Útskriftarferð 10. bekkjar

Nemendur 10. bekkjar á Spáni
Nemendur 10. bekkjar á Spáni

10. bekkur til Spánar

Nemendur 10. bekkjar fóru á dögunum, 18.-25. maí síðastliðinn, í útskriftarferðalag til Salou á Spáni. Þegar hugað var að áfangastað fyrir útskriftaferðina kom fljótt í ljós að flestir nemendur höfðu hug á að fara til Spánar og því var stefnan sett þangað. Ásamt nemendum 10. bekkjar  fóru Helga umsjónarkennari, Sara Diljá og Fjóla Dögg.

Það var flogið til Barcelona og farið með rútu til Salou.  Salou er lítill strandbær í um það bil klukkutíma akstursfjarlægð frá Barcelona. Fyrstu tveir dagarnir fóru í það að skoða sig um í litla bænum og læra að rata um hann sem var nú reyndar mjög fljótlegt og stutt í allt sem við þurftum að sjá og skoða. Ströndin var alveg við hótelið og búð sem seldi vatn og annað bráð nauðsynlegt var líka alveg við höndina.

Skemmtigarðurinn, PortAventura, með öllum sínum spennandi rússíbönum og sundlaugargarðurinn, Aquapolis, með sínum rennibrautum voru skoðaðir sérstakleg vel og öll tæki og tól prófuð, sum oftar en einu sinni. 

Rétt hjá Salou er stærri bær sem heitir Tarragona, sá bær var heimsóttur tvisvar en í honum eru tvær verslunarmiðstöðvar svo eitthvað var hægt að versla.

Ferðin gekk vel, bæði út og heim. Nemendur og farastjórar nutu þess að vera saman í sólinni og kynnast Salou og nágrenni.  

Nemendur 10. bekkjar þakka öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem styrktu þá á einn eða annan hátt vegna útskriftarferðarinnar.