Skólalok, kveðja frá stjórnendum

Kæru skólavinir

Nú er þessu óvenjulega skólaári að ljúka, skólaári sem hefur einkennst af breytingum fram og aftur vegna heimsfaraldurs og hafa foreldrar/forráðamenn, nemendur og allt starfsfólk skólans sýnt ótrúlega þolinmæði og seiglu í þessu öllu saman. 

Það var frekar súrt að geta ekki haldið sameiginleg skólaslit í Fellsborg eins og við erum vön, en við gerum það besta úr stöðunni eins og við höfum gert síðan þetta ástand hófst allt í mars 2020. 

Skólaárið sem nú er liðið var fjölbreytt, skemmtilegt, krefjandi og óvenjulegt. Við lærðum margt á fyrsta árinu okkar sem skólastjórnendur og er óhætt að fullyrða að annað árið hafi ekki kennt okkur neitt minna. Við erum ótrúlega þakklátar fyrir þá þolinmæði og þann skilning sem skólasamfélagið allt hefur sýnt í þessu ástandi öllu. 

Skólaárið 2020-2021 hófst mánudaginn 24. ágúst 2020 þegar nemendur mættu á óhefðbundna skólasetningu í sínum heimastofum þar sem ekki var hægt að hittast í kirkjunni eins og vaninn er. Við upphaf skólaársins voru 78 nemendur skráðir í skólann og nú við skólalok eru þeir 79.

Skólastarfið einkennist af þeim takmörkunum sem okkur voru sett hverju sinni og var ýmislegt sem þurfti að blása af, þar má nefna Reykjaskólaferð 7. bekkjar, valgreina helgar unglingastigs og fyrri þemaviku þess sama stigs. Fresta þurfti árshátíðinni okkar í þeirri von um að hægt væri að halda hana síðar á skólaárinu sem varð svo ekki og voru atriði nemenda tekin upp og send foreldrum/forráðamönnum. 

Það var þó margt sem við gátum gert, margar spennandi valgreinar á unglingastigi, við gátum sett upp leikrit sem tekið var upp og verður upptakan til sölu á næstu dögum, nánar auglýst síðar. Unnin voru mörg spennandi verkefni og hélt umhverfisnefndin vel á spilunum til þess að hægt væri að sækja um Grænfána og gleður okkur að tilkynna að Höfðaskóli er nú orðinn skóli á grænni grein og verður fánanum flaggað von bráðar. 

Breytingar á starfsmannahaldi hafa orðið á skólaárinu, Inga Jóna Sveinsdóttir fór í fæðingarorlof og Fjóla Dögg Björnsdóttir kom til baka eftir samskonar orlof. 

Nú er skipulag næsta skólaárs í undirbúningi og verða allar upplýsingar um umsjónarkennara og starfsmannahald sendar út í ágúst. Skóladagatal næsta árs bíður samþykktar fræðslunefndar og verður sett á heimasíðu um leið og hægt er. 

Skólaslit 1.-9. bekkjar fara fram á morgun, fimmtudag, hér í skólanum. Því miður geta foreldrar ekki verið viðstaddir að þessu sinni. Skólaslit hjá 10. bekk fara fram á föstudaginn og verða haldin í kirkjunni. 

Við þökkum fyrir gott samstarf á skólaárinu og minnum á mikilvægi þess að skólasamfélagið vinni saman að því að skapa hér jákvæðan skólabrag. 

Með þessum tvískiptu skólaslitum segjum við skólaárinu 2020-2021 slitið, njótið sumarsins og við hlökkum til að hitta alla aftur í haust, á hefðbundinni skólasetningu.

Með sumarkveðjum

Sara Diljá og Guðrún Elsa