Fréttir

Föstudagskveðja

Sæl og blessuð Áfram líður tíminn og skólaárið er komið vel af stað. Í vikunni sem nú er að líða voru nemendaviðtöl sem voru vel sótt og þökkum við öllum sem komu kærlega fyrir góð og gagnleg viðtöl. Gott samstarf milli heimila og skóla skilar sér til nemenda á þann veg að þeim líður betur og námsárangur verður betri. Við minnum á að foreldrar/forráðamenn eru alltaf velkomnir í heimsókn til okkar, slíkt þarf ekki einungis að vera á sérstökum viðtals dögum. Lesferill verður lagður fyrir núna í september og verða niðurstöður nemenda aðgengilegar á Mentor. Mikilvægt er að halda vel á spöðunum þegar kemur að heimalestri og sinna þeim hluta náms vel ekki síður en þeim hluta sem fram fer í skólanum. Þetta skólaárið mun verða sameiginleg stjórn nemendafélagsins og félagsmiðstöðvarinnar. Í stjórn skólaárið 2023-2024 sitja: Úr 8. bekk eru það Patrik Máni Róbertsson og Ylfa Fanndís Hrannarsdóttir. Úr 9. bekk eru það Alexander Áki Hall Sigurðsson og Anton Logi Reynisson. Úr 10. bekk eru það Logi Hrannar Jóhannsson og Sigríður Kristín Guðmundsdóttir. Stjórnin tekur til starfa í næstu viku og það verður spennandi að fylgjast með hvað félagið gerir skemmtilegt á skólaárinu. Við minnum á mikilvægi þess að yfirfara endurskinsmerkin þar sem er orðið ansi dimmt á morgnanna þegar við mætum í skólann. Hvetjum ykkur til að fylgjast vel með á heimasíðunni okkar en þar setjum við inn allar helstu fréttir. Við vonum að þið njótið helgarinnar. Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Sara Diljá
Lesa meira

FAST hetjur

Við í 1. bekk erum byrjuð á skemmtilegu verkefni sem kallast FAST hetjur og er verðlaunað fræðsluverkefni sem kennir fólki að þekkja einkenni slags (heilablóðfalls) og rétt viðbrögð við því. Þetta munum við taka fyrir 1x í viku í 5 vikur.
Lesa meira

Heimsókn í Árnes

Miðvikudaginn 6. september fórum við í 4. og 5. bekk heimsókn í Árnes. Sigrún Lárusdóttir tók á móti okkur. Hún sagði okkur sögu hússins og sýndi okkur allt húsið að innan. Okkur fannst merkilegt að sjá gamla krullujárnið og vöfflujárnið. Svo var gaman að fá að setjast í gamla stólinn sem var tekinn úr skipinu Laura sem var danskt póstskip sem strandaði í Bótinni ( norðan meginn við Höfðann) þann 10. mars 1910. og hann var mjög þægilegur. Það var líka mjög fyndið að konan og barnið voru látin sofa í pínulitlu rúmi en karlinn sem var miklu minni en konan svaf einn í miklu stærra rúmi. Þarna var líka gamall skólabekkur sem var mjög óþægilegur. Svo var mjög merkilegt að sjá hvað fólkið var duglegt að gera við það sem bilaði. Það var engu hent og meira að segja búið að sauma saman disk. Það var mjög gaman að sjá hvernig fólkið bjó í gamla daga og þessi heimsókn var mjög skemmtileg.
Lesa meira

Jón Sveinn Pálsson fyrrverandi skólastjóri Höfðaskóla

Jón Sveinn Pálsson, fyrrverandi skólastjóri Höfðaskóla lést 6. september síðast liðinn 89 ára að aldri, hann verður jarðsunginn frá Blönduóskirkju í dag 20.september. Jón var skólastjóri Höfðaskóla á árunum 1966-1986 þó með hléi skólaárið 1973-1974. Starfsfólk Höfðaskóla fyrr og nú vottar aðstandendum samúð sína með þökk fyrir framlag hans til skólastarfs á Skagaströnd.
Lesa meira

Dagur íslenskrar náttúru - 1.-3.bekkur

Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru fór 1.-3. bekkur út á föstudaginn. Þar léku þau sér með ýmisskonar efnivið í náttúrunni og bjuggu til andlitsmyndir
Lesa meira

