05.02.2025
SKÓLAHALD FELLUR NIÐUR Á MORGUN, FIMMTUDAG.
Samkvæmt ráðleggingu frá almannavörnum og lögreglu hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa skóla á morgun, fimmtudag.
Lesa meira
05.02.2025
Glatt var á hjalla hjá nemendum á yngsta stigi í dag þegar fagnað var þorranum með þorrablóti. Stemningin var einstaklega góð og það var augljóst að nemendur voru spenntir að kynnast gömlum íslenskum matarhefðum og bragða á þorramatnum.
Margir nemendur sýndu mikla hugrekki þegar kom að því að smakka á framandi mat sem þau höfðu sum hver aldrei séð áður. Sérstaka athygli vakti hákarl sem margir nemendur voru forvitnir að prófa, þó sumir hafi tekið sér góðan tíma í að safna kjarki. Það var mjög gaman að sjá hvað krakkarnir voru dugleg að prófa eitthvað nýtt.
Harðfiskurinn stal þó ótvírætt senunni og reyndist vera vinsælasti rétturinn á hlaðborðinu. Nemendur röðuðu sér margoft í biðröð til að fá sér meira af honum. Einnig vakti mikla lukku flatbrauð með hangikjöti, sem margir nemendur sögðu að væri "alveg rosalega gott."
Meðan á blótinu stóð fengu nemendur fræðslu um þorrann og gamlar íslenskar matarhefðir. Krakkarnir hafa verið að læra um uppruna þorrans og af hverju Íslendingar borðuðu þennan mat og því gott að enda á einu góðu þorrablóti.
Lesa meira
03.02.2025
Í dag fór Berglind Hlín yfir niðurstöður úr lestrarsprett janúarmánaðar.
Yngsta stig stóð uppi sem sigurvegari en þau lásu samtals 7072 mínútur - vel gert!
Mið- og unglingastig stóðu sig einnig með prýði.
Til hamingju öll - lestur er bestur.
Lesa meira
31.01.2025
Kæru foreldrar og forráðamenn.
Gleðilegan föstudag!
Skemmtileg og viðburðarík vika sem er að líða.
Við fengum þann heiður að fá rithöfundinn Þorgrím Þráinsson í heimsókn til nemenda í 5.-7. bekk. Heimsóknin var einstaklega vel heppnuð og nemendur sýndu mikinn áhuga og tóku virkan þátt í umræðum. Það var ánægjulegt að sjá hversu vel þau nýttu tækifærið til að spyrja Þorgrím spurninga um rithöfundarstarfið og bækur hans. Eftir heimsóknina setti Sandra bókavörður upp horn á bókasafninu tileinkað bókunum hans Þorgríms.
Við höfum nú lokið lestrarprófi allra nemenda skólans og erum mjög ánægð með árangurinn. Seinni hópur valgreina á unglingastigi hóf störf í vikunni og gaman er að sjá hversu áhugasamir nemendur eru í þessum fjölbreyttu námsgreinum.
Vegna síbreytilegra veðurskilyrða viljum við minna á mikilvægi þess að nemendur séu vel búnir fyrir útiveru. Við mælum sérstaklega með því að hafa auka sokkapar í töskunni, þar sem blaut föt geta haft áhrif á líðan barnanna yfir skóladaginn.
Það er ánægjulegt að sjá hversu vel nemendur hafa tekið morgunmatnum, en hafragrauturinn og ávextirnir hafa notið mikilla vinsælda.
Fyrir nemendur 10. bekkjar er spennandi vika framundan. Þau fá heimsókn frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þann 4. febrúar og daginn eftir, þann 5. febrúar, eru þau boðin í heimsókn í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þetta eru mikilvægir viðburðir fyrir framtíðarákvarðanir nemenda og hlökkum við til að fylgjast með þeim í þessum spennandi heimsóknum.
Við viljum þakka ykkur fyrir gott samstarf og hvetjum ykkur til að hafa samband ef spurningar vakna.
Með bestu kveðju og ósk um góða helgi
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
28.01.2025
Tveir hópar af yngsta stigi fóru í dag í listamiðstöðina og hittu þar listakonurnar Helle (frá DK) og Mariu (frá Puerto rico). Þær kenndu nemendum að búa til sólarprent/cyanotype. Allir stóðu sig vel og höfðu mjög gaman af.
Lesa meira
23.01.2025
Í morgun fóru nemendur í 5. og 6. bekk í heimsókn í BioPol, rannsóknarstofu sem sérhæfir sig í örverufræði og líftækni. Þar tók Judith, einn af vísindamönnum rannsóknarstofunnar, á móti þeim og kynnti þeim fyrir heillandi heimi baktería og rannsókna.
Judith útskýrði hvernig bakteríur gegna margvíslegum hlutverkum, bæði í náttúrunni og mannslíkamanum, og sýndi nemendum fjölbreytt tæki og tól sem notuð eru á rannsóknarstofunni. Nemendur fengu einnig að sjá hvernig sýni eru tekin og rannsökuð, sem vakti mikla forvitni og áhuga hjá þeim. Þau fengu m.a. að sjá frystiskáp þar sem kuldinn er -70°
Heimsóknin var bæði upplýsandi og hvetjandi fyrir unga vísindamenn framtíðarinnar, og nemendur stóðu sig frábærlega með góðum spurningum og áhuga.
Heimsóknin er hluti af náttúrufræðikennslu, en í náttúrufræði hafa krakkarnir verið að læra um bakteríur og veirur.
