Fréttir

Höfðafréttir - fyrsta blaðið komið út

Fyrsta blað Höfðafrétta var gefið út í dag en blaðið er eingöngu gefið út rafrænt að þessu sinni og má lesa það hér.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Enn ein vikan flogin hjá og 1. desember mættur. Í þessari viku voru nemendur á unglingastigi í list- og verkgreina lotu þar sem þau voru í heimilisfræði. Þau gerðu margt skemmtilegt eins og að fræðast um matarmenningu, næringarfræði, baka og hjálpa til við hádegismatinn upp í Fellsborg. Allt gekk þetta vel og var ekki annað að sjá og heyra en nemendur væru ánægðir. Úti er kalt og dimmt og við minnum enn og aftur á að mikilvægt er að nemendur séu vel klæddir og með endurskinsmerki. Framundan er ýmislegt skemmtilegt í desember en mikilvægt er að gleyma ekki heimalestrinum í öllu amstrinu. Lestrarstund er góð samverustund. Í skólanum er ýmislegt skemmtilegt framundan í desember og má þar nefna söng á sal, jólaföndur stöðvar, menntabúðir, jólapeysu dag og margt fleira. Í næstu viku eru jólatónleikar hjá nemendum í tónlistarskólanum en þeir verða haldnir í Hólaneskirkju fimmtudaginn 7. desember kl. 17:00 og við hvetjum að sjálfsögðu öll til að mæta þangað. Við vonum að þið njótið þessarar fyrstu helgi í aðventu Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Gjöf frá Kiwanis klúbbnum

Nemendur í 1. bekk fengu góða heimsókn frá fulltrúum Kiwanis klúbbsins og Lögreglunnar á Norðurlandi vestra þegar Kiwanis klúbburinn færði nemendunum endurskinsvesti í gjöf. Vestin koma sér vel núna í svartasta skammdeginu. Takk kærlega fyrir heimsóknina og þessa góðu gjöf.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan sem nú er að líða var heldur betur skemmtileg í Höfðaskóla. Á mánudaginn kom skólahópur leikskólans í heimsókn til okkar en fréttir og myndir frá því má sjá hér. Á mánudaginn var einnig nemendaþing haldið í skólanum þar sem stjórnendateymi skólans hitti nemendur á öllum stigum og rædd voru ýmis mál. Það var margt áhugavert sem kom fram um atriði sem nemendur vildu ýmist bæta eða voru ánægðir með. Allt eru þetta hlutir sem við tökum til skoðunar og bregðumst við ef þurfa þykir. Það skiptir okkur miklu máli að hlusta á raddir nemenda. Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag voru svo stigsskemmtanir sem heppnuðust mjög vel. Frétt og myndir frá því má sjá hér. Skólablaðið Höfðafréttir er í þann mund að verða tilbúið til birtingar og verður vonandi gefið út í næstu viku. Að þessu sinni verður blaðið rafrænt og við hlökkum til að sýna ykkur afrakstur vinnunnar hjá valgreinahópnum sem að blaðinu stendur. Tíminn æðir áfram og desember er handan við hornið. 1. desember er á föstudaginn í næstu viku en þann dag ætla allir bekkir að gera eitthvað í tengslum við þann merka dag, fullveldisdaginn. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Skemmtanir á öllum stigum

Í þessari viku var mikið um að vera hjá okkur þegar skemmtanir voru haldnar á öllum stigum. Á þriðjudaginn hittust nemendur í 1.-3. bekk ásamt fjölskyldumeðlimum og skreyttu piparkökur, gerðu jólakort, máluðu jólastjörnur og gæddu sér á veitingum sem foreldrar lögðu til. Notaleg á skemmtileg stund. Á miðviku- og fimmtudag voru svo skemmtanir hjá 4.-10. bekk þar sem þau stigu á stokk með ýmis atriði og leiki og enduðu svo í Pálínuboði með sínum fjölskyldum. Allt var þetta mjög vel heppnað og mæting góð. Við þökkum öllum sem komu og áttu skemmtilegar stundir með okkur kærlega fyrir komuna. Myndir má sjá hér.
Lesa meira

Skólahópur í myndmennt

Skólahópur leikskólans Barnabóls kemur í heimsókn til okkar einu sinni í viku. Í síðustu viku komu nemendur leikskólans á þeim tíma sem myndmennt er kennd og fengu að taka þátt, mikið fjör og mjög gaman.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel, veðrið var gott og margt um að vera. Á mánudaginn vann starfsfólk skólans frameftir þar sem þau sátu námskeið um kynferðisofbeldi og kynferðislega hegðun barna og unglinga. Mjög þarft námskeið fyrir öll. Á þriðjudaginn fóru nemendur í hestavali heim að Hólum með henni Höllu myndir og frétt frá því hér. Í gær fimmtudag var dagur íslenskrar tungu og þá setjum við af stað undirbúning fyrir framsagnarkeppnina okkar en nemendur í 5.-7. bekk taka þátt í henni. Þau vinna ýmis lestrartengd verkefni auk þess að æfa sig að lesa fyrir framan hóp. Við verðum svo með framsagnarkeppni eftir áramót. Í næstu viku verður nemenda þingið okkar haldið, allar nánari upplýsingar um það eru hér. Stigsskemmtanirnar okkar verða svo þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag en umsjónarkennarar munu auglýsa þær. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Laus störf hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd

Óskað er eftir aðstoðarmatráð og frístundaleiðbeinanda
Lesa meira

Heimsókn að Hólum í Hjaltadal

Krakkarnir í hestavali fóru í heimsókn að Hólum í Hjaltadal í gær. Ómetanlegt og skemmtilegt tækifæri sem krakkarnir fengu og þökkum við Hólaskóla kærlega fyrir höfðinglegar móttökur. Hér fyrir neðan má lesa ferðasögu hópsins. Við fengum frábæra kynningu frá Deildarstjóra hestafræðideildar henni Sigríði Bjarnadóttur sem kynnti fyrir okkur hestadeildina mjög vel. Hún sýndi okkur skólann þar sem bóklegu fögin eru kennd. Þar bauð hún upp á bakkelsi og drykki ásamt glærukynningu um starfsemi skólans tengt hestafræðum. Þá kom hún Elisabeth Jansen og hitti okkur einnig og fræddi okkur um deildina. Þær fóru síðan með okkur niður í reiðhöll sem heitir Þráarhöll, hún er þeirra stærsta höll (1545 m2), og skartar hún m.a. áhorfendastúku fyrir 70 manns. Þar hittum við hann Atla Guðmundsson. Atli er þaulreyndur knapi og reiðkennari sem hefur starfað við þjálfun og kennslu til fjölda ára um allan heim. Hann hélt fyrir okkur skemmtilega sýnikennslu á 6. vetra hesti sínum í Þráarhöll. Eftir það fórum við og fengum að skoða Brúnastaði sem er stærsta hesthús landsins. Í húsinu eru 189 eins hests stíur. Húsið er fyrst og fremst nýtt undir nemendahesta og hesta í eigu skólans, skólahestana. Í suðurenda Brúnastaða er 800 fermetra reiðhöll, Brúnastaðahöllin. Það var ótrúlega gaman að fá þessa flottu og metnaðarfullu kynningu frá þeim Sigríði, Elisabeth og Atla. 8. desember verður Aðventusýning í Þráarhöll sem allir eru velkomnir á, hvetjum ykkur til að mæta heim að Hólum og sjá þeirra flotta starf. Þessi sýning verður auglýst nánar á síðu skólans líka á facebook hjá þeim https://www.facebook.com/Holaskoli Myndir úr heimsókninni hér
Lesa meira

Rausnarleg bókagjöf foreldrafélags Höfðaskóla

Foreldrafélag Höfðaskóla styrkti skólabókasafnið um 100.000kr til bókakaupa. Í dag tóku nemendur á móti gjöfinni ásamt Söndru bókaverði. Við þökkum foreldrafélaginu kærlega fyrir rausnarlega gjöf sem mun nýtast nemendum skólans mjög vel.
Lesa meira