aftur tekinn metro og nú á Christianshavn. Þaðan gengum við  til Christianiu, það var sérstakt fyrir flesta að koma þangað en mjög rólegt var í fríríkinu enda vorum við þar snemma dags. Frá fríríkinu héldum við á Kongens Nytorv þar sem allir  fengu frjálsan tíma á Strikinu. Sumir versluðu á meðan aðrir sátu í sólinni. Seinni partinn var svo farangurinn sóttur og haldið út á flugvöll.  

Það voru þreyttir en gríðarlega ánægðir nemendur og kennarar sem lentu svo á Íslandi um miðnætti þann 10. maí.  Við erum öll sammála um að þetta hefur verið frábær ferð, þar sem allir sýndu sínar bestu hliðar og lærðu og upplifðu margt og merkilegt.  

Nemendum 10. bekkjar langar að þakka öllum sem styrktu þau í fjáröflun fyrir stuðninginn.  Án ykkar stuðnings hefði þessi ferð ekki verið farin. 

Myndir hér