Frístund sem valgrein

Ein af valgreinum nemenda á mið- og unglingastigi felst í því að aðstoða í frístund skólans. Þessi mynd var tekin fyrir helgi og má þar sjá eldri nemendur í bland við þau yngir í leiknum Hver er undir teppinu.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl og blessuð Vikan gekk vel í Höfðaskóla og margt skemmtilegt um að vera eins og vanalega. Lögreglumenn frá LRH komu í heimsóttu alla nemendur skólans og rithöfundurinn Gunnar Helgason hitti nemendur 6. og 7.bekkkjar gegnum teams og átti við þau gott samtal, við þökkum þessum gestum okkar kærlega fyrir að gefa sér tíma til að hitta nemendurna. Aðalfundur foreldrafélagsins var haldinn í vikunni og þegar komin er niðurstaða varðandi stjórnarskipan mun það birtast hér á heimasíðunni. Foreldrafélagið er með emailið foreldrafelag@hofdaskoli.is ef þið viljið koma t.d. sniðugum hugmyndum á framfæri eða langar að fá að starfa náið með félaginu án þess að sitja í stjórn. Miðvikudaginn 20.sept verður skipulagsdagur/viðtalsdagur og ættu allir foreldrar/forráðamenn að hafa fengið aðgang að Mentor til að geta skráð sig og barnið sitt í viðtal hjá umsjónarkennara. Við minnum á að fylgjast vel með á heimasíðunni okkar en þar setjum við inn allar helstu fréttir. Við vonum að þið njótið helgarinnar. Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Sara Diljá
Lesa meira

Heimsókn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Mánudaginn 11. september fengum við góða heimsókn þegar tveir lögreglumenn frá LHR komu í heimsókn. Þeir hittu nemendur á öllum stigum og fóru yfir hin ýmsu málefni. Nemendur höfðu mjög gaman af þessari heimsókn og þökkum við þeim Magnúsi og Unnari kærlega fyrir komuna.
Lesa meira

Námsferð að Hrafná

Nemendur á miðstigi fóru í fjöruferð að Hrafná í gær 14. september í tilefni af því að dagur íslenskrar náttúru er núna á laugardaginn, 16. september. Ýmislegt var skoðað bæði á leiðinni og við Hrafná. Meðal annars spreyttu nemendur sig á að ýla með melgresisstráum sem voru víða á leið þeirra, skoða ýmsar gerðir af þara, handleika hrúðurkarla, bláskeljar og kuðunga. Mesta lukku vöktu þó marflærnar sem nægt var af undir steinum í fjöruborðinu. Nærumhverfið okkar er frábær kennslustaður og nálægðin við fjöruna og hafið gefur ýmis tækifæri til náms sem auðveldara er að leysa úti frekar en að skoða myndir inni í skólastofu.
Lesa meira

Gunnar Helgason rithöfundur og leikari spjallar við nemendur

Fimmtudaginn 14. september fengu nemendur í 6. og 7. bekk góða heimsókn. Gunnar Helgason rithöfundur hitti krakkana í gegnum fjarfundabúnað og sagði þeim frá ýmsu er tengist rithöfundastarfi sínu. Hann upplýsti hver væri uppáhaldsbókin sín en það er Jón Oddur og Jón Bjarni sem kom út fyrir 50 árum en það væri vegna þess að hann samsvaraði sig við aðalpersónurnar, enda tvíburi sjálfur. Hann gaf krökkunum góð ráð hvernig bæta mætti ritunarverkefni sín og sagði að best væri að bíða eftir að hugmyndirnar kæmu til manns, frekar en að hugsa stíft um þær. Að lokum las hann stórskemmtilegan bút úr óútkominni bók í seríunni um Alexander Daníel Hermann Dawidsson en sú bók heitir Bannað að drepa. Það er bæði skemmtilegt og mikilvægt fyrir krakka að fá að spjalla við rithöfunda, því þannig tengjast þeir meira bókunum og fá jafnvel meiri áhuga á að lesa. Við þökkum Gunnari kærlega fyrir að gefa sér tíma til að hitta krakkana, því hann er mjög upptekinn þessa dagana við að æfa nýtt leikrit, ásamt því að skrifa bækur.
Lesa meira