Fréttir

Nemendur í myndmennt heimsóttu Nes listamiðstöð og kynntust þar m.a. kínveskri leturgerð

Ómetanlegt samstarf Höfðaskóla og Nes listamiðstöðvar. Nemendur í myndmennt fengu að fara í Nes listamiðstöð í vikunni til að spreyta sig á kínverskri leturgerð hjá Martin og Wen-Hsi. Martin og Wen-Hsi búa í Bretlandi en Wen-Hsi er upprunalega frá Taívan og fengu nemendur einnig að læra aðeins um hina ýmsu siði og öðruvísi menningu fólks sem er frá Asíu. Meðal annars um það hvernig fólk í Asíu fagnar nýju ári og hvaða stjörnuspá þau fara eftir. Síðan fengu nemendur kennslu í þeirri sérstöku tækni sem notuð er við kínverska leturgerð. Nemendur máluðu með bleki á rauðan pappír ( sem er gerður úr hrísgrjónum og bómull ) með penslum úr úlfa og kinda hárum sem Wen-Hsi og Martin komu með frá Taívan. Nemendur æfðu sig í að mála tákn sem þýða: Að eilífu, Mikla lukku og Vor, en þessi orð eru notuð til að skreyta hús fólks sem heldur upp á áramótin með Asískum sið. Öll stóðu sig frábærlega og öll sýndu þessu verkefni mikinn áhuga og höfðu gaman af. Myndir hér
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl öll Vikan sem er að líða var róleg og tíðindalítil. Komandi fimmtudag leggur unglingastigið land undir fót og ætla þau, ásamt umsjónarkennurum, að bregða sér til Reykjavíkur. Ætlunin er að fara á sýninguna Mín framtíð í Laugardalshöll. Upplestrarkeppnin á miðstigi verður haldin innanhúss þetta árið og ætla nemendur að lesa á miðvikudag og vera með uppskeruhátíð á Harbour á föstudag. Nú eru laus þrjú störf til umsóknar hjá skólanum, allar nánari upplýsingar hér. Munum að klæða okkur vel því nú er kári kaldur. Vonum að þið njótið helgarinnar Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Laus störf við Höfðaskóla

Nú eru þrjú störf til umsóknar við skólann hjá okkur. Vilt þú slást í hópinn? :) Um er að ræða sérkennara/verkefnastjóra sérkennslu, húsvörð og ritara. Hægt er að skoða auglýsingarnar, lesa starfslýsingar og sækja um hér.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl öll Vikan í Höfðaskóla gekk ljómandi vel, veðrið var gott og nemendur á yngsti stigi voru mikið úti. Frístund hefur einnig notið veðurblíðunnar og borðuðu kaffitíma úti einn dag í vikunni. Á miðvikudaginn var íþróttadagur yngsta stigs sem var einstaklega vel heppnaður og svo sannarlega kominn til að vera einu sinni á hverju skólaári. Nemendur 10. bekkjar eru að safna sér fyrir útskriftarferð og eru að selja happadrættisvinninga. Hægt er að panta miða með því að senda póst á hofdaskoli@hofdaskoli.is eða hafa samband við einhvern af nemendunum en þau ætla einnig að ganga í hús á Skagaströnd, miðvikudaginn 8. mars kl. 18:00 og selja miða. Einn miði kostar 3000 krónur og hver miði umfram þann fyrsta 2000 krónur stk. Dæmi um vinninga eru gjafabréf hjá flugfélagi, bílaleigubílar í tvo daga, gistingar, gjafabréf í hinar ýmsu verslanir, glæsilegt málverk og fleira og fleira. Alls eru 50 vinningar og aðeins er dregið úr seldum miðum. Í næstu viku verðum við stöllur fjarverandi á mánu- og þriðjudag vegna skólastjóranámskeiðs í Hveragerði. Dagný Rósa er okkar staðgengill þá sem endra nær. Við vonum að þið njótið helgarinnar í vorblíðunni áður en kólnar aftur Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Íþróttadagur yngsta stigs

