Fréttir

Öskudagur 2022

Öskudagur 2022 Í ljósi þess hversu margir af yngstu kynslóðinni eru nú smitaðir af covid leggjum við í Höfðaskóla ásamt foreldrafélagi skólans til að öskudeginum verði frestað um eina viku svo að fleiri geti tekið þátt í gleðinni. Við vonumst til að samstaða sé um það í samfélaginu okkar og að fyrirtæki séu tilbúin til að taka á móti syngjandi börnum miðvikudaginn 9. mars 2022. Öskudagsskemmtun foreldrafélagsins verður einnig þann dag, nánar auglýst síðar. Sjáumst (vonandi :)) syngjandi kát, viku á eftir áætlun og leyfum með því fleirum að taka þátt í þessum skemmtilega degi.
Lesa meira

Skólahaldi aflýst

Sæl öll. Að höfðu samráði við sveitarstjóra hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa skóla í dag, mánudaginn 28.febrúar. Förum varlega og sýnum aðgát! Kær kveðja Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru vinir Vikan var stutt annan endann og vonum við að þið hafið getað notið vetrarfrísins. Skólastarf er nú farið að ganga sinn vanagang eftir töluverða fjarveru nemenda vegna Covid. Frá og með deginum í dag er öllum sóttvarnartakmörkunum aflétt en við hvetjum samt fólk áfram til að gæta að persónulegum sóttvörnum. Í vikunni kom tilkynning um að ekki verða haldin samræmd próf þetta skólaárið og hafin er vinna við hönnun Matsferils nýrrar verkfærakistu kennara og skóla. Matsferill mun innihalda fjölbreytt og hnitmiðuð verkfæri fyrir kennara sem fagmenn, ætluð til nota í umbótaskyni, nemendum til hagsbóta. Vetur konungur blæs töluvert á okkur og gott er þá að hafa í huga að nemendur séu klædd eftir veðri og veðurspá. Nú er febrúar senn á enda og hefur blásið vel nú í góubyrjun og samkvæmt heimildum skólans þykir það vísa á gott veðurfar á vormánuðum. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Föstudagskveðja frá skólastjórnendum

Heil og sæl Enn á ný er kominn föstudagur. Vikurnar líða áfram og brátt er febrúar hálfnaður. Vetur konungur minnti aðeins á sig í upphafi vikunnar en það er nú eitthvað sem við er að búast á þessum árstíma. Covid er byrjað að narta í hælana á okkur og smit hafa greinst innan skólans. Samkvæmt nýjum reglum þá þurfa einstaklingar sem eru útsettir utan heimilis hvorki að fara í sóttkví né smitgát. Við biðlum til foreldra að vera vel vakandi og fara með nemendur í sýnatöku ef einkenni gera vart við sig. Góðar og gagnlegar upplýsingar er hægt að nálgast á https://www.covid.is/ Foreldrakönnun skólapúlsins hefur verið send út og hvetjum við foreldra til að taka þátt. Skólinn þarf að ná 80% svarhlutfalli svo könnunin teljist marktæk. Ég minni á mikilvægi þess að láta vita ef nemendur eiga að vera í leyfi, hægt er að hringja að morgni, senda umsjónarkennara tölvupóst eða tilkynna hér í gegnum heimasíðuna. Við vonum að þið njótið helgarinnar Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Skólahaldi aflýst

Sæl öll Það hefur örugglega ekki farið framhjá neinum að það er afleit veðurspá næstu nótt og fram á mánudagsmorgun. Aðgerðarstjórn almannavarna hefur hvatt skólastjórnendur til að aflýsa skólahaldi mánudaginn 7.febrúar. Skólahaldi í Höfðaskóla er því aflýst á morgun. Þetta gengur vonandi hratt yfir.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan sem nú er á enda var með rólegra móti. Uppúr stendur þorrablót á yngsta stigi þar sem nemendur fengu að smakka hinar ýmsu kræsingar sem þóttu misgóðar en flest allir voru tilbúnir að prufa. Myndir hér Nemendur á miðstigi fóru í heimsókn á mánudaginn á Fiskmarkaðinn og fengu þar kennslu í að slægja fisk ásamt því að fá kynningu á margskonar fisktegundum. Myndir hér Unglingastigið velur á hverju hausti valgreinar til að nema. Þennan veturinn má nefna forritun og prjónaskap, skemmtilegt að segja frá því að drengirnir sóttu ekki síður í prjónið heldur en stúlkurnar. Myndir hér. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Stuttur og léttur vikupóstur. Hápunktur vikunnar var þátttaka okkar í Samróm. Nemendur, foreldrar, ættingjar og velunnarar skólans lásu, lásu og lásu. Með þessu samstyllta átaki lönduðum við 1. sætinu í C flokki og 3. sæti á landsvísu. Nemendur skólans fögnuðu vel þegar niðurstöður lágu fyrir. Taka má fram að við þökkum Öxafjarðarskóla fyrir skemmtilega keppni og óskum þeim til hamingju með sinn árangur. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira

Samstaðan er sigurvegarinn!

Höfðaskóli tók þátt í Samrómi sem er lestrarkeppni grunnskólanna. Allir nemendur og starfsfólk Höfðaskóla tóku þátt ásamt fjölmörgum velunnurum skólans. Samstaða og samheldni einkenndi keppnisanda allra þeirra sem tóku þátt. Höfðaskóli keppti í C flokki og átti í harðri samkeppni við Öxafjarðarskóla og fóru leikar okkur í hag. Í nafni skólans voru lesnar 153.288 setningar af 353 keppendum. Þess má geta að skólinn var einnig í þriðja sæti á landsvísu. Í verðlaun fær skólinn glæsilegan þrívíddarprentara og Rasberry pie tölvu sem hvorutveggja munu nýtast skólanum í námi og kennslu. Skólinn þakkar öllum þeim sem lögðu okkur lið, samstaðan leiddi okkur til sigurs.
Lesa meira

Margt smátt gerir eitt stórt!

Lestrarkeppnin, Samrómur, sem skólinn er að taka þátt í er á milli grunnskóla landsins og er haldin í þriðja sinn inni á https://samromur.is/takathatt þar sem keppt er um fjölda setninga sem lesnar eru inn í Samróm. Forseti Íslands setti keppnina formlega 20.janúar. Keppninni lýkur á miðnætti 26. janúar. Höfðaskóli tekur þátt í ár eins og í fyrra. Þessi keppni er hinsvegar ekki bara fyrir nemendur heldur geta allir, ungir sem aldnir, lagt hönd á plóg og skráð sig til leiks inn í Höfðaskólahópinn og lesið. Það er síðan framlag hópsins sem telur og eru vegleg verðlaun fyrir þann skóla sem les mest. Nemendur skólans lesa og lesa, standa sig gríðarlega vel og er skólinn, þegar þetta er skrifað, í öðru sæti í C flokki. Einnig hafa foreldrar og velunnarar skólans tekið mjög virkan þátt.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Flest allir úthvíldir eftir óvænta langa helgi. Í vikunni var starfsdagur á mánudag og því enginn skóli hjá nemendum, hefðbundinn skóladagur var á þriðjudag en á miðvikudag voru nemendaviðtöl, ný önn hófst síðan á fimmtudaginn 20.janúar. Lestrarkeppni á milli grunnskóla landsins verður haldin í þriðja sinn inni á samromur.is þar sem keppt verður um fjölda setninga sem nemendur lesa inn í Samróm. Forseti Íslands setti keppnina formlega af stað í gær fimmtudaginn 20.janúar. Keppninni lýkur 26. janúar. Höfðaskóli ætlar í ár að taka þátt í ár eins og í fyrra og biðjum við foreldra um að aðstoða börnin sín við að fara inn á síðuna, samromur.is og skrá sig til leiks í Höfðaskóla. Þessi keppni er hinsvegar ekki bara fyrir nemendur heldur geta allir í bæjarfélaginu lagt hönd á plóg og skráð sig inn í Höfðaskólahópinn og lesið. Það er síðan framlag hópsins sem telur. Vegleg verðlaun eru fyrir þann skóla sem les mest. Við minnum að lokum á að hafragrauturinn er á sínum stað alla þá morgna sem hefbundið skólastarf er, frá klukkan 7:45 og ánægjulegt er hversu margir nýta sér það. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa og Dagný Rósa
Lesa meira