Fréttir

Leiksýning

Í gær buðu nemendur í einum af list- og verkgreinahópunum í 4.-7. bekk nokkrum á leiksýningu, en þau voru búin að setja saman jólaleikþátt. Virkilega skemmtilegt og vel útfært hjá þeim.
Lesa meira

Jólamatur

Í gær fengu nemendur dýrindis jólamat í hádeginu og borðuðu allt upp til agna. Það þarf þó enginn að örvænta, boðið verður upp á jólamat aftur á föstudag og þá er hægt að fá sér aftur. Myndir hér.
Lesa meira

Jólasöngur á sal 13. desember 2023

Í dag komu Hugrún og Elvar aftur í heimsókn til okkar og við sungum nokkur jólalög saman. Skemmtileg jólastund. Fleiri myndir komnar í jólasöngsalbúmið okkar hér.
Lesa meira

Farsæld barna í Höfðaskóla

Kæru foreldrar grunnskólanemenda á Skagaströnd Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innihalda. Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi. Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans má sjá hver hefur hlutverk sem tengiliður í Höfðaskóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá Félags- og skólaþjónustu A-Hún eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni um samþættingu þjónustu beint til tengiliðar.
Lesa meira

Menntabúðir og opið hús

Mánudaginn 11. desember voru menntabúðir og opið hús hjá okkur í Höfðaskóla. Nemendur kynntu bæði verkefni og ýmsar aðferðir sem þau nota í verkefnavinnu fyrir gestum og gangandi. Að venju var viðburðurinn vel sóttur og þökkum við öllum sem komu kærlega fyrir komuna. Það gleður okkur alltaf mikið þegar fólk gefur sér tíma í dagsins önn til að stoppa við hjá okkur og sjá afrakstur mikillar vinnu hjá nemendum. Fleiri myndir hér.
Lesa meira

Föstudagskveðja í desember

Áfram líða dagarnir í desember og við færumst nær jólum. Í þessari viku unnu nemendur ýmis verkefni, undirbjuggu menntabúðirnar og opna húsið sem verður n.k. mánudag og margt fleira. Við fengum heimsókn frá Hugrúnu og Elvar í tónlistarskólanum sem aðstoðuðu okkur með jólasöngstund sem var mjög skemmtileg, þau ætla að koma aftur til okkar í næstu viku. Í gær spiluðu nokkrir nemendur skólans á jólatónleikum tónlistarskólans og stóðu sig með stakri prýði. Við erum mjög stolt af tónlistarskólanum okkar og því frábæra starfi sem þar er unnið og hvetjum ykkur til að fylgjast með fréttum úr þeirra starfi á heimasíðunni þeirra. Litlu jól nemenda verða 19. desember og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulagið sem við höfum verið með undanfarin ár hvað varðar pakkaskiptin. Í ár hafa nemendur kosið að styrkja Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar líkt og í fyrra og koma nemendur ekki með pakka heldur óskum við eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk ef heimilin hafa tök á. Starfsfólk skólans mun einnig styrkja sjóðinn í stað þess að skiptast á gjöfum. Í dag fer elsta systkini á hverju heimili heim með umslag og þar má setja aurinn í og loka fyrir áður en því er skilað aftur í skólann. Styrknum verður svo skilað til sjóðsins á litlu jólunum. Mánudaginn 11 .desember n.k. verður opið hús og menntabúðir hjá okkur frá kl. 16:00-18:00 í Höfðaskóla og hvetjum við öll sem vilja til að koma við hjá okkur, sjá hvað nemendur eru að fást við og skoða skólahúsnæðið. Þann dag ætlum við einnig að vera með jólapeysudag og hvetjum alla sem vilja til að mæta í jólapeysum. Þriðjudaginn 12. desember n.k. heldur nemendafélagið jólaskemmtun í íþróttahúsinu fyrir 1.-4. bekk frá kl. 16:30-18:00. Þar verður án efa líf og fjör. Miðvikudaginn 13. desember n.k. stendur foreldrafélagið okkar svo fyrir viðburð í skólanum frá kl. 17:00-19:00 þar sem nemendur geta komið með sín eigin piparkökuhús og skreytt þau. Nemendur þurfa að mæta í fylgd með fullorðnum. Fimmtudaginn 14. desember n.k. verður svo jólaball hjá leikskólanum þar sem eldri systkini mega mæta með og verða eflaust margir nemendur frá okkur á þeirri skemmtun. Það er því ansi margt framundan og alveg eðlilegt að ekki sé hægt að taka þátt í öllu. Það er ekki síður mikilvægt að staldra aðeins við og njóta augnabliksins með fólkinu sínu. Við minnum á mikilvægi þess að nemendur borði og sofi vel þegar annirnar eru svona miklar. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Piparkökugleði

Nemendur í áhugasviðsvalgreininni skreyttu piparkökur í dag og höfðu gaman af. Það er alltaf gaman að brjóta upp hefðbundna kennslu af og til. Fleiri myndir hér.
Lesa meira

Jólasöngur

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn þegar Hugrún Sif og Elvar Logi tónlistarkennarar komu til okkar og leiddu jólasöngstund. Það er alltaf gaman að brjóta aðeins upp skóladaginn og heppnaðist stundin vel. Við erum mjög þakklát fyrir gott samstarf við tónlistarskólann okkar. Fleiri myndir hér.
Lesa meira

Jólasöfnun nemenda og starfsfólks Höfðaskóla

Litlu jól nemenda verða 19. desember nk. og ætlum við að halda okkur við fyrirkomulag undanfarinna ára þ.e. engin pakkaskipti á litlu jólunum, bæði hjá nemendum og starfsfólki skólans. Óskað er eftir því að hvert heimili leggi 1000 krónur í púkk, ef heimilin hafa tök á. Síðastliðin tvö ár hafa nemendur kosið að styrkja Velunnarasjóð Skagastrandar og Skagabyggðar en hann er til að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu sem minna mega sín. Nú á næstu dögum munu stjórnendur skólans fara í umsjónarstofur nemenda og biðja um hugmyndir að sjóðum og/eða málefnum til að styrkja. Ef þú, kæri lesandi, lumar á góðu málefni til að styrkja þá endilega hafðu samband.
Lesa meira

Nemendur 1.bekkjar skreyta dagatöl

Í dag hafa nemendur í 1.bekk dundað sér við að skreyta dagatöl fyrir komandi ár. Myndirnar eru allar ýmist teiknaðar eða klipptar úr mjólkurfernum sem búið er að halda til haga síðan jólamjólkin fór að koma í búðir sl. okt. Myndir hér
Lesa meira