Íþróttadagur yngsta stigs Höfðaskóla var haldinn miðvikudaginn 1. mars. Nemendur fóru í ýmsa skemmtilega leiki í íþróttahúsinu og endaði dagurinn á pizzuveislu og bíó í skólanum. Ekki var annað að sjá en að nemendur hafi skemmt sér vel. Vel heppnaður dagur með hressum og kátum krökkum. Myndir hér.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl öll Vikan í Höfðaskóla var fjölbreytt og setti öskudagurinn mark sitt á skólastarfið. Á mánudaginn heimsótti 10. bekkur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og kynnti sér nám og aðstöðu á Sauðárkróki. Þau enduðu svo á leiksýningu í boði NFNV og höfðu gaman af. Hingað mættu svo hinar ýmsu furðuverur á miðvikudaginn og var kennslu slitið klukkan 12:00 og héldu nemendur þá af stað í söng leiðangur um samfélagið. Foreldrafélög leik- og grunnskólans stóðu svo fyrir öskudagsskemmtun í íþróttahúsinu og er ekki annað að heyra á nemendum en að þau hafi skemmt sér mjög vel. Í gær, fimmtudag, lagði 10. bekkur aftur land undir fót og heimsótti Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi en nemendur voru mjög ánægðir bæði með ferðina á Sauðárkrók og í Borgarnes. Á miðvikudaginn í næstu viku verður íþróttadagur yngsta stigs í Höfðaskóla haldinn frá kl. 16:00-18:00. Nemendur ætla að fara í hinar ýmsu þrautir í íþróttahúsinu og enda svo í skólanum í pizzuveislu, það verður eflaust mjög gaman. Við minnum svo á hafragrautinn okkar sem er í boði alla morgna sem og ávaxta stundina á miðvikudögum en þann dag þurfa nemendur ekki að koma með nesti. Að lokum vekjum við athygli á stöðu verkefnastjóra sérkennslu við Höfðaskóla sem auglýst var á dögunum, allar nánari upplýsingar má finna hér. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Laust er til umsóknar starf

Laust er til umsóknar starf sérkennara/verkefnastjóra sérkennslu. Um er að ræða 100% starf, þar af 50% verkefnastjórn. Laun samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga og KÍ.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Þessi vika var stutt hjá okkur, tveir kennsludagar þar sem vikan hófst á vetrarfríi. Unnið var að ýmsum verkefnum og í dag kom skólahópur leikskólans í heimsókn til okkar. Í næstu viku er margt um að vera enda bollu-, sprengi- og öskudagur framundan. Á mánudaginn, bolludag, mega nemendur koma með bollur eða sparinesti. Þann dag ætla nemendur 10. bekkjar einnig að heimsækja FNV og kynnast starfseminni þar. Á miðvikudaginn, öskudag, mega nemendur koma í búningum í skólann. Við skulum muna að hafa virðingu að leiðarljósi við val á búningum. Kennsla fellur niður eftir hádegi og gefst nemendum færi á að fara og syngja og safna góðgæti. Öllum nemendum yngsta stigs stendur til boða að fara og syngja með frístund. Öskudagsskemmtun verður svo í íþróttahúsinu frá kl. 16:00-17:30. Á fimmtudaginn er svo stefnan að nemendur 10. bekkjar haldi í heimsókn í Borgarnes og kynni sér starfsemi Menntaskólans þar. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Heimsókn frá viðbragðsaðilum á svæðinu í tengslum við 1-1-2 daginn

Í dag fengum við góða heimsókn frá viðbragðsaðilum á svæðinu þegar lögreglan, slökkiliðið og björgunarsveitin komu og sýndu nemendum tækin sín. Heimsóknin var í tengslum við 1-1-2 daginn. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.
Lesa meira

Föstudagskveðja fyrir vetrarfrí

Heil og sæl Í vikunni sem nú er að líða var margt um að vera í Höfðaskóla. Nemendur unnu að fjölbreyttum verkefnum og margt skemmtilegt var um að vera í frístund. Í dag fengu nemendur á unglingastigi skemmtilega heimsókn. Fulltrúar frá samvinnuverkefni FNV, FabLab og Sýndarveruleika ehf komu og kynntu tækni fyrir nemendum en verkefnið hefur það að markmiði að gera tækni aðgengilegri fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn og þannig stuðla að því með beinum hætti að auka tækniþekkingu þeirra og varpa ljósi á möguleika í tækni- og iðnnámi. Fyrirhuguð er danskennsla á vordögum en við munum auglýsa hana nánar þegar tímasetningar liggja fyrir. Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, 13., 14. og 15. febrúar er vetrarfrí hjá okkur og við vonum að þið njótið þess vel. Góðar kveðjur Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira