Tilraunir í efnafræði

Nemendur í 6. og 7. bekk voru í verklegri efnafræði fimmtudaginn 15. febrúar því þeir hafa verið að læra ýmislegt í efnafræði, svosem um sýrustig, efnablöndur, efnasambönd og frumefni. 

Gerðar voru 3 tilraunir og er ein þeirra langtímatilraun. Við byrjuðum á að setja soðin egg í skurni annars vegar í vatn og hins vegar í ediksýru. Við ætlum að fylgjast með næstu vikur hvað gerist við eggin. Tilgangurinn er að sjá hvort ediksýra hafi áhrif á eggjaskurninn og eggið.

Næst gerðum við tilraun með þurrger, vatn og sykur og fengum það til að mynda koltvíoxíð sem við söfnuðum í blöðru og sáum þegar blaðran fór að fyllast af því. 

Að lokum gerðum við sýrustigstilraun þar sem við notuðum rauðkálssafa sem litvísi og helltum honum saman við edik, kranavatn, vatn með matarsóda, klór, sódavatn með bragði og lit, sítrónusafa, spritt og sykurblandað vatn. Flestir þessara vökva voru glærir og skiptu um lit þegar rauðkálssafinn kom saman við. Við sýrustigsmældum vökvana og komumst að því að sumir voru með mjög lágt Ph-gildi (súrir), aðrir með frekar hátt Ph-gildi (basískir) og aðrir nær hlutlausir (Ph-gildi 7). Við fengum sýrustigsstrimla hjá BioPol til að vinna þetta verkefni.

Þetta var mjög skemmtilegur verklegur tími og nauðsynlegt að geta gert svona einfaldar tilraunir með efni sem eru aðgengileg á flestum heimilum. Vissulega eru sum þeirra merkt með varúðarmerkingum og ber að umgangast þau þá með varúð.

Myndir hér