Fréttir

Föstudagskveðja

Þá er fyrsta vika desember liðin og spennan fyrir jólunum eykst með hverjum deginum sem líður. Í vikunni var fullt um að vera og við erum dugleg að setja inn fréttir á heimasíðuna og hvetjum ykkur til að fylgjast með. Nemendur sungu og trölluðu í matsal skólans undir stjórn Hugrúnar sl. miðvikudag og voru það jólalög sem bárust um alla króka og kima skólans. Nemendur yngsta stigs fóru í heimsókn í Spákonuhof í vikunni og er það ávallt ævintýri, nánar hér. Mánudaginn 8. desember n.k. verða jólaljósin tendruð á jólatrénu á Hnappstaðatúni. Við höfum hægt og rólega verið að vinna í að endurgera jólamyndirnar sem voru í gluggum skólans hér á árum áður. Myndirnar fara upp í glugga á vesturhlið skólans í næstu viku og hvetjum við ykkur til að skoða þær. Jólatónleikar tónlistarskólans voru í gær og stóðu nemendur sig með stakri prýði. Það er alltaf hátíðlegt að mæta á jólatónleikana þeirra og sjá þau spila og syngja. Í næstu viku er jólapeysudagur á mánudag og hvetjum við öll til að mæta í jólapeysum eða jólasokkum. Næsta vika er síðasta heila skólavikan á þessu ári, litlu jólin okkar verða svo 18. desember en allar nánari upplýsingar um þau koma í næstu viku. Við vonum að þið njótið helgarinnar Með góðri kveðju Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Heimsókn í Spákonuhof

Yngsta stig skólans fór í ánægjulega heimsókn í Spákonuhof þar sem Dadda tók á móti krökkunum. Heimsóknin byrjaði með því að Dadda las fyrir börnunum bókina Horaða jólatréð, sem vakti mikla lukku hjá krökkunum. Með lifandi frásögn hélt hún athygli allra og börnin hlustuðu gaumgæfilega á söguna. Það er alltaf mikilvægt fyrir yngstu nemendurna að fá að upplifa bókmenntir á skemmtilegan og grípandi hátt, og tókst það vel. Að bóklestri loknum sagði Dadda börnunum einnig frá Þórdísi spákonu, sem var áhugavert og fræðandi fyrir nemendur. Þessi hluti heimsóknarinnar bætti við menningarlegu gildi upplifunarinnar og gaf krökkunum innsýn í áhugaverða sögu staðarins. Starfsfólk skólans var afar ánægt með heimsóknina og þakkar starfsfólki Spákonuhofs kærlega fyrir ánægjulega móttöku og góða stund. Það er alltaf notalegt að heimsækja Spákonuhofið þar sem andrúmsloftið er hlýlegt og gestrisni einstök. Slíkar heimsóknir eru mikilvægur hluti af námi barnanna og gefa þeim tækifæri til að læra utan kennslustofunnar. Yngsta stig hlakkar til að heimsækja Spákonuhofið aftur.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Sæl öll Líflega vika hér í skólanum að baki. Okkur langar að byrja á því að þakka kærlega fyrir komuna á stigsskemmtanirnar sem fóru fram í vikunni. Það krefst kjarks að stíga á svið og sýna listir sínar, við erum einstaklega stolt af öllum nemendum skólans fyrir frammistöðuna. Myndir hér Nú þegar nóvember er senn á enda, fer ekki framhjá neinum að jólin nálgast óðfluga. Nemendur eru orðnir spenntir fyrir komandi mánuði og öllum þeim ljósum og gleði sem fylgja. Í næstu viku verður boðið verður upp á foreldraviðtöl, þau eru valfrjáls. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem vilja ræða nánar um námslega eða félagslega stöðu nemenda. Skráning í viðtölin fer fram í gegnum Námfús og hvetjum við ykkur til að ganga frá skráningu sem fyrst. Dagskrá desembermánaðar er á heimasíðu skólans. Einnig viljum við minna á dagatal foreldrafélagsins. Frétt hér Við þökkum fyrir ánægjulega viku og hlökkum til þeirrar næstu. Með bestu kveðju og ósk um góða helgi, Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Lestur lykillinn að ævintýrum og þekkingu

Sandra okkar besti bókavörður stóð fyrir bókakynningu í morgun þar sem allir nemendur skólans söfnuðust saman. Kynntar voru spennandi jólabækurnar og nemendurnir hvattir til dáða við lesturinn. Við minnum á að lestur göfgar manninn og opnar heiminn upp á gátt. Lestur lykillinn að ævintýrum og þekkingu.
Lesa meira

Jólabakstur

Nemendur á miðstigi eru að læra um hinar ýmsu vetrarhefðir þessa lotuna og ætla alla mánudaga fram að jólum að prófa rétti sem tengjast jólahefðum í Kína, Indlandi, Svíþjóð og á Íslandi. Í þessari viku voru bakaðar Lúsíubollur, eða Lussekatter, sem eru hefðbundnar sænskar jólabollur tengdar Lúsíumessu sem er 13. desember. Krakkarnir vönduðu sig mikið og fengu að smakka afraksturinn, sem vakti mikla lukku. Næstu mánudaga fram að jólafríi höldum við síðan áfram að prófa okkur áfram með rétti úr mismunandi löndum og smakka það sem tilheyrir þeirra jólahefðum. Þetta er tilvalið tækifæri fyrir þau að spreyta sig í eldhúsinu, efla matarmenningu sína og læra að meta fjölbreytileika í siðum og venjum víðs vegar um heiminn. Á sama tíma styrkja þau samvinnu, vinnubrögð og skapandi hugsun. Við hlökkum mikið til framhaldsins og eigum eftir að kynnast mörgum spennandi réttum áður en jólafríið skellur á.
Lesa meira

Fjáröflun foreldrafélags Höfðaskóla

Eins og var kynnt á stigskemmtunum í vikunni ætlar foreldrafélag Höfðaskóla að vera með fjáröflun eins og síðustu ár. Til sölu verður dagatal sem inniheldur leiðbeiningar fyrir gönguferðir/hugmyndir af fjölskyldusamveru fyrir hvern mánuð í nágrenni Skagastrandar ásamt korti yfir svæðinu sem um ræðir og staðreyndum. Fallegt dagatal sem vert er að eiga! Dagatalið kostar 3500 í forsölu fram á föstudag. Eftir það 4000 kr. Til þess að panta eintak er hægt að hafa samband við Monika Tischleder gjaldkera eða millifæra inn á reikning Höfðaskóla kt 671088-8599 Reikningsnúmer 0160-26-001865. Dagatölin verða afhent í desember
Lesa meira

Föstudagskveðja

Heil og sæl öll Í vikunni hefur allt verið á fullu í undirbúningi fyrir stigsskemmtanir sem haldnar verða í næstu viku. Nemendur í 9. og 10.bekk fóru í vel heppnaða ferð á Sauðárkrók þar sem þau sóttu starfamessu í boði SSNV. Þetta var afar lærdómsrík ferð þar sem nemendur fengu kynningu í verknámshúsinu og þeim fjölbreyttu námstækifærum sem þar standa til boða. Einnig heimsóttu þau bóknámshúsið þar sem hátt í 50 fyrirtæki voru að kynna starfsemi sína. Nemendur fengu þar dýrmæta innsýn í atvinnulífið og fræðslu um hvaða menntun liggur að baki hinum ýmsu störfum. Við vorum virkilega stolt af framkomu nemenda okkar í þessari ferð. Framundan er spennandi vika, sú síðasta í nóvembermánuði. Tíminn flýgur svo sannarlega áfram og desembermánuður er handan við hornið. Megináhersla næstu viku verður á stigsskemmtanirnar sem verða haldnar frá þriðjudegi til fimmtudags milli klukkan 16:00 og 17:00. Nemendur munu verja töluverðum tíma í lokaundirbúning til að fínpússa atriði sín og tryggja að allt gangi vel. Nánari upplýsingar verða auglýstar hjá hverju stigi fyrir sig. Það er heiður að fá að vinna með svo flottum hópi ungs fólks dags daglega. Við vonum að þið njótið helgarinnar Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Hipp hipp húrra fyrir Arnari

Nemendur unglingastigs tóku þátt í Fernuflugi, textasamkeppni MS, nú í haust. Allir nemendur sendu frá sér ljóð sem bar heitið "Að vera ég". Famúrskarandi textar eftir 48 grunnskólanema voru valdir til birtingar á mjólkurfernum MS og á Höfðaskóli þar fulltrúa. Arnar Gísl Birkisson, nemandi í 8.bekk, á ljóð sem mun birtast á nýju ári á mjólkurfernum landsmanna og óskum við honum hjartanlega til hamingju.
Lesa meira

Föstudagskveðja

Kæru foreldrar og forráðamenn. Nemendur á yngsta stigi eru farin að undirbúa stigsskemmtanir sem verða 25.-27.nóvember og er mikið sungið og trallað í skólanum þessa dagana. Nemendur 7.bekkjar dvöldu í skólabúðunum á Reykjum frá mánudegi fram á fimmtudag og létu vel af sér við heimkomuna. Margt skemmtilegt brallað hjá þeim í vikunni. Í næstu viku fara nemendur 9. og 10.bekkjar á starfamessu á Sauðárkróki fimmtudaginn 20.nóv, sjá meira um það hér. Nú engin sundkennsla fyrr en á nýju ári og minnum við á að nemendur fara núna í íþróttir á þeim tíma sem áður var sund og skiptir þá máli að vera með íþróttaföt á þeim dögum. Það er búið að vera ansi kalt úti og þurfa nemendur að vera klæddir í takt við veðrið og gott getur verið að hafa auka vettlinga og sokka í skólatöskunni. Við vonum að þið njótið helgarinnar Guðrún Elsa og Berglind Hlín
Lesa meira

Lögreglan heimsótti yngsta stig

Í dag fengu nemendur á yngsta stigi spennandi heimsókn frá lögreglunni sem kom með fræðslu um mikilvægi endurskinsmerkja. Lögreglan útbjó skemmtilegan leik í myrkvuðu herbergi þar sem krakkarnir leituðu að endurskinsmerkjum með vasaljósum sínum. Þetta var frábært tækifæri til að læra um mikilvægi þess að sjást í umferðinni og hafa gaman á sama tíma.
Lesa meira