Fréttir

Föstudagskveðja

Heil og sæl Fjölbreytt og skemmtileg vika að baki. Vikuna fyrir páska hófst þemavika hjá nemendum unglingastigs. Ein stöð á hverjum degi í viku. Nemendur fóru í myndmennt, leðurvinnu, smíðar, heimilisfræði og þjóðfræði, þar sem þeir lærðu um stjörnumerkin sín og fóru í Spákonuhof. Vegna Covid áttu allir hópar eftir að fara á tvær stöðvar og var það klárað nú í vikunni. Þetta skipulag vakti mikla lukku meðal nemenda og skemmtilegt að sjá styrkleika hvers og eins koma fram á mismunandi stöðvum. Myndir er hægt að sjá hér. Þorgrímur Þráinsson heimsótti unglingastigið á miðvikudaginn og hélt fyrirlesturinn ,,Verum ástfangin af lífinu” og var hann mjög áhugaverður. Hann lagði mikla áherslu á að nemendur íhuguðu orð Jim Carey sem voru “Áhrifin sem þið hafið á aðra, er það dýrmætasta sem til er”. Þá hvatti hann nemendur til þess að taka lítil skref í átt að stórum sigrum, t.d. með að venja sig á góða siði, vera kurteis og hafa rútínu á lífinu. Nemendur á miðstigi eru að hefja fróðlega þemavinnu um norðurlöndin og yngsta stigið er að læra um eldgos og á það einmitt vel við nú á dögum. Næsta vika verður stutt, sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn og starfsdagur kennara er á föstudaginn. Við minnum á mikilvægi þess að nemendur séu klæddir í takt við síbreytilega veðráttu Við vonum að þið njótið helgarinnar. Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Námskeið í skyndihjálp

Nemendur 9. og 10.bekkjar sóttu í vikunni námskeið í skyndihjálp. Markmið námskeiðsins er kynna nemendur fyrir grunnatriðum skyndihjálpar þannig að þau öðlis lágmarksfærni í að veita slösuðum eða veikum aðstoð í bráðatilfellum. Námskeiðið var bæði bóklegt og verklegt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það var Karl Lúðvíksson sem sá um kennsluna og þökkum við honum kærlega fyrir komuna.
Lesa meira

Fjör á föstudegi

Það var heldur betur glatt á hjalla í morgun þegar skellt var í eitt gott BINGO á yngsta stigi. Nemendur skemmtu sér konunglega og þökkum við Kjörbúðinni fyrir vinningana.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Fyrstu dagar eftir páskafrí hafa gengið vel. Nemendur lögðu lokahönd á og tóku upp árshátíðaratriðin sín sem verða send foreldrum/forráðamönnum í dag. Nemendur í 9. og 10. bekk sem og starfsfólk skólans fór á skyndihjálparnámskeið hjá Karli Lúðvíkssyni sem gekk vel. Í næstu viku kemur Þorgrímur Þráinsson og heimsækir unglingastig með fyrirlesturinn sinn ,,Verum ástfangin af lífinu". Nánari upplýsingar munu berast foreldrum/forráðamönnum nemenda´a unglingastigi frá umsjónarkennurum. Það hefur verið heldur kalt hjá okkur undanfarna daga og við minnum á mikilvægi þess að passa uppá að nemendur séu alltaf með hlýjan og góðan útifatnað. Þemavika unglingastigs verður kláruð í næstu viku og við stefnum að því að klára samræmd próf fyrir þá sem þess óska af nemendum 9. bekkjar síðustu vikuna í apríl. Að lokum minnum við enn og aftur á hafragrautinn góða, sem er í boði alla virka daga frá 7:45. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Páskakveðja

Heil og sæl Páskafríið hófst aðeins fyrr en áætlað vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Við tökum því sem höndum ber og vonum að allir fari varlega. Ástandið er vissulega orðið þreytandi að marga mati en við þurfum að standa saman og klára þetta erfiða verkefni sem nú hefur staðið yfir í heilt ár. Dagana þrjá í þessari viku sem skóli var opinn var þemavika á unglingastigi sem gekk vonum framar. Nemendur virtust una sér vel og litu mörg spennandi og skemmtileg verkefni dagsins ljós. Við stefnum að þið að klára þá tvo daga sem eftir eru þegar við snúum til baka. Nemendum í 9. og 10. bekk stóð líka til boða að fylgjast með starfakynningu frá Landspítala og voru nokkrir sem þáðu það. Ný reglugerð um skólastarf í hertum aðgerðum mun berast í páskafríinu og við munum upplýsa ykkur um skólastarf eftir páska um leið og hún liggur fyrir. Við óskum ykkur gleðilegra páska og þökkum gott samstarf það sem af er skólaári. Páskakveðjur Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel, ungarnir halda áfram að stækka og dafna og gengur uppeldið á þeim vonum framar :) Nemendur hafa verið í danskennslu hjá Ingunni Hallgrímsdóttur þessa viku og hrósar hún krökkunum mikið fyrir framkomu og fas í tímunum. Dansinn hefur gengið vel og vonumst við til að festa danskennslu í sessi annað hvert ár. Framsagnarkeppnin okkar fór fram í gær hjá nemendum á miðstigi og stóðu krakkarnir sig frábærlega, frétt um keppnina ásamt myndum má sjá hér. Í næstu viku verður þemavika hjá unglingadeild þar sem þau verða í list- og verkgreinum frá 8:20-12:00 alla vikuna, umsjónarkennarar senda nánari upplýsingar um skipulagið heim í dag. Alþjóðlegi vöffludagurinn verður á fimmtudaginn í næstu viku og stefnum við að sjálfsögðu að því að halda hann hátíðlegan hér í Höfðaskóla, það verður nánar auglýst þegar nær dregur :) Næsta vika er síðasta vikan fyrir páskafrí. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Framsagnarkeppni Höfðaskóla

Í dag fimmtudaginn 18.mars var framsagnarkeppni Höfðaskóla haldin í Hólaneskirkju. Nemendur 5., 6. og 7. bekkjar tóku þátt og stóðu sig öll með prýði. Á myndinni má sjá þau Þórdísi Kötlu Atladóttur, Sigríði Kristínu Guðmundsdóttur og Loga Hrannar Jóhannsson sem hrepptu þrjú efstu sætin í 7. bekk en undir venjulegum kringumstæðum færu þau áfram í stóru upplestrarkeppnina og myndu keppa fyrir hönd skólans. Á meðfylgjandi myndum má sjá þá nemendur þóttu skara frammúr í lestri í 5. og 6.bekk.
Lesa meira

Danskennsla

Á mánudagsmorgun hófst danskennsla undir stjórn Ingunnar Hallgrímsdóttur frá Dalvík. Krakkarnir munu fá kennslu í klukkustund á dag út þessa viku og eru tímarnir stigskiptir. Allir skemmtu sér konunglega.
Lesa meira