Fréttir

Fyrirlestur fyrir foreldra í Höfðaskóla 23.janúar 20:00

Leikreglur karlmennskunnar Áhersla verður á að útskýra karlmennsku út frá kynjafræðilegu sjónarhorni, muninn á skaðlegri og jákvæðri karlmennsku og hvernig hægt sé að stuðla að og temja sér jákvæða karlmennsku öllum kynjum til aukinna lífsgæða, tækifæra og jafnréttis. Fyrirlesari er Þorsteinn V. Einarsson. Hann er menntaður kennari með meistaragráðu í kynjafræði frá Háskóla Íslands. Hefur undanfarin 5 ár starfað við fræðslu og ráðgjöf í jafnréttismálum á vinnustöðum, skólum og félagsmiðstöðvum. Einnnig heldur hann utan um fræðslusamfélagsmiðilinn og hlaðvarpið Karlmennskan.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl kæru skólavinir Í vikunni komu Sara Diljá og Fjóla Dögg aftur til starfa eftir barneignarleyfi. Fjóla tók við umsjón í 1. og 2. bekk ásamt Berglindi Rós og Sara fór aftur inn í stjórnendateymið með Guðrúnu Elsu. Vikan var með óhefðbundnu sniði hjá okkur þar sem það var starfsdagur á þriðjudaginn og á miðvikudaginn mættu foreldrar/forráðamenn í viðtöl til umsjónarkennara barna sinna. Viðtölin voru vel sótt og þökkum við öllum kærlega fyrir komuna. Gott samstarf milli heimila og skóla skiptir miklu máli. Við minnum á að foreldrar/forráðamenn eru alltaf velkomin í heimsókn til okkar, það þarf ekki að gera boð á undan sér. Í næstu viku verður starfsdagur hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd sem starfsfólk Höfðaskóla mun taka þátt í og því fellur skólahald og frístund niður föstudaginn 27. janúar. Við minnum á mikilvægi þess að nemendur mæti með íþróttaföt þá daga sem íþróttatímar eru á stundaskrá. Við vonum að þið njótið helgarinnar Áfram Ísland Kveðja Sara Diljá og Guðrún Elsa
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel. Nemendur eru í óða önn að ljúka við námsmatsverkefni sem hefur gengið vel. Veðrið hefur verið allskonar og nú í lok vikunnar er búið að vera ansi kalt. Við klæðum okkur þá bara betur. Í næstu viku er starfsdagur á þriðjudag og því enginn skóli hjá nemendum og á miðvikudag verða svo foreldraviðtöl. Nemendur mæta því hvorki í skólann á þriðjudag né miðvikudag. Viðtölin bóka foreldrar í gegnum Mentor. Ef þær tímasetningar sem í boði eru henta alls ekki má hafa samband við umsjónarkennara í tölvupósti og fundin verður lausn á þeim málum. Á fimmtudag og föstudag verða svo hefðbundnir skóladagar og ný önn hefst. Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa
Lesa meira

Föstudagskveðja á nýju ári

Sæl kæru vinir og gleðilegt nýtt ár Skólastarfið fer vel af stað eftir gott jólafrí Nemendur eru í óða önn að ljúka við þau verkefni sem þurfa að klárast fyrir annarlok og kennarar á fullu í námsmatsvinnu þar sem vorönn hefst 19.janúar. Veðrið er síbreytilegt á þessum árstíma og við minnum á að mikilvægt er að nemendur komi vel klæddir í skólann. Gott er að hafa auka par af sokkum með í skólatöskunni. Að lokum minnum við á hafragrautinn góða sem Haddý töfrar fram á hverjum morgni og er í boði frá 7:45. Einnig er ávaxtastund á miðvikudögum og því ekki þörf á að koma með nesti þá daga. Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa
Lesa meira

Jólakveðja starfsmanna Höfðaskóla

Yngsta stigið sendir kveðjur góðar og sæl þau fara heim að halda jól. Úti kætast þau með kinnar rjóðar og jólasveinar komnir eru á ról. Á miðstigi er margt búið að bralla og margir orðnir spenntir fyrir því, að kveðji Ásdís, Gigga, Dúfa og Halla svo allir komist heim í jólafrí. Unglingarnir eru ekkert spenntir að Elva og Dagný sendi þá í frí. Þeir eru varla heima hjá sé lentir, er skólinn byrjar aftur, enn á ný. Við óskum ykkur gleðilegra jóla með von um að þið dragið gæfuspil. Allir starfsmenn hér í Höfðaskóla senda hlýjar kveðjur ykkar til.
Lesa meira

Síðasta föstudagskveðjan fyrir jólafrí

Heil og sæl Vikan í Höfðaskóla gekk vel og það var margt um að vera. Snjálfur álfur hefur verið í heimsókn á yngsta stigi og tekið upp á ýmsu. Nágrannar okkar í Tónlistarskóla A-Hún komu á mánudaginn og fimmtudaginn og stýrðu söng þar sem allur skólinn tók undir. Á fimmtudaginn fengur nemendur skólans piparkökur og heitt/kalt kakó í nestistímanum. Í morgun fóru nemendur skólans ásamt starfsfólki yfir í kirkjuna og hlustuðu á jólaminningar Þorgerðar Þóru (Giggu). Nokkrir nemendur af unglingastigi stýrðu söng og aðrir nemendur skólans tóku undir af mikilli snilld. Í hádeginu var síðan boðið uppá möndlugraut sem Guðrún, Ásdís og Finnbogi hrærðu ásamt dyggu aðstoðarfólki. Ein mandla fyrir hvern bekk og var gaman að sjá nemendur gleðjast yfir því að fá möndluna sem og hina sem samglöddust með bekkjarfélögum sínum. Í dag lauk söfnuninni okkar til styrktar jólasjóðs Skagastrandar og Skagabyggðar, söfnuðust 61.500 krónur sem munu án efa koma sér vel nú fyrir jólahátíðina. Þess má geta að ein amman gaf 1000kr fyrir hvert barnabarn sem hún á í skólanum og kunnum við henni okkar bestu þakkir. Á mánudaginn verða svo litlu jólin okkar. Nemendur mæta í skólann kl. 9:00 og verða til 12:00. Allt starfsfólk verður mætt kl. 8:00 þannig að ef þannig stendur á þá er auðvitað í lagi að nemendur mæti fyrr. Við ætlum að dansa í kringum jólatré þar sem Hugrún Sif spilar undir fyrir okkur og Sóley Sif leiðir sönginn :) Engin frístund þennan dag heldur halda allir heim í jólafrí á hádegi. Frekari upplýsingar um litlu jólin munu berast foreldrum/forráðamönnum frá umsjónarkennurum. Höfðaskóli er einstaklega heppinn að eiga hæfileikaríkt og gott fólk í kringum sig sem kemur til aðstoðar við hin ýmsu tilefni. Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum jólakveðjur Guðrún Elsa
Lesa meira

Skemmtikvöld fyrir nemendur á miðstigi

Nemendafélag Höfðaskóla hélt í gærkvöldi skemmtikvöld fyrir alla nemendur á miðstigi. Farið var í Bingo og spilað Kviss. Nemendafélagið var einnig búið að útbúa sína útfærslu af þrautum sambærilegum og eru í þáttunum Kappsmál á RUV. Kvöldið heppnaðist vel og þökkum við nemendafélaginu fyrir augljósan metnað til að gera kvöldið skemmtilegt.
Lesa meira

Heimsókn nemenda á unglingastigi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Undanfarin 2 ár hafa nemendur unglingastigs verið með 2 list- og verkgreinavikur yfir skólaárið, þar sem farið hefur verið í hinar ýmsu greinar sem hægt er að kenna hér í húsi. Í haust var ákveðið að leita eftir samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) varðandi þessa viku nú á haustönn. Starfsfólk FNV tók mjög vel í beiðni okkar og niðurstaðan var sú að nemendur okkar fóru 2 daga í kennslu í FNV. Báða dagana snæddu nemendur í mötuneyti heimavistarinnar. Miðvikudaginn 7. desember hélt hópurinn af stað árla morguns ásamt umsjónarkennurum yfir á Sauðárkrók. Þar tóku Karítas umsjónarmaður FabLab og Hrannar og Óskar kennarar í tréiðnadeild á móti okkur. Unglingarnir unnu í 2 hópum að smíðaverkefnum, lærðu að vinna myndir í InkScape fyrir laserskera og límmiðaskurð, myndirnar voru síðan þrykktar á boli og afraksturinn varð ansi fjölbreyttur. Það var þreyttur hópur sem kom heim seinni part dagsins. Á fimmtudagsmorgni 8. desember var aftur haldið af stað og á móti okkur tóku Garðar í rafiðnadeildinni og Geir og Jónatan í málmsmíðadeildinni. Nemendur fengu að prófa að rafsjóða, vinna með plötuskurð og sum fengu að prófa að sandblása. Einnig voru fjöltengi fjöldaframleidd í rafiðnaðardeildinni, ásamt því að öll fengu að prófa að lóða annað hvort ljósabretti eða koparvír. Nemendur okkar stóðu sig með prýði og fengu mikið hrós frá starfsfólki FNV og mötuneytisins fyrir kurteisi og prúða framkomu. Við þökkum starfsfólki FNV kærlega fyrir góðar móttökur og vonum að þetta samstarf okkar eigi að halda áfram.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl og blessuð Nemendur á unglingastigi dvöldu á Sauðárkróki í FNV frá kl. 8:00-17:00 bæði miðvikudag og fimmtudag í þessari viku. Þar fengu þau kynningu á málmiðn, húsasmíði, rafiðn og FabLab. Nemendur og kennarar voru mjög ánægð með heimsóknina og þökkum við Fjölbrautaskóla Norðurlans vestra fyrir höfðinglegar móttökur. Næsta vika er síðasta heila skólavikan fyrir jólafrí og þá verður ýmislegt um að vera. Á mánudag verða sungin jólalög með aðstoð Hugrúnar og Elvars Loga kennara í Tónlistarskóla A-Hún, á miðvikudaginn verða kakó og piparkökur í nestinu og á fimmtudaginn verður síðasta söngstundin. Á föstudaginn ætlum við saman í kirkjuna og eiga þar notalega stund, hlusta á jólasögu og syngja jólalög. Möndlugrauturinn verður svo á sínum stað þann sama dag. Allar nánari upplýsingar um þessa daga fást hjá umsjónarkennurum. Að lokum minni ég á söfnunina okkar fyrir Velunnarafélag Skagastrandar og Skagabyggðar :) Ég vona að þið njótið helgarinnar Með góðum kveðjum Guðrún Elsa
Lesa meira

Söngur á "sal"

Í morgun kl. 10:00 hittust allir nemendur og starfsfólk skólans og sungu saman jólalög við undirleik okkar frábæru nágranna í tónlistarskólanum, Hugrúnu Sif og Elvari Loga. Dásamleg stund sem verður endurtekin í næstu viku :)
Lesa meira