16.01.2026
Vikan í Höfðaskóla gekk vel og allt í einu er janúar hálfnaður.
Við erum að lestrarprófa alla nemendur skólans í þessari viku og næstu. Niðurstöður verða svo kynntar í foreldraviðtölum 3.febrúar næstkomandi.
Þriðju námslotu skólaársins er að ljúka og er nýtt námsmat að detta inn hjá nemendum skólans. Námsvísir verður svo uppfærður á miðvikudaginn í næstu viku og er þá hægt að sjá skipulag fjórðu námslotu skólans.
Fram að jólum fóru allir nemendur skólans í útikennslu með Berglindi Sólrós en núna fara þau í listir hjá Kristbjörgu Dúfu, myndir af fyrstu verkefnum yngsta stigs eru hér.
Vegna síbreytilegra veðurskilyrða viljum við minna á mikilvægi þess að nemendur séu vel búnir fyrir útiveru. Við mælum sérstaklega með því að hafa auka sokkapar í töskunni, þar sem blaut föt geta haft áhrif á líðan barnanna yfir skóladaginn.
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
14.01.2026
Í dag fóru nemendur í kvikmyndavali í vettvangsheimsókn á kvikmyndabraut FNV á Sauðárkróki. Þar fengu þau kynningu á náminu og því hvernig kennslan er skipulögð frá Árna Gunnarssyni. Hann sagði frá því hvaða möguleikar standa nemendum til boða að loknu námi, bæði varðandi áframhaldandi nám og störf á sviði kvikmyndagerðar og tengdra greina. Að auki sýndi hann nemendum aðstöðuna og búnaðinn sem notaður er í kennslunni. Ferðin heppnaðist vel og nemendur voru ánægðir með heimsóknina.
Við þökkum kærlega fyrir móttökurnar.
Lesa meira
09.01.2026
Heil og sæl og gleðilegt nýtt ár.
Það var afskaplega skemmtilegt að hitta nemendur aftur eftir gott jólafrí.
Vikan gekk vel og mættu nemendur flest öll tilbúin til að takast á við amstur hversdagsins.
Berglind Sólrós vann sinn síðasta dag í Höfðaskóla og þökkum við henni kærlega fyrir samstarfið sl. ár.
Í næstu viku, 16.janúar, líkur lotu þrjú og vænta má þá námsmats í kjölfarið.
Við minnum á að mikilvægt er að nemendur komi vel klæddir í skólann. Gott er að hafa auka par af sokkum með í skólatöskunni.
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
19.12.2025
Í gær var síðasti skóladagur ársins sem endaði á skemmtilegri stund þegar litlu jólin voru haldin með hátíðarbrag í Fellsborg.
Um morguninn voru nemendur með sínum umsjónarkennurum og brölluðu ýmislegt skemmtilegt. Við fórum svo öll saman í hádeginu og borðuðum möndlugrautinn.
Seinnipartinn mættum við svo aftur prúðbúin, áttum góða stund þar sem Esme og Kristín voru búnar að undirbúa dásamlegan hátíðarkvöldverð og dagurinn endaði svo á jólaballi, þar sem Hugrún Sif leiddi söng og dans.
Nemendur héldu svo í jólafrí og mæta aftur í skólann mánudaginn 5. janúar 2026 kl. 8:20.
Höfðaskóli þakkar starfsfólki, nemendum og öllum sem komu að máli og gerðu þessa stund hátíðlega.
Myndir hér.
Lesa meira
17.12.2025
Það er rótgróin hefð í Höfðaskóla að nemendur 10. bekkjar skreyti jólatréð sem síðan er dansað í kringum á litlu jólunum. Í ár var það árgangur 2010, sem leysti þetta verkefni af stakri prýði. Að þeirra mati hefur vart sést jafn vel skreytt jólatré áður.
Myndir hér
Lesa meira
17.12.2025
Á morgun, fimmtudaginn 18.des, er síðasti skóladagurinn fyrir jólafrí. Nemendur verða með sínum umsjónarkennurum frá 9:00-12:00. Allir borða saman möndlugraut í hádeginu í Fellsborg. Frístund verður með hefðbundnu sniði eftir hádegi og svo hefjast litlu jólin í Fellsborg kl. 17:00 þar sem við borðum hátíðarkvöldverð og dönsum kringum jólatréð. Eftir það halda nemendur og starfsfólk í jólafrí.
Lesa meira
12.12.2025
Vikan í Höfðaskóla var lífleg og skemmtileg og margt um að vera.
Næsta vika er síðasta vikan fyrir jólafrí, en hún er stutt í annan endan þar sem litlu jólin okkar eru 18. desember og nemendur fara í jólafrí eftir þau.
Á þriðjudaginn verða jólaföndurstöðvar í skólanum frá kl. 10:00-12:00 og einnig verður boðið uppá piparkökur og heitt kakó.
Á miðvikudag ætla nemendur okkar í 10. bekk að skreyta jólatréð okkar í Fellsborg.
Fimmtudaginn 18.desember ætlum við að syngja saman jólalög, eiga notalega stund í stofum með umsjónarkennurum og fara svo öll saman í möndlugraut upp í Fellsborg í hádeginu. Engin kennsla eftir hádegi en frístund með hefðbundnu sniði.
Litlu jólin hefjast svo 18. desember kl. 17:00 og mæta nemendur í Fellsborg en þar ætlum við að borða saman hátíðarkvöldverð í og dansa í kringum jólatréð en Hugrún Sif ætlar að leiða jólasönginn. Þetta er annað árið Þar sem litlu jólin eru með þessu sniði og viljum við biðja nemendur um að mæta prúðbúin og snyrtileg svo stundin verði jafn hátíðleg og í fyrra. Litlu jólunum lýkur svo um kl. 19:00 og þá halda nemendur heim í jólafrí.
Að lokum minnum við á að foreldrar og forráðamenn eru alltaf velkomin í heimsókn til okkar, ekki þarf að gera boð á undan sér. Hvort sem það er til að kíkja í kaffibolla eða sjá það sem nemendur eru að fást við.
Með góðum kveðjum
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira
09.12.2025
Yngsta stig skelltu sér í fína útiveru þrátt fyrir rok. Jörðin er auð eins og er og nokkur voru vel moldug eftir fjörið. Þau léku sér að því að beisla vindinn með pokum í bandi. Oft er það einfalda sem gleður hvað mest og gott er að muna það í aðdraganda jólanna.
Lesa meira
09.12.2025
Nemendur í 1. og 2. bekk settu upp svunturnar í morgun og bökuðu piparkökur, skreyttu með glassúr og öll skemmtu þau sér konunglega við verkefnið.
Undirbúningurinn hófst í mánudagsritun í gær þegar nemendurnir skrifuðu uppskriftina vandlega niður í ritunarbækurnar sínar.
Baksturinn gekk afar vel og Þegar kökurnar komu úr ofninum og höfðu kólnað var kominn tími til að skreyta.
Þetta verkefni var samþætt á milli námsgreina þar sem nemendurnir æfðu ritun, tileinka sér leiðbeiningar og vinna saman að sameiginlegu markmiði. Slík verkefni eru dýrmæt og nauðsynleg í amstri dagsins, þar sem nemendur fá að slaka aðeins á, njóta samveru og læra á skemmtilegan hátt.
Allir nemendur í 1. og 2. bekk eiga hrós skilið fyrir frábæra vinnubrögð og góða liðsheild.
Lesa meira
05.12.2025
Þá er fyrsta vika desember liðin og spennan fyrir jólunum eykst með hverjum deginum sem líður. Í vikunni var fullt um að vera og við erum dugleg að setja inn fréttir á heimasíðuna og hvetjum ykkur til að fylgjast með.
Nemendur sungu og trölluðu í matsal skólans undir stjórn Hugrúnar sl. miðvikudag og voru það jólalög sem bárust um alla króka og kima skólans.
Nemendur yngsta stigs fóru í heimsókn í Spákonuhof í vikunni og er það ávallt ævintýri, nánar hér.
Mánudaginn 8. desember n.k. verða jólaljósin tendruð á jólatrénu á Hnappstaðatúni.
Við höfum hægt og rólega verið að vinna í að endurgera jólamyndirnar sem voru í gluggum skólans hér á árum áður. Myndirnar fara upp í glugga á vesturhlið skólans í næstu viku og hvetjum við ykkur til að skoða þær.
Jólatónleikar tónlistarskólans voru í gær og stóðu nemendur sig með stakri prýði. Það er alltaf hátíðlegt að mæta á jólatónleikana þeirra og sjá þau spila og syngja.
Í næstu viku er jólapeysudagur á mánudag og hvetjum við öll til að mæta í jólapeysum eða jólasokkum.
Næsta vika er síðasta heila skólavikan á þessu ári, litlu jólin okkar verða svo 18. desember en allar nánari upplýsingar um þau koma í næstu viku.
Við vonum að þið njótið helgarinnar
Með góðri kveðju
Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira