Fréttir

Nemendur á miðstigi hanna fjárrétt í stærðfræði

Nemendur eru að vinna hörðum höndum að skapandi stærðfræðiverkefni sem er að ganga mjög vel hjá þeim. Verkefnið felst í því að hanna eigin fjárrétt, með öllum þeim hólfum og smáatriðum sem þeim finnst þurfa að vera, og tengja saman teikningu, mælingar og útreikninga. Í vinnunni þurfa þau að leggja áherslu á nákvæmni, nýta mismunandi form og mælitæki og reikna bæði flatarmál, ummál, rúmmál og horn og fleira. Til að gera áskorunina skemmtilegri fengu nemendur einnig tækifæri til að prófa sig áfram með snúninga og hlutföll, sem gerir verkefnið enn fjölbreyttara. Myndir hér
Lesa meira

Föstudagskveðja

Kæru foreldrar/forráðamenn, Fjölbreytt og viðburðarík vika er að baki hjá okkur í Höfðaskóla. Nemendur hafa nýtt góða veðrið og verið mikið úti við nám og leik, eins og sjá má í frétt okkar um útikennsluna á heimasíðu skólans. Við viljum minna á mikilvægi þess að nemendur séu klæddir eftir veðri, sérstaklega nú þegar haustið er gengið í garð. Útikennsla er fastur liður í skólastarfinu og því nauðsynlegt að börnin komi með viðeigandi fatnað, svo sem regnklæði, vettlinga og húfur eftir aðstæðum. Gaman er að segja frá því að hænuungarnir okkar dafna vel í góðu dekri nemenda og starfsfólks. Þeir hafa verið uppspretta mikillar gleði í skólastarfinu. Í næstu viku fara fram haustfundir með foreldrum og umsjónarkennurum. Við hvetjum alla foreldra eindregið til að mæta, enda eru fundirnir mikilvægur vettvangur til að ræða skólastarfið og kynnast betur því sem framundan er á skólaárinu. Nánari upplýsingar um tímasetningar fundanna hafa borist foreldrum í tölvupósti. Við óskum ykkur ánægjulegrar helgar Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Ævintýri í útikennslu

Útikennslu stundirnar fara vel af stað á öllum stigum. Yngsta stig hefur verið að fara út og spá í haustinu skoða laufin, grasið, leika á aparóló eða fara í fjöruna við Hrafná. Miðstig er að byrja á sínu verkefni en við höfum fengið leyfi til að útbúa okkur smá svæði upp við Höfðann sem við ætlum að þróa í sameiningu. Unglingastig eru einnig að útbúa svæði en þau hafa valið sér svæði við tjaldsvæði og höfum við fengið leyfi til að þróa það áfram. Unglingastig veltir nú fyrir sér hvar best sé að nálgast steypu til að steypa niður drumba. Í þessa drumba munu þau síðan fá kennslu við að vefa net þar sem þau ætla að útbúa leik og slökunar svæði. Á næstu dögum unglingastig fara af stað í að sækja um styrki svo við getum sem best þróað þetta verkefni áfram. Þau eru líkleg til að fá lánuð verkfæri og jafnvel gæti verið að þau munu heyra í einhverjum í bæjarfélaginu til að aðstoða okkur. Ef einhver býr yfir þekkingu eða lumar á drumbum, böndum eða einhverju sem gæti nýst í verkefnið má endilega heyra í okkur í skólanum.
Lesa meira

Hagnýt stærðfræði

Nemendurnir á unglingastigi bökuðu bananabrauð sem þau höfðu síðan með morgunmatnum. Verkefnið fól í sér heilmikla hagnýta stærðfræði þar sem nemendur þurftu að beita þekkingu sinni á hlutföllum og mælingum. Þau fengu uppskrift en þurftu að reikna sjálf út magn innihaldsefna út frá þeim fjölda banana sem var til reiðu. Þetta krafðist þess að þau umbreyttu uppskriftinni, reiknuðu hlutföll og öðluðust þannig dýpri skilning á því hvernig stærðfræði nýtist í daglegu lífi. Það var ánægjulegt að sjá hversu mikil samvinna og lausnamiðuð hugsun átti sér stað við þetta verkefni. Bananabrauðið vakti gríðarlega mikla lukku og hvarf á augabragði.
Lesa meira

Fjölgun í skólanum

Gleði ríkir í skólanum okkar þessa dagana því fjórir nýir meðlimir hafa bæst í hópinn. Um er að ræða krúttlega hænuunga sem vekja mikla athygli og lukku meðal nemenda og starfsfólks. Myndir hér
Lesa meira

Listaverk úr laufblöðum

Haustið setur skemmtilegan svip á skólastarfið þessa dagana. Fyrstu sex vikur skólaársins eru helgaðar þemanu "haust" þar sem allir bekkir taka virkan þátt í fjölbreyttum verkefnum tengdum haustinu. Nemendur á miðstigi söfnuðu laufblöðum af ýmsum trjátegundum, lærðu að þekkja þau og búa til listræn verk úr þeim. Verkefnið styður við náttúrufræðikennslu og eflir skilning nemenda á árstíðabreytingum. Myndir hér
Lesa meira

Föstudagskveðja

Kæru foreldrar, Við þökkum fyrir ánægjulega viku þar sem við höfum unnið í hinum ýmsu verkefnum utandyra. Það hefur verið gefandi að sjá nemendur okkar njóta sín í leik og starfi úti við, enda skólastarfið komið á fullt skrið meðfjölbreyttum verkefnum og spennandi áskorunum. Næsta vika verður sérstaklega spennandi því þá hefst svakaleg lestrarkeppni fyrir 1.-7. bekk undir stjórn Söndru bókavarðar. Við hvetjum alla til að taka virkan þátt í keppninni og styðja við lestur barna sinna heima fyrir. Ef spurningar vakna varðandi lestrarkeppnina eða önnur verkefni vikunnar, ekki hika við að hafa samband. Á þriðjudaginn er svo dagur íslenskrar náttúru og munum við nýta tækifærið til að fara í skemmtilegar vettvangsferðir og fræðast um náttúruna í nærumhverfi okkar. Vinsamlegast athugið að mikilvægt er að börnin komi klædd eftir veðri, því við munum eyða góðum tíma utandyra næstu daga. Einnig er vert að minna á að hafa sundföt meðferðis samkvæmt stundaskrá. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Gleði og sköpun í útikennslu á yngsta stigi

Nemendur á yngsta stigi tóku þátt í skemmtilegri útikennslu í dag. Börnin nutu þess að vera saman úti í náttúrunni þar sem þau lærðu í gegnum leik og sköpun. Kennslustundin hófst á stuttum göngutúr um nágrennið þar sem nemendur söfnuðu efnivið fyrir listasmiðjuna sína. Verkefni dagsins var að búa til skemmtileg andlit úr steinum og grasi sem þau fundu á leiðinni. Það var gaman að sjá hvernig hugmyndaflug þeirra blómstraði við að raða náttúrulegum efnivið í fjölbreytt og skemmtileg andlit.
Lesa meira

Fyrsta föstudagskveðja skólaársins 2025-2026

Heil og sæl Vikan hefur gengið vel og margt verið brallað. Nemendur og starfsfólk eru öll að komast í góða rútínu eftir sumarfrí og margt spennandi framundan. Mörg skemmtileg verkefni í öllum bekkjum skólans eru nú í vinnslu og við minnum á að foreldrar/forráðamenn eru alltaf velkomnir í heimsókn, ef þeir vilja koma við og sjá það sem nemendur eru að fást við hverju sinni. Í næstu viku ætlum við að reyna að vera sem mest utandyra og því þurfa nemendur að koma í skólann klædd eftir veðri. Við hvetjum ykkur til að skoða vel heimasíðuna en við erum dugleg að setja fréttir úr skólastarfinu þar inn. Nú ætla margir upp um fjöll og firnindi um helgina að elta sauðfé, við vonum að þeir sem í það fara hafi gaman af og fari gætilega. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Hjólaferð og berjamór

Þriðjudaginn síðastliðinn var mikið fjör hjá nemendum í 5.-7. bekk þegar þau hjóluðu langleiðina inn að Vinhæli. Krakkarnir voru einstaklega dugleg og skemmtu sér konunglega á leiðinni. Veðrið var aðeins að stríða með mótvind en stemningin var frábær allan tímann. Á leiðinni gerðu nemendur góða berjastoppistöð þar sem þau týndu bæði bláber og krækiber. Það er ánægjulegt að sjá hvernig nemendur okkar sýndu samstöðu og hjálpsemi í verki. Svona upplifun styrkir félagsleg tengsl þeirra og eflir samkennd innan nemendahópsins. Myndir hér
Lesa meira