30.04.2025
Sæl öll
Föstudagskveðja á miðvikudegi. Stutt vika þar sem 1.maí er á morgun, fimmtudag, og skipulagsdagur föstudaginn 2.maí.
Veðrið hefur verið einstaklega gott þessa þrjá skóladaga og nemendur notið þess að vera utandyra.
Nemendur á yngsta stigi heimsóttu Fiskmarkaðinn en heimsóknin markar upphaf fiskaþema sem þau munu vinna með næstu vikur. Einnig hafa þau verið að læra mikið um vorið og það líf sem kviknar þá meðal annar um fugla og hreiðurgerð og í útikennslu fóru þau í göngutúr og bjuggu til eigin fuglahreiður.
Nemendur í 8.-10.bekk fóru á Hvammstanga í gær, þriðjudag, og fengu að kynnast allskonar íþróttagreinum, allt frá hinum sívinsæla fótbolta í hestafimleika. Þreytt og glöð börn skiluðu sér heim í gærkvöldi ánægð með daginn.
Í næstu viku verður ekki sundkennsla þar sem það verður danskennsla sem nemendur skólans eru gríðarlega spennt fyrir. Danssýning verður á fimmtudaginn og verður auglýst betur í næstur viku.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðum kveðjum
Lesa meira
29.04.2025
Nemendur í útikennslu bjuggu til hreiður og lærðu um líf fugla.
Nemendur tóku þátt í lifandi og skemmtilegri útikennslu þar sem þau unnu saman í hópum við að búa til eigin fuglahreiður. Markmiðið með verkefninu var að fá betri innsýn í hvernig hreiður eru byggð, hvað fuglar þurfa til að smíða þau og hvaða náttúrulegi efniviður er notaður og fengu fræðslu um mismunandi gerðir hreiðra og hvernig þau uppfylla þarfir fugla fyrir öryggi, hita og hulu. Í kjölfarið héldu þau af stað þar sem þau skoðuðu umhverfið og söfnuðu efnivið eins og greinum, mosa, sinu og blómum. Hóparnir unnu svo saman að því að hanna og byggja sín eigin hreiður með hugmyndaflug og samvinnu að leiðarljósi. Verkefnið vakti mikla lukku og ýtti undir bæði sköpunargleði og skilning á náttúrulegu umhverfi fugla. Það er ljóst að útikennsla af þessu tagi styrkir tengsl nemenda við náttúruna og eykur áhuga þeirra á lífríkinu í kringum okkur.
Lesa meira
29.04.2025
Í dag fóru nemendur á yngsta stigi í heimsókn á Fiskmarkaðinn en heimsóknin markar upphaf fiskaþema sem verið er að fara vinna með hjá hópnum. Eftir heimsóknina þangað var stoppað á bátaróló áður en haldið var aftur í skólann.
Við þökkum starfsmönnum Fiskmarkaðarins kærlega fyrir að taka á móti krökkunum :)
Myndir hér
Lesa meira
25.04.2025
Gleðilegt sumar :)
Þessi vika var stutt, bara þrír skóladagar. Nemendur komu hress og kát úr páskafríi og fengu svo aftur frí í gær, sumardaginn fyrsta.
Í næstu viku er annar frí dagur þar sem 1. maí ber upp á fimmtudegi og svo er starfsdagur föstudaginn 2. maí.
Nemendur unglingastigs fara á Hvammstanga þriðjudaginn 29. apríl n.k. á íþróttadag, farið verður frá skólanum kl. 12:40 og áætluð heimkoma er um kl. 20:00.
Vikuna 5.-9. maí verður danskennsla hjá okkur, við auglýsum það betur þegar nær dregur.
Við vonum að veðrið í maí verði gott en sumardagurinn fyrsti lofaði góðu. Nemendur koma til með að vera úti oft og tíðum þegar veður leyfir og því er mikilvægt að bera sólarvörn á nemendur áður en þau mæta í skólann á morgnanna eða vera með sólarvörn í töskunni, þá sérstaklega nemendur á yngsta stigi.
Að lokum minnum við á að öll þau sem koma á hjóli í skólann eiga að vera með hjálm - það er skylda.
Við vonum að þið njótið þessarar fyrstu helgi sumars
Með góðum kveðjum
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
11.04.2025
Nemendur Höfðaskóla spiluðu páskabingó í dag og skapaðist skemmtileg stemning í tilefni páskanna. Fjölbreyttir og glæsilegir vinningar voru í boði, og nutu nemendur þess að taka þátt og eiga notalega stund saman. Ekki fengu öll vinning sem vildu en það er hægt að draga lærdóm af því :)
Nemendafélagið vill koma á framfæri innilegu þakklæti til eftirfarandi fyrirtækja og aðila fyrir rausnarlegan stuðning og vinninga:
Skíðadeild Tindastóls
Vilko
Hólanes
Viva
Hársnyrtistofa Þórdísar
Teni
N1
Skagfirðingabúð
Kaupfélag Vestur Húnvetninga
Kjörbúðin Skagaströnd
Gránu Bistro
Stuðningur sem þessi skiptir miklu máli fyrir félagslíf nemenda og er afar vel metinn.
Nemendafélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn og óskar öllum gleðilegra páska!
Skemmtileg stund - myndir hér.
Lesa meira
11.04.2025
Síðasta vikan fyrir páskafrí var lífleg og skemmtileg hjá okkur. Nemendur unnu ýmis verkefni og nutu veðurblíðunnar þess á milli. Í gær fengum við góða heimsókn þegar nemendur í 2.-.4. bekk sáu leikritið Krakkarnir í hverfinu en það er leikþáttur þar sem brúður eru notaðar til að fræða börnin um ofbeldi og mikilvægi þess að börn segi frá. Í dag stendur nemendafélagið svo fyrir páskabingói fyrir alla nemendur skólans sem verður spennandi :)
Við höldum svo í páskafrí eftir daginn í dag og mætum aftur í skólann þriðjudaginn 22. apríl. Vikan eftir páska verður óhefðbundin þar sem sumardagurinn fyrsti kemur á fimmtudeginum eftir páska og því bara skóli þriðjudag, miðvikudag og föstudag.
Síðustu vikurnar fyrir sumarfrí verður svo nóg um að vera, íþróttadagur unglinga mun fara fram á Hvammstanga, við ætlum að vera með umhverfisdag, íþróttadagur miðstigs fer fram í Húnabyggð og margt fleira - nánar um það síðar.
Við vonum að þið eigið góða páska og hlökkum til að hitta nemendur endurnærð eftir gott frí
Með páskakveðju
Sara Diljá, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
10.04.2025
Á miðvikudaginn fengu nemendur í tilraunavali skemmtilega heimsókn frá krökkunum í frístund. Nemendurnir höfðu undirbúið fjölbreyttar og spennandi tilraunir sem þeir sýndu gestunum sínum. Á meðal tilrauna má nefna hraðfrjósandi vatn, heimagerðan hraunlampa og oobleck-slím sem breytir hegðun sinni eftir því hvort það er hreyft eða ekki. Nemendurnir útskýrðu af mikilli fagmennsku hvað tilraunirnar sýndu og svöruðu spurningum yngri krakkanna með bros á vör. Krakkarnir í frístund voru mjög áhugasamir og höfðu greinilega gaman af heimsókninni. Þegar þau voru spurð hvað hefði verið skemmtilegast, áttu þau erfitt með að velja – allt var svo spennandi!
Myndir hér.
Lesa meira
08.04.2025
Í dag tóku nemendur þátt í skemmtilegu útinámi þar sem þeir æfðu kortalæsi, upplýsingalestur og leiðsögn. Verkefnið fór fram á tjaldsvæðinu og var unnið í fimm hópum.
Hver hópur faldi sinn fjársjóð og bjó til kort sem leiddi að honum. Síðan skiptu hóparnir á kortum og leituðu að fjársjóðum hvers annars. Nemendur þurftu að lesa kortin, fylgja leiðbeiningum og sýna sköpunargleði við gerð eigin korta.
Verkefnið efldi læsi, samvinnu og gagnrýna hugsun á lifandi og skemmtilegan hátt. Þetta er hluti af markvissu starfi við að samþætta nám og leik í daglegu skólastarfi.
Lesa meira
08.04.2025
Nemendur yngsta stigs Höfðaskóla hafa undanfarið verið að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem snúa að fuglum. Sérstök áhersla var lögð á lóuna, þar sem margir tengja við vorið og endurkomu bjartari tíma.
Hugmynd verkefnanna var meðal annars sótt í bókina Lói, þú flýgur aldrei einn, sem fjallar á fallegan hátt um vináttu, tilfinningar og samkennd í gegnum ævintýri fuglsins Lóa. Nemendur unnu út frá efni bókarinnar og létu sköpunargleðina flæða.
Nemendur gerðu litríka fuglal úr pappamassa, gerður var úr gömlum eggjabökkum. Verkefnið var því ekki aðeins skapandi heldur líka umhverfisvænt, enda Höfðaskóli stoltur skóli á grænni grein. Nýting á annars ónýtu efni í listsköpun er í fullkomnum takti við þær áherslur sem skólinn leggur á sjálfbærni og umhverfisvitund.
Verkefnin voru bæði fræðandi og skemmtileg og sýna vel hvernig hægt er að samþætta náttúrufræði, bókmenntir, listsköpun og umhverfismennt á lifandi og skapandi hátt.
Lesa meira
07.04.2025
Í morgun lögðu nemendur í 5. og 6. bekk Höfðaskóla sitt að mörkum til hreinna umhverfis með því að tína rusl í nágrenni skólans.
Það var af nógu að taka og voru krakkarnir dugleg við að tína upp það sem hafði safnast í kringum skólalóðina og nærliggjandi svæði.
Verkefnið var liður í umhverfismennt og góð áminning um mikilvægi þess að ganga vel um og sýna umhverfinu virðingu.
Nemendur stóðu sig frábærlega og sýndu bæði samvinnu og samfélagslega ábyrgð.
Lesa meira