07.04.2025
Nemendur á unglingastigi í bakstursvali bjuggu til girnilegar rice krispies körfur í dag í tilefni af páskunum.
Körfurnar voru fjölbreyttar að útliti og innihalda sumar rjóma og aðrar ekki. Skreyttar með litlum páskaeggjum. Nemendurnir unnu af mikilli vandvirkni og skapaðist skemmtileg stemning meðal þeirra.
Svona verkefni sýna hversu fjölbreytt og skemmtilegt heimilisfræðinám getur verið.
Lesa meira
04.04.2025
Þá er aldeilis viðburðarík vika að líða undir lok í Höfðaskóla. Nemendur í 8. og 9. bekk drógu úr happdrættinu sínu sem var vel heppnað.
Í gær var árshátíðin okkar og heppnaðist hún með eindæmum vel. Nemendur léku á alls oddi og voru alveg frábær á sviðinu öll sem eitt, hvort sem um ræðir þau sem tóku þátt í leikþáttum, söng, dansi, sviðsmenn, ljósamenn, tæknimenn og hvað eina :) Við erum mjög stolt af þeim og þeim ótrúlegu framförum sem mörg hafa tekið. Þetta er ekki auðvelt fyrir mörg að stíga á svið og því er óhætt að segja að hver stórsigurinn af öðrum hafi unnist í gær. Þá er vert að þakka öllum þeim sem lögðu til góðgæti á kökuhlaðborðið og gestunum sem mættu. Þetta var samvinnuverkefni sem heppnaðist eins og best verður á kosið.
Í næstu viku, sem er síðasta vikan fyrir páskafrí verður eitt og annað upp á teningnum. Nemendur munu vinna ýmis verkefni sem sett voru í bið á meðan á árshátíðarundirbúning stóð og við endum svo vikuna á páskabingó með öllum nemendum skólans í boði nemendafélagsins.
Nú fer hver að verða síðastur að panta ljósmyndir sem teknar voru fyrir stuttu en allar upplýsingar um hvernig þið snúið ykkur í þeim efnum bárust ykkur í tölvupósti. Frá og með mánudeginum n.k. verður ekki hægt að panta myndir.
Við vonum að þið njótið helgarinnar og kærar þakkir aftur fyrir komuna í gær
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
04.04.2025
Í gær var dregið í happdrætti 8. og 9. bekkjar Höfðaskóla.
Við þökkum öllum þeim sem keyptu af okkur miða og gáfu okkur vinninga fyrir happdrættið.
Kærar kveðjur frá 8. og 9. bekk.
Lesa meira
31.03.2025
Árshátíð Höfðaskóla fer fram fimmtudaignn 3. apríl n.k.
Leiksýningar hefjast kl. 17:00. Eftir leiksýningar verður kökuhlaðborð og svo endum við daginn á diskóteki. Nemendur í 1.-4. bekk mega vera til kl. 19:00 og nemendur í 5.-10. bekk til kl. 20:00.
Hlökkum til að sjá ykkur :)
Lesa meira
28.03.2025
Það var nóg um að vera hjá okkur!
Nemendur í 8.–10. bekk tóku þátt í valgreinadögum og prófuðu ýmislegt spennandi – alltaf gaman að sjá áhuga á nýjum hlutum kvikna.
Við héldum upp á alþjóðlega vöffludaginn með stæl, en foreldrafélag Höfðaskóla færði okkur vöffludeig frá VILKO og fengu því allir – bæði nemendur og kennarar, grunnskólans sem og tónlistarskólans – dásamlegar vöfflur í tilefni dagsins.
Íþróttadagur yngsta stigs var haldinn í vikunni og áttu nemendur 1.-4.bekkjar skemmtilega stund í íþróttahúsinu og á skólalóðinni í allskonar leikjum og skemmtun með íþróttakennaranum og starfsfólki frístundar.
Við erum óendanlega stolt af Sólveigu Erlu, fyrrverandi nemanda okkar, sem ásamt liðsfélögum sínum lenti í 2. sæti í Gettu betur í gærkvöldi. Glæsilegur árangur og frábært að sjá gamlan nemanda standa sig svona vel á landsvísu!
Næsta vika fer að miklu leyti í undirbúning fyrir árshátíðina sem verður haldin fimmtudaginn 3. apríl.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
28.03.2025
Í gær, miðvikudaginn 27. mars, komu nemendur í 8.–10. bekk frá Grunnskóla Húnaþings vestra og Húnaskóla í heimsókn í Höfðaskóla á Skagaströnd þar sem haldinn var valgreinadagur.
Slíkur viðburður er haldinn tvisvar sinnum yfir skólaárið og skiptast Húnaskóli, Grunnskóli Húnaþings vestra og Höfðaskóli á að halda daginn. Í þetta sinn var það Höfðaskóli sem tók á móti gestum og bauð upp á fjölbreyttar valgreinar fyrir nemendur.
Valgreinadagurinn gekk mjög vel – bæði var dagskráin vel skipulögð og andrúmsloftið jákvætt. Nemendur virtust almennt ánægðir með daginn og gaman var að sjá þau kynnast nýju fólki, prófa eitthvað nýtt og njóta samverunnar.
Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum.
Lesa meira
27.03.2025
Sólveig Erla Baldvinsdóttir fyrrum nemandi Höfðaskóla, hefur náð glæsilegum árangri í spurningakeppninni Gettu Betur. Hún keppir, ásamt liðsfélögum, fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri og hafa þau tryggt sér sæti í úrslitum keppninnar árið 2025.
Lið MA hefur staðið sig með mikilli prýði í gegnum keppnina og sýnt bæði þekkingu og einbeitingu á öllum stigum hennar. Sólveig Erla hefur verið áberandi í liði skólans og á stóran þátt í velgengninni.
Höfðaskóli er stoltur af sínum fyrrverandi nemanda og fylgist spenntur með framhaldinu. Úrslitaþátturinn fer fram í beinni útsendingu á RÚV í kvöld kl. 20:05 og hvetjum við alla til að fylgjast með og styðja við bakið á Sólveigu Erlu og liðsfélögum hennar.
Til hamingju Sólveig Erla – Höfðaskóli stendur með þér og þínu liði!
Lesa meira
25.03.2025
Í dag er alþjóðlegi vöffludagurinn. Foreldrafélag skólans færði okkur vöfflumix frá Vilko og steiktum við vöfflur fyrir nemendur og starfsfólk skólans og buðum starfsfólki tónlistarskólans yfir í kaffi.
Skemmtilegt uppbrot og ekki annað að sjá en öll væru himinsæl :)
Lesa meira
20.03.2025
Áfram líður tíminn og farið að síga á seinni hluta mars mánaðar. Vikan hjá okkur var ljúf og góð, veðrið var gott og nemendur mikið úti við. 5. bekkur fór í heimsókn á heimilisiðnaðarsafnið sem var mjög skemmtilegt, frétt og myndir frá því hér.
Nemendur í 8. og 9. bekk eru að selja happdrættismiða til styrktar komandi útskriftarferðar hjá þeim. Við hvetjum öll til að næla sér í miða, enda vinningarnir með glæsilegasta móti. Sjá hér.
Á mánudaginn fengum við Grænfánann afhentan í annað sinn sem var mjög skemmtilegt. Við erum ákaflega stolt af því að vera skóli á grænni grein.
Á morgun, föstudag, er starfsdagur og því hvorki skóli né frístund þann dag. Starfsfólk ætlar á námskeið með öðru starfsfólki sveitarfélagsins sem verður án efa gagnlegt.
Í næstu viku verður margt um að vera hjá okkur. Undirbúningur fyrir árshátíð fer á fullt en hún verður haldin 3. apríl, nánar auglýst síðar. Íþróttadagur yngsta stigs verður haldinn miðvikudaginn 26. mars frá 14-16 en þann dag eiga öll að mæta, hvort sem þau eru í frístund eða ekki þar sem um tvöfaldan dag er að ræða. Fimmtudaginn 27. mars fara svo nemendur 10. bekkjar í PISA könnun fyrir hádegi og eftir hádegi fáum við unglinga frá Hvammstanga og Húnabyggð í heimsókn á valgreinadag. Alltaf nóg um að vera hjá okkur :)
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
18.03.2025
Í dag fóru nemendur 5.bekkjar í heimsókn á Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.
Heimilisiðnaðarsafnið var upphaflega opnað árið 1976 á 100 ára afmæli Blönduósbæjar sem verslunarstaðar. Það voru konur innan raða Sambands austur-húnvetnskra kvenna, sem eru samtök kvenfélaganna í hérðinu, sem lögðu grunninn að safninu.
Það má segja að Heimilisiðnaðarsafnið geymi fyrst og fremst hina gleymdu iðju frá fortíð til nútíðar. Lögð er áhersla á að veita innsýn í vinnu kvenna og karla sem fram fór á heimilum og var stór þáttur hins daglega lífs.
Í safninu má greina hluta af atvinnusögu þjóðarinnar og sjá hvernig sjálfþurftarbúskabur og heimilisiðja mæta nútíma viðskiptabúskap á seinni hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu.
Við þökkum kærlega fyrir móttökurnar.
Lesa meira