Fréttir

Gunnar Helgason rithöfundur og leikari spjallar við nemendur

Fimmtudaginn 14. september fengu nemendur í 6. og 7. bekk góða heimsókn. Gunnar Helgason rithöfundur hitti krakkana í gegnum fjarfundabúnað og sagði þeim frá ýmsu er tengist rithöfundastarfi sínu. Hann upplýsti hver væri uppáhaldsbókin sín en það er Jón Oddur og Jón Bjarni sem kom út fyrir 50 árum en það væri vegna þess að hann samsvaraði sig við aðalpersónurnar, enda tvíburi sjálfur. Hann gaf krökkunum góð ráð hvernig bæta mætti ritunarverkefni sín og sagði að best væri að bíða eftir að hugmyndirnar kæmu til manns, frekar en að hugsa stíft um þær. Að lokum las hann stórskemmtilegan bút úr óútkominni bók í seríunni um Alexander Daníel Hermann Dawidsson en sú bók heitir Bannað að drepa. Það er bæði skemmtilegt og mikilvægt fyrir krakka að fá að spjalla við rithöfunda, því þannig tengjast þeir meira bókunum og fá jafnvel meiri áhuga á að lesa. Við þökkum Gunnari kærlega fyrir að gefa sér tíma til að hitta krakkana, því hann er mjög upptekinn þessa dagana við að æfa nýtt leikrit, ásamt því að skrifa bækur.
Lesa meira

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur foreldrafélagsins verður haldinn á kaffistofu starfsmanna á 2.hæð í Höfðaskóla fimmtudaginn 14.sept. kl. 17:00. Farið verður yfir störf nýliðins skólaárs og línur lagðar fyrir nýhafið skólaár. Þá verður kosin stjórn félagsins. Allir áhugasamir foreldrar/forráðamenn nemenda við skólann eru hvattir til að mæta.
Lesa meira

Verkefnið Mílan

Í vetur ætla nemendur í 6. og 7. bekk að vera með í verkefninu Mílan sem er verkefni að skoskri fyrirmynd The daily mile. Um 5000 skólar viðsvegar um heiminn eru þátttakendur í verkefninu. Tvisvar í viku munu nemendur 6.og 7.bekkjar ganga mílu (1,6 km) um bæinn og skoða hitt og þetta. Við þiggjum hugmyndir af skemmtilegum gönguleiðum og fróðleik og erum við til í það ef einhverjir vilja slást í för með okkur. Á mánudögum fer 7.bekkur út frá kl. 8:25- 8:50 og 6. bekkur frá kl. 9:00- 9:25 Á föstudögum fer 6.bekkur út frá kl. 08:25 - 08:50 og 7.bekkur frá kl. 9:00-9:25. Í síðustu göngu gekk 7. bekkur að Einbúanum og lásum þar á skilti með fróðleik um gamla kaupfélagið. Nemendur 6. bekkjar gengu út að gömlu slökkviliðsstöð og var smá spjall þar ásamt því að við skoðuðum myndir af gömlu slökkvistöðinni í snjalltækjum. Öll erum við sammála um að þetta sé skemmtilegir og góðir göngutúrar sem búið er að fara í.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan hefur gengið vel og margt verið brallað. Nemendur eru allir að komast í góða rútínu eftir sumarfrí og margt spennandi framundan. 4. og. 5. bekkur fór í heimsókn í Árnes í vikunni og unnu verkefni því tengdu. Mörg skemmtileg verkefni í öllum bekkjum skólans eru nú í vinnslu og við minnum á að foreldrar/forráðamenn eru alltaf velkomnir í heimsókn, ef þeir vilja koma við og sjá það sem nemendur eru að fást við hverju sinni. Í næstu viku fáum við heimsókn frá Lögreglumönnum á vegum LHR. Þeir ætla koma með starfakynningu til unglinganna og nota tækifærið og hitta yngsta- og miðstig með smá fræðslu. Þá ætla nemendur í 9. og 10. bekk að hittast ásamt foreldrum/forráðamönnum, umsjónarkennara og skólastýrum og ræða fyrirkomulag útskriftaferða. Nú ætla margir upp um fjöll og firnindi um helgina að elta sauðfé, við vonum að þeir sem í það fara hafi gaman af og fari gætilega. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Bútasaumur á miðstigi

Nemendur á miðstigi eru í list og verkgreinum og er einn hópurinn að læra bútasaum.
Lesa meira

Töluboxið hennar ömmu

Nemendur 1. bekkjar voru að æfa sig að flokka og telja. Lásum bókina Töluboxið hennar ömmu. Í Töluboxinu hennar ömmu er fjallað um flokkun. Með áhugaverðum og skemmtilegum söguþræði er leitast við að draga börnin inn í söguna og þar með einnig inn í stærðfræðina. Bókin Töluboxið hennar ömmu sýnir fram á hvernig hægt er að nota stærðfræði í hversdagslegum aðstæðum auk þess að auka lestrarfærni. Við vorum síðan með fullt box af tölum sem var síðan hellt á gólfið og krakkarnir flokkuðu tölurnar eftir litum og töldu síðan hvað voru margar tölur af hverjum lit.
Lesa meira

Föstudagskveðja á fimmtudegi

Það er óhætt að segja að skólastarfið farið vel af stað í Höfðaskóla. Nemendur hafa unnið fjölbreytt verkefni, mörg hver verið töluvert útivið og haft gaman af. Frístund hefur staðið nemendum í 1.-4. bekk til boða, endurgjaldslaust, í ágúst. Frá og með mánudeginum n.k. 4. september er frístund aðeins í boði fyrir skráða nemendur, en skráning fer fram á heimasíðu skólans. Skráning í frístund Skráning í hádegismat Valgreinar hjá nemendum á mið- og unglingastigi eru margar hverjar komnar af stað og er margt fjölbreytt og skemmtilegt í boði þar. Í upphafi skólaárs er alltaf gott að muna eftir því að lúsin á það til að stríða okkur og gott að muna eftir því að kemba af og til. Að lokum minnum við á að á morgun, föstudaginn 1. september, er starfsdagur og ætlar starfsfólk skólans að skella sér á Hvammstanga á haustþing. Það er því ekki kennsla né frístund þann dag. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Myndmennt

List- og verkgreinar hófust í vikunni og yngri hópurinn litaði saman myndir og teiknuðu myndaramma á stórt blað. Útkoman var eins og mörg lítil listaverk. Þau lærðu líka um línur og form og fengu nokkrar teikniæfingar sem tengdust því. Nemendur á miðstigi fóru í skemmtilega teiknileiki með teningum og æfðu sig líka í japanskri list sem kallast Notan. Æfingin snýst um að læra muninn á jákvæðu og neikvæðu rými í myndlist og einnig góð æfing í speglun.
Lesa meira

Hestaval

Veðurguðirnir voru gjafmildir á sól og sumaryl föstudaginn síðastliðinn. Nemendur hestavals nutu aldeilis góðs af því og nýttu veðrið til að fara í útreiðartúr.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Þá er Höfðaskóli farinn af stað og ekki annað að sjá en að nemendur komi vel undan sumri. Skólasetning fór fram í gær og í morgun mættu nemendur samkvæmt stundaskrá. Veðrið leikur við okkur í dag og nemendur eru að koma sér fyrir og sinna ýmsum verkefnum bæði inni og úti. Hafragrauturinn var vel sóttur í morgun og vonumst við til að svo verði áfram. Það er gott að setjast niður á morgnanna áður en kennsla hefst, fá sér graut og spjalla við samnemendur og starfsfólk. Í næstu viku byrjar sundkennsla en hún verður á mánudögum og þriðjudögum og minnum við á að nemendur í 2.-10. bekk labba eða hjóla í sund. Ef hjólin eru notuð þarf að sjálfsögðu að vera með hjálm og ekki má fara á rafknúnum tækjum út í sundlaug. 1. bekk verður keyrt í og úr sundi. Á föstudaginn í næstu viku, 1. september, verður starfsdagur þar sem allt starfsfólk skólans sækir haustþing sem haldið verður á Hvammstanga. Minnum á skráningu í hádegismat og frístund. Ef eitthvað er óskýrt eða ef spurningar vakna, má alltaf hafa samband. Góð samvinna skiptir öllu máli. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira