Fréttir

Föstudagskveðja frá skólastjórnendum

Heil og sæl Helgin hófst aðeins fyrr en áætlað vegna Covid smits sem kom upp á unglingastigi. Allir nemendur og starfsmenn skólans fóru í úrvinnslusóttkví frá og með miðvikudagskvöldinu 12.janúar kl. 22:30 og gildir hún í 48 klukkustundir nema annað komi fram. Minnum á að sömu reglur gilda í úrvinnslusóttkví og sóttkví (sjá á https://www.covid.is/undirflokkar/sottkvi) Erfiðlega hefur gengið að fá leiðbeiningar um næstu skref frá rakningarteyminu en við erum í góðu sambandi við almannavarnir hér á svæðinu ásamt hjúkrunarfræðingi og við tökum því sem að höndum ber og vonum að allir fari varlega. Ef ekki berast upplýsingar fyrir kvöldið þá gæti farið svo að úrvinnslusóttkví verði lengd um sólarhring. Við minnum á mikilvægi þess að skoða tölvupóstinn sinn og heimasíðu skólans til að vera upplýst þegar breytingar berast. Við erum ótrúlega þakklátar fyrir þá þolinmæði og þann skilning sem skólasamfélagið allt hefur sýnt í þessu ástandi. Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Höfðaskóli lokaður fram yfir helgi

Vegna staðfests smits í Höfðaskóla, unglingastig, verða allir nemendur skólans í úrvinnslusóttkví þar til frekari upplýsingar koma frá smitrakningarteyminu. Mikið álag er á rakningarteyminu og því verður skólinn lokaður bæði fimmtudag og föstudag. Frekari upplýsingar verða sendar eins fljótt og hægt er. Úrvinnslusóttkví: Meðan verið er að vinna úr smitrakningu eru hópar nemenda og/eða starfsmanna settir í úrvinnslusóttkví. Í smitrakningu er verið að skoða hverjir hafa mögulega smitast af einhverjum sem er með Covid-19. Í úrvinnslusóttkví gilda sömu reglur og á við um sóttkví. Úrvinnslusóttkví gildir í innan við 48 klukkustundir. Við minnum á að allar upplýsingar um Covid má nálgast á https://www.covid.is/ og ítrekum að fara strax í PCR-sýnatöku ef einkenni gera vart við sig, hversu lítil sem þau eru. Nú þurfum við öll að standa saman. Með góðri kveðju Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Föstudagskveðja skólastjórnenda

Komið þið sæl Nú er skólastarf hafið að nýju eftir áramót og eflaust einhverjir sem lögðust í ferðalög yfir hátíðirnar, ýmist innanlands eða erlendis. Sérlega mikilvægt er að allir gæti að persónulegum sóttvörnum og hugi að smitvörnum. Í reglugerð um sóttkví og einangrun og sóttvarnarráðstafanir á landamærunum Íslands vegna COVID-19 stendur: „Jafnframt skal ferðamaður með tengsl við Ísland gangast undir mótefnavakapróf (antigen-hrað­próf) eða PCR-próf á næstu tveimur dögum frá komu til landsins.“ Farþegar fara því í sýnatöku við komuna til landsins, hvort sem er PCR eða hraðpróf tveim dögum frá komu til landsins. Við hvetjum til þess að það sé farið í PCR á flugvellinum, þó svo hraðpróf séu einnig gild. Sýnataka er ókeypis. Við hvetjum foreldra/forráðamenn að halda börnum á leik- og grunnskólaaldri heima þann tíma sem sóttkví varir og beðið er eftir niðurstöðu úr sýnatöku. Eins væri gott, ef hægt er að börn fari í hraðpróf eða PCR próf áður en þau mæta í skólann. Hátt hlutfall smita utan í sóttkvíar bendir til þess að talsvert sé um veirusmit í samfélaginu. Mjög mikilvægt er að verja skóla- og frístundastarf eins og hægt er við þessar aðstæður og óskum við eftir samstarfi varðandi það. Öll einkenni á að taka alvarlega, líka kvef og hálsbólgu, hvort sem er hjá börnum eða öðru heimilisfólki. Á heimasíðu Covid.is eru nánari upplýsingar um einkenni: https://www.covid.is/undirflokkar/ad-fordast-smit Okkur hefur tekist að halda skóla- og frístundastarfi hér á Skagaströnd í nokkuð góðum farvegi en fréttir annars staðar af landinu benda til þess að lítið megi bregða út af til að raska starfseminni, með tilheyrandi íþyngjandi afleiðingum á borð við sóttkví eða einangrun. Leggjumst á eitt og gerum allt sem í okkar valdi stendur, fylgjum tilmælum sóttvarnalæknis og drögum úr líkum þess að raska lífi barnanna okkar meir en orðið er.
Lesa meira

Annáll og jólakveðja stjórnenda

Heil og sæl Senn er árið 2021 á enda, viðburðaríkt og margt sem hefur sett svip sinn á skólastarfið hjá okkur. Janúar og febrúar voru með rólegra móti. Veðrið var ekki til mikilla trafala og gerðum við gott úr því sem okkur var rétt. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt þó okkur hafi verið þröngur stakkur sniðinn sökum heimsfaraldurs. Nemendafélag Höfðaskóla tók formlega til starfa og eru það nemendur á unglingastigi sem skipa stjórn þess. Nemendur á yngsta stigi heimsóttu Spákonuhof 22. janúar í kjölfar verkefnavinnu tengdri þorranum. Höfðaskóli lenti í 3. sæti á landsvísu í grunnskólakeppni Samróms og fékk verðlaun fyrir sitt framlag á Bessastöðum 27. janúar. Nemendur í 10. bekk tóku þátt í rafrænu skemmtikvöldi hjá Nemendafélagi FNV og unglingar í forritunarvali heimsóttu nemendur á yngsta stigi og kenndu þeim á Sphero. 112 dagurinn var haldinn 11. febrúar og fengum við skemmtilega heimsókn frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitinni Strönd. Uppúr miðjum febrúar var unnið hörðum höndum að því að fjölga nemendum skólans þar sem fylgst var með níu hænueggjum í ferlinu frá eggi að unga og 17. febrúar var öskudagurinn þar sem hinar ýmsu verur mættu í skólann. Í mars fengu nemendur á yngsta stigi ný borð og stóla og ungarnir níu komust allir úr eggi, 100% árangur og skólastarfið með líflegra móti. Danskennsla var vikuna 15.-19. mars og þótti flestum það skemmtilegt. Framsagnarkeppni Höfðaskóla, fyrir nemendur á miðstigi, var haldin í kirkjunni. Þemavika hjá nemendum unglingastigs, ein stöð á hverjum degi í viku. Páskafríið hófst aðeins fyrr en áætlað var vegna hertra sóttvarnaaðgerða en við tökum því sem höndum ber. Í apríl var árshátíðin rafræn og Þorgrímur Þráinsson heimsótti unglingastigið með fyrirlesturinn ,,Verum ástfangin af lífinu" og nemendur í 9. og 10. bekk fóru á skyndihjálparnámskeið. Handritasamkeppni Árnastofnunar var haldin í samstarfi við Sögur- verðlaunahátíð barnanna og einn nemandi úr Höfðaskóla, Vésteinn Heiðarr Sigurðarson, var valinn sigurvegari ásamt 12 öðrum krökkum. Í lok apríl fengu nemendur 1.bekkjar hjálma að gjöf frá Kiwanis klúbbnum og 5. og 6. bekkur fóru í heimsókn á Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Maí gekk í garð og nemendur í 1. og 2. bekk tóku honum fagnandi með sápukúlublæstri og yngsta stig fór í fjöruferð. Leiklistarval unglingastigs lauk sinni vinnu þar sem leikritið ,,Klippt og skorið - morðgáta" var tekið upp. Vegna þeirra takmarkana sem giltu um skólastarf var ekki hægt að vera með sýningar með hefðbundnu sniði heldur var hægt að kaupa upptöku af leikritinu. Höfðaskóli varð skóli á grænni grein og fékk sinn fyrsta Grænfána. Annað árið í röð komst 10. bekkur ekki í utanlandsferðina sína vegna heimsfaraldurs en þau fóru í skemmtilega ferð innanlands í staðin. Ekki var hægt að hafa sameiginleg skólaslit í lok maí þegar viðburðaríku skólaári var slitið með pompi og prakt og nemendur héldu út í sumarið. Skólaárið 2021-2022 hófst mánudaginn 23. ágúst, breyting var á skólasetningu vegna samkomutakmarkana og mættu nemendur beint í skólann en ekki í kirkjuna eins og venja var fyrir heimsfaraldur. Í september fór af stað hestaval á unglingastigi undir stjórn Höllu Maríu sem gekk vonum framar og einnig fengu nemendur unglingastigs fyrirlestur um fugla hjá Einari Ó. Þorleifssyni náttúrufræðingi hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra. Við nýttum fallegt haustveður til útivistar og nám í gegnum leik. Október og nóvember voru með rólegra móti, nemendur á unglingastigi sáu sýninguna Vloggið á Blönduósi en Þjóðleikhúsið var á leikferð um landið og tóku þátt í valgreinadegi með nemendum úr Blöndu- og Húnavallaskóla. Samtökin 78 voru með fræðslu fyrir öll stig skólans ásamt fræðslu fyrir starfsfólk og forráðamenn. Menntabúðir voru haldnar 2. nóvember þar sem forráðamenn, ættingjar og aðrir velunnarar skólans voru hjartanlega velkomnir að kíkja í heimsókn og kynna sér hin ýmsu tæki og tól til kennslu, mæting og áhugi fóru fram úr björtustu vonum. Í byrjun nóvember var okkar árlegi flippíþróttadagur haldinn að þessu sinni var hann innandyra en það var ekki til að skemma stemninguna. Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur 16.nóvember og þemavika var á unglingastigi vikuna 22.-25. nóvember þar sem kennt var heimilisfræði, myndmennt, tálgun og plastvinna. Nú í desember höfum við verið að reyna brjóta upp hefðbundið skólastarf. Við fórum með yngsta stig og tendruðum ljósin á jólatrénu, fengum jólasveina í heimsókn, héldum föndurdag, söngsal, jólastund, möndlugraut og að lokum litlu jólin okkar sem voru einstaklega notaleg þrátt fyrir breytta dagskrá vegna takmarkana. Þetta ár hefur verið viðburðaríkt og óhætt að segja að við séum enn að takast á við aðstæður sem engum óraði fyrir að kæmu upp. Með samheldni og samstöðu höfum við komist í gegnum vikurnar eina af annarri og höldum því áfram á nýju ári. Við erum ótrúlega þakklátar fyrir þá þolinmæði og þann skilning sem skólasamfélagið allt hefur sýnt í þessu ástandi öllu. Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með heimasíðunni okkar, við erum dugleg að setja inn fréttir og aðrar upplýsingar. Að lokum langar okkur að þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonum að þið eigið góð og gleðileg jól. Með góðum jólakveðjum Guðrún Elsa, Dagný Rósa og Sara Diljá
Lesa meira

Síðasta föstudagskveðjan árið 2021

Í byrjun vikunnar kíktu rauðklæddir karlar í heimsókn til nemenda skólans, rétt aðeins til að minna á sig. Uppátæki þeirra vöktu mikla kátínu sérstaklega hjá nemendum yngsta stigs. Í gærmorgun fóru nemendur skólans ásamt starfsfólki yfir í kirkjuna og hlustuðu á jólaminningar Ingibergs Guðmundssonar. Hugrún spilaði og söng ásamt nemendum sem tóku undir af mikilli snilld. Í hádeginu var síðan boðið uppá möndlugraut sem Guðrún og Finnbogi hrærðu ásamt dyggu aðstoðarfólki. Í dag voru litlu jólin, nemendur mættu margir hverjir í sínu fínasta pússi. Þrátt fyrir að fjöldatakmarkanir hefðu komið í veg fyrir að haldið yrði jólaball í íþróttahúsinu þá var sett upp jólatré og það skreytt í anddyri skólans. Nemendur komu svo eftir bekkjum og dönsuðu þar í kring og sungu. Myndir hér Í dag lauk söfnuninni okkar til styrktar jólasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar, söfnuðust 70þúsund krónur sem munu án efa koma sér vel nú fyrir jólahátíðina. Þess má geta að ein amman gaf 1000kr fyrir hvert barnabarn sem hún á í skólanum og kunnum við henni okkar bestu þakkir. Þetta ár hefur verið viðburðarríkt og óhætt að segja að við séum enn að takast á við aðstæður sem engum óraði fyrir að kæmu upp. Með samheldni og samstöðu höfum við komist í gegnum vikurnar eina af annarri og höldum því áfram á nýju ári. Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast með heimasíðunni okkar, við erum dugleg að setja inn fréttir og aðrar upplýsingar. Að lokum langar okkur að þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og vonum að þið eigið góð og gleðileg jól. Með jólakveðjum Guðrún Elsa, Sara Diljá og Dagný Rósa
Lesa meira

Piparkökuhús

Nemendur yngsta stigs koma heim í dag með fagurlega skreytt piparkökuhús. Myndirnar hér meðfylgjandi sína einbeitningu og þolinmæði sem einkenndi nemendurna meðan á verkinu stóð.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Á miðvikudaginn var fyrsti söngsalurinn okkar í desember og fengum við fjórar stúlkur af unglingastigi til að leiða sönginn, þann daginn bauð einnig nemendafélagið öllum í vöfflukaffi. Í dag var svo boðið var upp á heitt og kalt kakó með rjóma í nestistímanum. Í næstu viku verður sundkennsla á mánudag en á þriðjudag fara nemendur í íþróttir í staðin svo það er mikilvægt að hafa með sér íþróttafötin. Við ætlum að bralla ýmislegt síðustu dagana fyrir jól. Á mánudag verður verður smá jólagleði fyrir yngsta stig. Á miðvikudag verður jólasöngsalur og rautt þema, jólapeysur, jólasokkar, jólahitt og jóla þetta :) Á fimmtudag ætlum við að eiga notalega jólastund saman. Við förum í kirkjuna, hlustum á jólasögu, syngjum nokkur jólalög og höfum gaman. Í hádeginu fáum við svo möndlugrautinn. Ein möndlugjöf verður fyrir hvern bekk og það verður spennandi að sjá hverjir verða hinir heppnu í ár :) Það verður ekki matur í Fellsborg þennan dag og enginn skóli eftir hádegi hjá mið- og unglingastigi. Frístund verður með hefðbundnu sniði. Á föstudag verða svo litlu jólin okkar. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og verða til 12:00. Við ætlum að dansa í kringum jólatré þar sem Hugrún Sif spilar undir fyrir okkur og Ástrós Elís leiðir sönginn eins og svo oft áður :) Engin frístund þennan dag heldur halda allir heim í jólafrí á hádegi. Frekari upplýsingar um litlu jólin munu berast foreldrum/forráðamönnum frá umsjónarkennurum. Höfðaskóli er einstaklega heppinn að eiga hæfileikaríkt og gott fólk í kringum sig sem kemur til aðstoðar við hin ýmsu tilefni. Við erum komin í jólaskap og ætlum að njóta síðustu daganna fyrir frí saman. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum jólakveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Vöfflukaffi

Nemendafélag Höfðaskóla stóð fyrir vöfflukaffi í gær, miðvikudaginn 8.des. Frá kl. 8:20 um morguninn stóðu þau í ströngu, hrærðu og steiktu eins og vindurinn. Allir nemendur og kennarar skólans fengu vöfflu, rjóma, súkkulaði og sultu. Einstaklega skemmtilegt framtak og nýttum við söngstund dagsins til að klappa vel fyrir þessum flottu krökkum.
Lesa meira

Leiðangur í myrkrinu

Nemendur í 1.-4.bekk nýttu myrkrið í gærmorgun og fóru í leiðangur. Komu við hjá Haffa Páls og fengu að berja nýja slökkviliðsbílinn augum og þar á eftir fóru þau að eldstæðinu við Bjarmanes og grilluðu sér sykurpúða. Við öll kunnum vel að meta liðlegheit Haffa og færum honum þakkir fyrir. Myndir hér
Lesa meira

Jólasöfnun fyrir Jólasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar

Litlu jól nemenda verða 17. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulagið sem við tókum upp fyrir tveim árum hvað varðar pakkaskiptin. Í ár hafa nemendur kosið að styrkja Jólasjóðinn, hann er til að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu sem minna mega sín, og koma nemendur ekki með pakka heldur óskum við eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk, ef heimilin hafa tök á. Starfsfólk skólans mun einnig styrkja Jólasjóðinn í stað þess að skiptast á gjöfum. Á morgun fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag merkt verkefninu og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Styrknum verður svo skilað til Jólasjóðsins á litlu jólunum. Í fyrra fengum við fregnir af því að fleiri en heimili grunnskólabarna vildu leggja söfnuninni lið. Ef einhverjir bæjarbúar vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur og leggja málefninu lið er hægt að hafa samband við skólastýrur í síma 4522800 eða á gudrunelsa@hofdaskoli.is og dagnyrosa@hofdaskoli.is
Lesa meira