Fréttir

Föstudagskveðja

Kæru foreldrar, Við þökkum fyrir ánægjulega viku þar sem við höfum unnið í hinum ýmsu verkefnum utandyra. Það hefur verið gefandi að sjá nemendur okkar njóta sín í leik og starfi úti við, enda skólastarfið komið á fullt skrið meðfjölbreyttum verkefnum og spennandi áskorunum. Næsta vika verður sérstaklega spennandi því þá hefst svakaleg lestrarkeppni fyrir 1.-7. bekk undir stjórn Söndru bókavarðar. Við hvetjum alla til að taka virkan þátt í keppninni og styðja við lestur barna sinna heima fyrir. Ef spurningar vakna varðandi lestrarkeppnina eða önnur verkefni vikunnar, ekki hika við að hafa samband. Á þriðjudaginn er svo dagur íslenskrar náttúru og munum við nýta tækifærið til að fara í skemmtilegar vettvangsferðir og fræðast um náttúruna í nærumhverfi okkar. Vinsamlegast athugið að mikilvægt er að börnin komi klædd eftir veðri, því við munum eyða góðum tíma utandyra næstu daga. Einnig er vert að minna á að hafa sundföt meðferðis samkvæmt stundaskrá. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Gleði og sköpun í útikennslu á yngsta stigi

Nemendur á yngsta stigi tóku þátt í skemmtilegri útikennslu í dag. Börnin nutu þess að vera saman úti í náttúrunni þar sem þau lærðu í gegnum leik og sköpun. Kennslustundin hófst á stuttum göngutúr um nágrennið þar sem nemendur söfnuðu efnivið fyrir listasmiðjuna sína. Verkefni dagsins var að búa til skemmtileg andlit úr steinum og grasi sem þau fundu á leiðinni. Það var gaman að sjá hvernig hugmyndaflug þeirra blómstraði við að raða náttúrulegum efnivið í fjölbreytt og skemmtileg andlit.
Lesa meira

Fyrsta föstudagskveðja skólaársins 2025-2026

Heil og sæl Vikan hefur gengið vel og margt verið brallað. Nemendur og starfsfólk eru öll að komast í góða rútínu eftir sumarfrí og margt spennandi framundan. Mörg skemmtileg verkefni í öllum bekkjum skólans eru nú í vinnslu og við minnum á að foreldrar/forráðamenn eru alltaf velkomnir í heimsókn, ef þeir vilja koma við og sjá það sem nemendur eru að fást við hverju sinni. Í næstu viku ætlum við að reyna að vera sem mest utandyra og því þurfa nemendur að koma í skólann klædd eftir veðri. Við hvetjum ykkur til að skoða vel heimasíðuna en við erum dugleg að setja fréttir úr skólastarfinu þar inn. Nú ætla margir upp um fjöll og firnindi um helgina að elta sauðfé, við vonum að þeir sem í það fara hafi gaman af og fari gætilega. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Hjólaferð og berjamór

Þriðjudaginn síðastliðinn var mikið fjör hjá nemendum í 5.-7. bekk þegar þau hjóluðu langleiðina inn að Vinhæli. Krakkarnir voru einstaklega dugleg og skemmtu sér konunglega á leiðinni. Veðrið var aðeins að stríða með mótvind en stemningin var frábær allan tímann. Á leiðinni gerðu nemendur góða berjastoppistöð þar sem þau týndu bæði bláber og krækiber. Það er ánægjulegt að sjá hvernig nemendur okkar sýndu samstöðu og hjálpsemi í verki. Svona upplifun styrkir félagsleg tengsl þeirra og eflir samkennd innan nemendahópsins. Myndir hér
Lesa meira

Skólasetning Höfðaskóla

Skólasetning Höfðaskóla fyrir skólaárið 2025–2026 fer fram mánudaginn 1.september 2025. Nemendur mæta beint í sínar heimastofur og við hvetjum foreldra/forráðamenn til að mæta með þeim. Tímasetningar á skólasetningu: 1.–4. bekkur – kl. 9:00–9:30 í Dvergasteini 5.–7. bekkur – kl. 9:30–10:00 í Villingaholti 8.–10. bekkur – kl. 10:00–10:30 í Skýjaborg Það eru 64 nemendur skráðir í Höfðaskóla og verða skóladagar alls 175. Frístund verður áfram starfrækt fyrir nemendur í 1.–4. bekk að lokinni kennslu. Hún stendur öllum nemendum þessara bekkja til boða. Umsjónarmenn verða Ellen Lind, Esme og Hrafnkell Heiðarr. Skráning hér Morgunhressing verður í boði fyrir alla nemendur alla morgna milli kl. 9:20 og 10:00. Boðið er uppá hafragraut og ávexti. Hádegismatur verður framreiddur kl. 12:00 í Fellsborg og er hann gjaldfrjáls fyrir alla nemendur. Mikilvægt er þó að skrá börnin í mat svo hægt sé að skipuleggja sem best. Matráður verður Daniela Esme með Kristínu Þórhallsdóttur sér til aðstoðar. Skráning hér Sundkennsla verður á mánudögum og þriðjudögum í ágúst - október og svo aftur frá mars - júní. Hlökkum til að sjá ykkur.
Lesa meira

Skólaslit - gleðilegt sumar

Við þökkum nemendum og forsjáraðilum fyrir góða samveru á þessu skólaári. Við útskrifuðum 10. bekk og skólaslit voru hjá 1.-9.bekk miðvikudaginn sl. og erum við full af þakklæti og stolti yfir þessum frábæru nemendum okkar. Við óskum við ykkur öllum góðs sumarfrís og minnum á muna að vera dugleg að spyrja eftir bekkjarfélögum, leika saman, taka alla með í hópinn og vera góð og kurteis við alla. Svo er gott að grípa í bók á rigningardögum (eins og alla daga) og halda áfram að æfa lesturinn. Kærar kveðjur til ykkar allra, starfsfólk Höfðaskóla
Lesa meira

Síðasta föstudagskveðja skólaársins

Þá er síðasta heila skólavikan að renna sitt skeið og óhætt að segja að veðrið hafi leikið við okkur þrátt fyrir smá rigningu í dag. Nemendur hafa verið að ljúka við ýmis námsmats verkefni samhliða annarri vinnu. Á heimasíðunni okkar finnið þið fullt af fréttum allar vikur þar sem við segjum frá því helsta sem við erum að gera og við hvetjum ykkur til að vera dugleg að fylgjast þar með. Í næstu viku er örlítil breyting á dagskrá og svo skólaslit á miðvikudag. Á mánudag er hefðbundin kennsla frá 8:20-12:00. Engin kennsla eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði. Á þriðjudag er hefðbundin kennsla og frágangur frá 8:20-10:00. Klukkan 10 ætlum við svo að skella okkur í siglingu á Húnabjörginni og brjóta aðeins upp daginn. Engin kennsla eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði. Á miðvikudag er flippíþróttadagur og önnur skemmtun frá 8:20-12:00. Við ljúkum skóladeginum á pylsugrilli hér í skólanum en svo er hvorki kennsla né frístund eftir hádegi. Skólaslitin okkar fara fram í Hólaneskirkju þennan dag kl. 14:00. Við vonum að þið njótið helgarinnar og við hlökkum til síðustu daganna með nemendum eftir helgi. Með góðum kveðjum Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Hjólahjálmar og grillaðar pylsur

Í dag komu fulltrúar Kiwanisklúbbsins Drangeyjar og lögreglunnar á Norðurlandi vestra í Höfðaskóla og færðu öllum nemendum 1. bekkjar reiðhjólahjálma og grilluðu fyrir þau pylsur. Nú er runninn upp tími reiðhjóla, hlaupahjóla, hjólabretta og línuskauta og mikilvægt að hjálmur sitji á hverju höfði. Það voru glaðir krakkar sem tóku á móti þessari góðu gjöf hér í dag
Lesa meira

Meeeeeeee-ga gaman í fjárhúsunum

Nemendur á yngsta stigi fengu heimboð í fjárhúsin hjá Jóni Heiðari og Kristínu Birnu. Þar fengu þau að klappa og halda á lömbum og sjá lamb fæðast. Skoða fjárhúsin og upplifa sveitalífið. Það var mikið gaman hjá öllum og ógleymanleg upplifun fyrir litlu gestina úr skólanum. Við þökkum Jóni og Kristínu kærlega fyrir.
Lesa meira