Sumarkveðja

Kæru skólavinir

Nú er enn eitt skólaárið runnið sitt skeið, skólaár sem einkenndist bæði af takmörkunum vegna heimsfaraldurs og hefðbundins skólastarfs. 

Skólaslitin okkar fóru fram í Fellsborg 31. maí s.l. og heppnuðust mjög vel. Það eru alltaf blendnar tilfinningar að slíta skóla og halda út í sumarið og sérstaklega munum við sakna þeirra sem útskrifuðust og halda nú á nýjar slóðir. 

Skólaárið okkar var fjölbreytt og skemmtilegt, nemendur unnu fjölbreytt verkefni og heilt yfir gekk allt vel. Við erum dugleg að setja myndir og fréttir á heimasíðuna af öllu því sem við erum að gera hverju sinni og hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með henni.

Skólaslitum fylgja gjarnan mannabreytingar og nú í ár kveðjum við þau Ernu Berglindi Hreinsdóttur og Ólaf Bernódusson, sem bæði hafa starfað við skólann til fjölda ára. Við munum sakna þeirra mikið og þökkum þeim kærlega fyrir þeirra góða starf í gegnum árin. 

Við þökkum sömuleiðis öllum forráðamönnum fyrir gott samstarf á skólaárinu og minnum á mikilvægi þess að muna að við erum öll saman í teymi. Það skiptir öllu máli að skólasamfélagið vinni vel saman og vinni stöðugt að því að viðhalda jákvæðum skólabrag.

Við vonum að þið njótið sumarsins kæru vinir, skólasetning Höfðaskóla fyrir skólaárið 2022-2023 fer fram 24. ágúst og verður nánar auglýst þegar nær dregur.

Með sumarkveðjum

Sara Diljá og Guðrún Elsa