Skólahald vikunnar

Sæl og blessuð kæru foreldrar

Það er ljóst að þetta eru fordæmalausir tímar sem núna eru í gangi. Við stöllur höfum unnið að því alla helgi, að höfðu samráði við sveitar- og skólastjóra í A-Hún ásamt Þórdísi fræðslustjóra að gera skipulag fyrir komandi daga og vikur. Hafa skal í huga að skipulagið getur breyst hratt og þá verðið þið upplýst um það.

Skipulag þessarar viku er á þessa leið:

Enginn skóli hjá yngsta stigi. Foreldrar geta verið í sambandi við kennara óski þeir eftir að fá námsgögn heim, þá er annað hvort hægt að nálgast þau í skólanum eða óskað eftir að fá þau send heim, þeim verður þá annað hvort keyrt út eða send verða verkefni sem hægt er að leysa í gegnum tölvuna. Kennarar á yngsta stigi munu nýta þessa viku í að yfirfara stofur, útbúa pennaveski fyrir hvern og einn nemanda og sótthreinsa allt það sem nemendur hafa haft sameiginlegan aðgang að.

Það verður enginn hafragrautur í boði né hádegismatur í Fellsborg.

Hjá miðstigi er mæting kl. 8:20 og skóladeginum lýkur kl. 11:50. Skólahúsnæðið opnar kl. 7:50 og eru nemendur beðnir um að fara beint upp í sínar stofur. Búið verður að skipta hópunum upp og breyta uppröðun og mun hver og einn eiga sína heimastöð sem verður hans á meðan á samkomubanni stendur. Hverjum og einum nemenda á miðstigi hefur verið skaffaður ipad sem þau hafa aðgang að fram að páskum, tækin mega þau ekki taka með sér heim. Íþróttir og sund falla niður sem og list- og verkgreinar og munu nemendur vera í sinni heimastofu á meðan á skóladeginum stendur. Ekki verður farið út í frímínútur. Starfsfólk á miðstigi þessa viku verða Gigga, Fjóla og Guðrún Rós.

Hjá unglingastigi er mæting 8:20 og skóladeginum lýkur kl. 12:00. Skólahúsnæðið opnar kl. 7:50 og eru nemendur beðnir um að fara beint upp í sínar stofur. Búið verður að skipta hópunum upp og breyta uppröðun og mun hver og einn eiga sína heimastöð sem verður hans á meðan á samkomubanni stendur. Íþróttir og sund falla niður og munu nemendur vera í sinni heimastofu á meðan á skóladeginum stendur. Ekki verður farið út í frímínútur, Kjörbúðarferðir verða ekki í boði og því þurfa nemendur að koma með nesti að heiman. Starfsfólk á unglingastigi þessa viku verða, Elva, Ástrós, Siggi og Berglind.

Nemendur á mið- og unglingastigi eru einnig beðnir um að koma með yndislestrarbók að heiman.

Við biðjum ykkur vinsamlegast að brýna fyrir börnunum ykkar að gæta hreinlætis, takmarka þarf klósettráp, sameiginlegar vatnsflöskur verða tafarlaust teknar úr umferð og ekki verður í boði að nota samlokugrill, örbylgjuofn eða ísskáp.

Nemendur sem ekki hlíta fyrirmælum starfsfólks verða sendir heim. Öllu máli skiptir að nemendur haldi sig við sína heimastöð og séu ekki að rápa inn og útúr stofum.

Við höfum skipt upp salernum í húsnæðinu og mun hver hópur hafa aðgang að tilteknu salerni. Það er gert til að reyna lágmarka líkur á krosssmiti. Lok hafa verið tekin af öllum ruslatunnum og verða hurðar ætíð hafðar opnar svo nemendur þurfi ekki að taka í hurðarhúna, nema á salernum.

Nemendur á unglingastigi geta ekki geymt símana sína í körfum eins og verið hefur en í staðin verða þeir beðnir um að geyma þá í skólatöskunum.

Nú skiptir öllu máli að við stöndum saman, heimili og skóli og tökumst á við þessar aðstæður af yfirvegun.

Nánara skipulag verður sent út á föstudag og þá verður útlistað hvernig næsta vika mun verða. Enn og aftur ítrekum við að skipulagið getur breyst hratt og verða foreldrar upplýstir um gang mála eftir því sem þurfa þykir.

Aftur minnum við á, að ef einhver kýs að hafa barnið sitt heima á meðan á samkomubanni stendur, verður tekið fullt tillit til þess af hálfu skólans.

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna.

Með góðum kveðjum
Sara Diljá og Guðrún Elsa