Fréttir

Síðasta föstudagskveðjan fyrir jólafrí

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Nágrannar okkar í Tónlistarskóla A-Hún komu á mánudaginn og fimmtudaginn og stýrðu söng þar sem allur skólinn tók undir. Á fimmtudaginn fengur nemendur skólans piparkökur og heitt/kalt kakó í nestistímanum. Í morgun fóru nemendur skólans ásamt starfsfólki yfir í kirkjuna og hlustuðu á jólaminningar Þorgerðar Þóru (Giggu). Nokkrir nemendur af unglingastigi stýrðu söng og aðrir nemendur skólans tóku undir af mikilli snilld. Í hádeginu var síðan boðið uppá möndlugraut sem Guðrún, Ásdís og Finnbogi hrærðu ásamt dyggu aðstoðarfólki. Ein mandla fyrir hvern bekk og var gaman að sjá nemendur gleðjast yfir því að fá möndluna sem og hina sem samglöddust með bekkjarfélögum sínum. Í dag lauk söfnuninni okkar til styrktar jólasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar, söfnuðust 61.500 krónur sem munu án efa koma sér vel nú fyrir jólahátíðina. Þess má geta að ein amman gaf 1000kr fyrir hvert barnabarn sem hún á í skólanum og kunnum við henni okkar bestu þakkir. Á mánudaginn verða svo litlu jólin okkar. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og verða til 12:00. Allt starfsfólk verður mætt kl. 8:00 þannig að ef þannig stendur á þá er auðvitað í lagi að nemendur mæti fyrr. Við ætlum að dansa í kringum jólatré þar sem Hugrún Sif spilar undir fyrir okkur og Sóley Sif leiðir sönginn :) Engin frístund þennan dag heldur halda allir heim í jólafrí á hádegi. Frekari upplýsingar um litlu jólin munu berast foreldrum/forráðamönnum frá umsjónarkennurum. Höfðaskóli er einstaklega heppinn að eiga hæfileikaríkt og gott fólk í kringum sig sem kemur til aðstoðar við hin ýmsu tilefni. Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum jólakveðjur Guðrún Elsa
Lesa meira

Skemmtikvöld fyrir nemendur á miðstigi

Nemendafélag Höfðaskóla hélt í gærkvöldi skemmtikvöld fyrir alla nemendur á miðstigi. Farið var í Bingo og spilað Kviss. Nemendafélagið var einnig búið að útbúa sína útfærslu af þrautum sambærilegum og eru í þáttunum Kappsmál á RUV. Kvöldið heppnaðist vel og þökkum við nemendafélaginu fyrir augljósan metnað til að gera kvöldið skemmtilegt.
Lesa meira

Heimsókn nemenda á unglingastigi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Undanfarin 2 ár hafa nemendur unglingastigs verið með 2 list- og verkgreinavikur yfir skólaárið, þar sem farið hefur verið í hinar ýmsu greinar sem hægt er að kenna hér í húsi. Í haust var ákveðið að leita eftir samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) varðandi þessa viku nú á haustönn. Starfsfólk FNV tók mjög vel í beiðni okkar og niðurstaðan var sú að nemendur okkar fóru 2 daga í kennslu í FNV. Báða dagana snæddu nemendur í mötuneyti heimavistarinnar. Miðvikudaginn 7. desember hélt hópurinn af stað árla morguns ásamt umsjónarkennurum yfir á Sauðárkrók. Þar tóku Karítas umsjónarmaður FabLab og Hrannar og Óskar kennarar í tréiðnadeild á móti okkur. Unglingarnir unnu í 2 hópum að smíðaverkefnum, lærðu að vinna myndir í InkScape fyrir laserskera og límmiðaskurð, myndirnar voru síðan þrykktar á boli og afraksturinn varð ansi fjölbreyttur. Það var þreyttur hópur sem kom heim seinni part dagsins. Á fimmtudagsmorgni 8. desember var aftur haldið af stað og á móti okkur tóku Garðar í rafiðnadeildinni og Geir og Jónatan í málmsmíðadeildinni. Nemendur fengu að prófa að rafsjóða, vinna með plötuskurð og sum fengu að prófa að sandblása. Einnig voru fjöltengi fjöldaframleidd í rafiðnaðardeildinni, ásamt því að öll fengu að prófa að lóða annað hvort ljósabretti eða koparvír. Nemendur okkar stóðu sig með prýði og fengu mikið hrós frá starfsfólki FNV og mötuneytisins fyrir kurteisi og prúða framkomu. Við þökkum starfsfólki FNV kærlega fyrir góðar móttökur og vonum að þetta samstarf okkar eigi að halda áfram.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl og blessuð Nemendur á unglingastigi dvöldu á Sauðárkróki í FNV frá kl. 8:00-17:00 bæði miðvikudag og fimmtudag í þessari viku. Þar fengu þau kynningu á málmiðn, húsasmíði, rafiðn og FabLab. Nemendur og kennarar voru mjög ánægð með heimsóknina og þökkum við Fjölbrautaskóla Norðurlans vestra fyrir höfðinglegar móttökur. Næsta vika er síðasta heila skólavikan fyrir jólafrí og þá verður ýmislegt um að vera. Á mánudag verða sungin jólalög með aðstoð Hugrúnar og Elvars Loga kennara í Tónlistarskóla A-Hún, á miðvikudaginn verða kakó og piparkökur í nestinu og á fimmtudaginn verður síðasta söngstundin. Á föstudaginn ætlum við saman í kirkjuna og eiga þar notalega stund, hlusta á jólasögu og syngja jólalög. Möndlugrauturinn verður svo á sínum stað þann sama dag. Allar nánari upplýsingar um þessa daga fást hjá umsjónarkennurum. Að lokum minni ég á söfnunina okkar fyrir Velunnarafélag Skagastrandar og Skagabyggðar :) Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa
Lesa meira

Söngur á "sal"

Í morgun kl. 10:00 hittust allir nemendur og starfsfólk skólans og sungu saman jólalög við undirleik okkar frábæru nágranna í tónlistarskólanum, Hugrúnu Sif og Elvari Loga. Dásamleg stund sem verður endurtekin í næstu viku :)
Lesa meira

Jólaföndur

Í gær gerðum við okkur glaðan dag og höfðum jólaföndur frá kl. 10:00-12:00 þar sem nokkrar stöðvar hér og þar um skólann voru í gangi og nemendur gátu flakkað á milli. Skemmtileg hefð þar sem allir gátu föndrað eitthvað við sitt hæfi.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir! Áfram heldur tíminn að æða frá okkur, fyrsti í aðventu var sl. sunnudag og desember byrjaður. Það er margt skemmtilegt framundan hjá okkur. Í desember verður eitthvað um uppbrot frá hefðbundinni kennslu má þar nefna jólaföndurdag 7. des eins og undanfarin ár, jólaþema - rauður dagur 9.des, kakó og piparkökur í nestinu 14. des, fara í kirkjuna og hlusta á Giggu rifja upp jólin þegar hún var barn og syngja saman nokkur lög og borða síðan jólagraut í skólanum 16.des, litlu jólin verða svo haldin verða 19. desember. Unglingastigið fer á Sauðárkrók 7. og 8. desember þar sem þau fá kynningu á því verknámi sem Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra hefur uppá að bjóða. Ómetanlegt fyrir nemendur skólans að fá kynningu sem þessa. Undanfarin ár hafa nemendur og starfsfólk skólans styrkt Velunnarasjóði. Þetta árið var ákveðið að styrkja sama málefni og í fyrra, Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar, þar sem upplifunin er að við séum að hafa góð áhrif á okkar nærumhverfi með framlaginu. Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólann í síma 4522800 eða gudrunelsa@hofdaskoli.is Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu vel klæddir, þá sérstaklega nemendur yngsta stigs sem eru í frístund. Nemendur eru mikið utandyra á frístundartíma og þá skiptir miklu máli að vera vel klædd. Ég vona að þið njótið helgarinnar. Með góðum aðventukveðjum, Guðrún Elsa
Lesa meira

Jólasöfnun fyrir Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar

Litlu jól nemenda verða 19. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulag undanfarinna ára þ.e. engin pakkaskipti á litlu jólunum, bæði hjá nemendum og starfsfólki skólans. Óskað er eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk, ef heimilin hafa tök á. Í fyrra kusu nemendur að styrkja Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar en hann er til að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu sem minna mega sín. Ákveðið hefur verið að styrkja sama málefni þetta árið þar sem upplifunin er að við séum að hafa góð áhrif á okkar nærumhverfi með framlaginu. Föstudaginn 2. desember fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag merkt verkefninu og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Velunnarasjóðnum verður síðan afhentur styrkurinn föstudaginn 16.desember. Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólann í síma 4522800 eða gudrunelsa@hofdaskoli.is
Lesa meira

Jólatónleikar Tónlistarskóla A.-Hún. fara fram 13. desember kl.16:30 í Hólaneskirkju

Jólatónleikar Tónlistarskóla A.-Hún. fara fram 13. desember kl.16:30 í Hólaneskirkju. ATH. Breytt dagsetning v/ferðar unglingastigs í Skagafjörðinn.
Lesa meira

Ævintýri á aðventunni

Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri heimsótti nemendur á yngsta stigi í morgun með jólasýninguna Ævintýri á aðventunni. "Ævintýri á aðventunni er nýr gleðilegur jólasöngleikur úr smiðju sviðslistahópsins Hnoðra í norðri sem sniðinn er að börnum á 6-10 ára aldri, en ætti að koma öllum aldurshópum í jólaskap. Lengd verksins er 30 mín. Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar." Nánari upplýsingar um verkið er að finna á heimasíðu List fyrir alla. Við þökkum sviðslistahópnum hjartanlega vel fyrir komuna og einnig styrktaraðilum hópsins fyrir tækifærið.
Lesa meira