Við viljum þakka Judith og öllu starfsfólki BioPol innilega fyrir dýrmæta fræðslu og hlýjar móttökur.
Lesa meira
23.01.2025
Áfram líður janúar á ógnarhraða og febrúar rétt handan við hornið. Vikan í Höfðaskóla gekk vel, veðrið hefur verið gott og nemendur hafa brallað ýmislegt bæði innandyra og utan.
Á morgun, föstudag, er starfsdagur en þá ætlar starfsfólk skólans á skyndihjálparnámskeið. Skyndihjálparnámskeið eru mikilvæg þar sem þau veita fólki nauðsynlega færni til að bregðast rétt við í neyðartilvikum. Slík þekking eykur sjálfstraust við að takast á við óvæntar aðstæður og getur dregið úr alvarlegum afleiðingum slysa eða veikinda. Auk þess stuðlar skyndihjálparþjálfun að öruggara samfélagi þar sem fleiri eru færir um að veita aðstoð á fyrstu, oftast mikilvægustu, mínútunum.
Í næstu viku verður skólastarf svo með hefðbundnum hætti og eflaust margt skemmtilegt sem verður brallað.
Að lokum minnum við á að við erum hér fyrir ykkur. Samstarf heimila og skóla er ein af grunnstoðum farsæls náms grunnskólabarna. Þegar foreldrar og kennarar vinna saman í nánu og traustu sambandi styrkir það stoðir nemenda, bæði í námi og félagslegri færni. Með reglulegu samtali, miðlun upplýsinga og gagnkvæmum skilningi á hlutverki hvors aðila er hægt að skapa umhverfi þar sem barnið upplifir öryggi, hvatningu og stuðning. Slíkt samstarf stuðlar að því að efla ábyrgð, sjálfstraust og áhuga barnsins á námi, auk þess sem það gerir kleift að bregðast snemma við ef eitthvað bjátar á.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
17.01.2025
Vikan í Höfðaskóla gekk vel og allt í einu er janúar hálfnaður. Á miðvikudaginn var viðtalsdagur hjá okkur og þökkum við öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna. Það er gott þegar foreldrar/forráðamenn skrá sig í viðtöl og mæta því samstarf heimila og skóla skiptir miklu máli. Foreldrakönnun var send út í gær og biðjum við ykkur um að svara henni fyrir 30. janúar en könnunin er hluti af innra mati skólans.
Við fengum allskonar veður í vikunni, rigningu og snjó og enn og aftur minnum við á að gott er ef nemendur, þá sérstaklega á yngsta stigi, eru með auka sokka og buxur í skólatöskunni og komi alltaf klædd eftir veðri. Við förum út alla daga og það er vont að verða blautur og kaldur.
Í næstu viku verður starfsdagur á föstudeginum en þá ætlar starfsfólk skólans á skyndihjálparnámskeið. Slík námskeið eru mjög mikilvæg og pössum við uppá að fara alltaf reglulega á upprifjunarnámskeið. Einar Óli kemur til okkar og heldur námskeiðið.
Ef einhver náðu ekki að bóka viðtöl en vilja fá slík er ekkert mál að hafa samband við umsjónarkennara og þeir finna tíma með ykkur. Eins ef einhver telur sig ekki hafa náð að fara yfir allt í viðtalinu í vikunni má að sjálfsögðu óska eftir öðru viðtali.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
10.01.2025
Gleðilegt nýtt ár :)
Nú er allt komið á fullt aftur eftir gott jólafrí og fyrsta skólavika ársins að klárast. Nemendur virðast almennt ánægðir með að vera komnir aftur í rútínuna sína og gott að allt sé farið að rúlla aftur eftir gott frí.
Í vikunni unnu nemendur ýmis verkefni og nemendur 7. bekkjar fóru í skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði með Gísla kennara. Það var ekki annað að heyra á hópnum þegar þau komu heim seinnipartinn í gær en að þau hafi skemmt sér vel, eignast fullt af nýjum vinum og styrkt tengslin við gamla vini. Á Reykjum brölluðu krakkarnir margt skemmtilegt, en stelpurnar dressuðu, máluðu og greiddu til dæmis strákunum fyrir tískusýningu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, glæsilegir báðir tveir þeir Arnar Gísli og Sigurjón Ýmir.
Miðvikudaginn 15. janúar n.k. er viðtalsdagur hjá okkur og því ekki hefðbundin kennsla né frístund þann dag. Umsjónarkennarar munu senda foreldrum upplýsingar um fyrirkomulag viðtala ásamt upplýsingum um hvar eigi að skrá sig, en fyrirkomulagið getur verið aðeins mismunandi milli kennara.
Veðurspáin fyrir næstu viku er frekar blaut og því minnum við á að það er mjög gott ef nemendur eru með auka sokka í töskunni og jafnvel að þessi yngstu séu einnig með auka buxur. Mikilvægast er svo að koma klædd eftir veðri og muna eftir endurskinsmerkjunum.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Við hlökkum til samstarfsins á komandi ári
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
06.01.2025
Nemendur 8. bekkjar heimsóttu yngri nemendur í 1. og 2. bekk í dag og áttu skemmtilega stund saman. Nemendurnir spiluðu allskonar spil og nutu samverunnar.
Bæði yngri og eldri nemendur fengu tækifæri til að kynnast betur og efla samhug.
Lesa meira